Fara í innihald

Abkasía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Abkhasía)
Аҧсны́ Apsny (abkasíska)
Абхазия
Abkasíja (rússneska)
აფხაზეთი Apkhazeti (georgíska)
Fáni Abkasíu Skjaldarmerki Abkasíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
ekkert
Þjóðsöngur:
Аиааира
Staðsetning Abkasíu
Höfuðborg Súkúmí
Opinbert tungumál abkasíska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti
Forsætisráðherra
Raul Khadjimba
Valeri Bganba
Sjálfstæði frá Georgíu
 • yfirlýst 23. júlí 1992 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
*. sæti
8.660 km²
?
Mannfjöldi
 • Samtals (2015)
 • Þéttleiki byggðar
*. sæti
243.206
28/km²
VLF (KMJ) áætl. 2010
 • Samtals 0,682 millj. dala (*. sæti)
 • Á mann 3.000 dalir (*. sæti)
Gjaldmiðill apsar, rúbla
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .ge
Landsnúmer ++840

Abkasía (abkasíska: Аҧсны, Apsny; georgíska: აფხაზეთი, Apkhazeti eða Abkhazeti; rússneska: Абха́зия, Abkasíja) er ríki við austurströnd Svartahafs, sunnan við Stór-Kákasus, í norðausturhluta Georgíu. Það er 8.660 ferkílómetrar að stærð og íbúar eru um 240.000. Höfuðborg Abkasíu er Súkúmí. Abkasía nýtur takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar. Árið 2008 tók Rússland upp stjórnmálasamstarf við Abkasíu. Síðan þá hafa Níkaragva, Venesúela, Nárú og Sýrland bæst í hóp ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Abkasíu.

Samkvæmt stjórn Georgíu og flestum öðrum löndum heims er Abkasía sjálfstjórnarhérað í Georgíu. Staða Abkasíu er meginástæða átaka Georgíu og Abkasíu sem hafa staðið frá upplausn Sovétríkjanna 1991. Stríðið um Abkasíu 1992-1993 var afleiðing af vaxandi spennu milli abkasa og Georgíumanna. Því lauk með því að Georgía missti yfirráð yfir héraðinu þar sem þjóðernishreinsanir fóru fram. Síðan þá hafa átök blossað reglulega upp. Þegar stríð Rússlands og Georgíu stóð yfir í ágúst 2008 börðust abkasar við her Georgíu. Það leiddi til þess að Rússland viðurkenndi Abkasíu opinberlega. Georgía og mörg önnur ríki líta svo á að Abkasía sé í raun hernumin af rússneska hernum.

Ásamt Transnistríu, Suður-Ossetíu og Nagornó-Karabak, er Abkasía oft nefnd sem dæmi um „frosin átök“ innan fyrrum Sovétlýðvelda. Þessi fjögur ríki eiga með sér margvíslegt samstarf og styðja hvert annað.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Ritsa-vatn

Abkasía nær yfir 8.660 km² í norðvesturhluta Georgíu. Kákasusfjöll skilja milli Abkasíu og Rússlands í norðri og norðaustri. Í suðri og suðaustri liggur Abkasía að georgíska héraðinu Samegrelo-Zemo Svaneti og í suðri og suðvestri á landið strönd að Svartahafi.

Landslag Abkasíu er mjög fjölbreytt frá láglendi í suðri að háum fjöllum í norðri. Fjallgarðar Stór-Kákasusfjalla skipta norðurhlutanum í nokkra gróðursæla dali. Hæstu tindar Abkasíu eru í norðri og norðaustri og ná sumir yfir 4.000 metra hæð. Í suðurhlutanum er skóglendi þar sem hægt er að rækta sítrustré en í norðurhlutanum eru sum staðar jöklar. Stórir hlutar landsins eru ósnortin víðerni. Á landbúnaðarsvæðum er ræktað tóbak, te, vínviður og ávextir.

Margar ár renna úr fjöllunum til sjávar. Þær helstu eru Kodori-á, Bzyb-á, Ghalidzga-á og Gumista-á. Psou-á myndar hluta landamæranna við Rússland og Inguri-á myndar landamæri Abkasíu og Georgíu. Í fjalllendinu eru nokkur fjallavötn. Það stærsta er Ritsa-vatn.

Dýpsti hellir sem vitað er um, Veryovkina-hellir, er í vesturhluta Kákasusfjalla í Abkasíu. Samkvæmt síðustu mælingum er hæð hellakerfisins 2.212 metrar frá hæsta að lægsta kannaða punkti. Vegna nálægðarinnar við Svartahaf og skjólinu frá Kákasusfjöllum er veðurfar í Abkasíu afar milt. Við ströndina er hlýtemprað loftslag ríkjandi með meðalhita um 15° og yfir frostmarki í janúar. Veður kólnar síðan eftir því sem hærra dregur í fjöllunum. Úrkoma er mikil vegna fjallanna en minnkar eftir því sem innar dregur. Ársúrkoma er frá 1.200-1.400 mm við ströndina og 1.700-3.500 mm ofar í fjöllunum. Töluvert af snjó fellur í fjöllunum.

Skógar úr eik, beyki og agnbeyki þöktu áður láglendið en hefur verið rutt í burtu.

Helstu samgönguleiðir inn í Abkasíu eru um tvær brýr; Inguribrúna í suðri, skammt frá borginni Zugdidi, og Psou-brúna í norðri í bænum Leselidze. Vegna deilna um stöðu landsins vara mörg ríki þegna sína við því að ferðast til Abkasíu.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Abkasía er forsetaræði þar sem forseti er kosinn í beinum kosningum og er höfuð framkvæmdavaldsins auk þess að vera þjóðhöfðingi. Þing Abkasíu fer með löggjafarvaldið. Þingfulltrúar eru 35. Sagt er að önnur þjóðarbrot en Abkasar (Armenar, Georgíumenn og Rússar) eigi færri fulltrúa en fjöldi þeirra segir til um. Landflótta Georgíumenn hafa ekki getað tekið þátt í kosningum í Abkasíu.

Abkasískir embættismenn hafa sagt að Rússum hafi verið falið að fara með hagsmuni þeirra erlendis.

Samkvæmt könnun sem bandaríski háskólinn University of Colorado Boulder gerði árið 2010 studdi mikill meirihluti íbúa Abkasíu sjálfstæði en minnihluti er fyrir sameiningu við Rússland. Afar fáir styðja sameiningu við Georgíu. Jafnvel meðal þeirra sem telja sig Georgíumenn er stuðningur við sjálfstæði Abkasíu um 50%.

Sjálfstjórnarlýðveldið Abkasía

[breyta | breyta frumkóða]

Ríkisstjórn sjálfstjórnarlýðveldisins Abkasíu er útlagastjórn héraðsins sem Georgía viðurkennir sem lögmæta stjórn þess. Þessi stjórn hafði yfirráð yfir litlu svæði í Kodori-dal frá 2006 til 2008 þegar hún var hrakin þaðan. Stjórnin ber ábyrgð á um 250.000 flóttafólki í eigin landi sem neyddist til að yfirgefa Abkasíu í þjóðernishreinsunum. Núverandi stjórnarformaður útlagastjórnarinnar er Vakhtang Kolbaia.

Í stríðinu um Abkasíu flúði stjórn sjálfstjórnarlýðveldisins (þá georgíski hlutinn af ráðherraráði Abkasíu) frá Abkasíu þegar aðskilnaðarsinnar náðu Súkúmí á sitt vald. Stjórnin flutti þá til Tbilisi þar sem hún starfaði sem útlagastjórn í 13 ár. Leiðtogi stjórnarinnar, Tamaz Nadareishvili, var þekktur fyrir harða afstöðu gegn sjálfstæði Abkasíu og kallaði eftir hernaðaríhlutun Georgíu.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]
Umdæmi Abkasíu: 1 Gagra, 2 Gudauta, 3 Súkúmí, 4 Ochamchira, 5 Gulripshi, 6 Tkvarcheli, 7 Gali.

Abkasía skiptist í sjö umdæmi (raion) sem eru nefndar eftir höfuðstað sínum: Gagra-umdæmi, Gudauta-umdæmi, Súkúmíumdæmi, Ochamchira-umdæmi, Gulripshi-umdæmi, Tkvarcheli-umdæmi og Gali-umdæmi.

Forsetinn skipar umdæmisstjóra úr hópi kjörinna fulltrúa á umdæmaþingum. Umdæmisstjórinn skipar á sama hátt forseta kjörinna þorpsþinga.

Georgía skiptir Abkasíu á sama hátt fyrir utan hið nýmyndaða Tkvarcheli-umdæmi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]


  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.