Þormóður Torfason
Þormóður Torfason, Thormod Torfæus, Torvæus (27. maí 1636 – 31. janúar 1719) var sagnaritari og fornritaþýðandi sem bjó mestanpart ævi sinnar í Noregi. Hann var sonur Torfa Erlendssonar sýslumanns á Stafnesi og Þórdísar Bergsveinsdóttur, prests á Útskálum. Hann fæddist í Engey. Þormóður hefur verið kallaður „faðir norskrar sagnfræði“ fyrir hið stóra rit sitt um sögu Noregs.
Ævi Þormóðs
[breyta | breyta frumkóða]Þormóður varð stúdent frá Skálholtsskóla 1654 og fór að því búnu strax utan. Hann lærði í Kaupmannahafnarháskóla og varð fornritaþýðandi í þjónustu Danakonungs eftir 1659. Árið 1662 var hann sendur til að safna handritum á Íslandi og flutti þá til Kaupmannahafnar frá Brynjólfi Sveinssyni handritin Konungsbók Eddukvæða og Gráskinnuhandrit Njáls sögu.
Árið 1664 varð Þormóður kamerarius í Stafangursstifti og bjó þar síðan á Stangarlandi á eyjunni Körmt (Karmøy) úti fyrir Rogalandi þar sem gröf hans var inni í Ólafskirkju. Árið 1682 var hann gerður að sagnaritara Noregs á launum hjá konungi og árið 1704 að assessor í háskólaráði. Hann átti mikið samstarf við Árna Magnússon og nýtti handrit Árna mikið við sagnaritun sína þar sem hann fylgdi fyrst og fremst íslenskum frásögnum. Árni fékk handrit hans að honum látnum.
Þórmóður er þekktastur fyrir bækur sem hann skrifaði á latínu, en þær eru: Historia Vinlandiœ Antiquœ (1705); Grœnlandia Antiqua (1706) og Historia Rerum Norvegicarum (1711). Hin síðastnefnda hefur nú (2008) verið gefin út í norskri þýðingu, og hafa þrjú bindi af sex verið gefin út.
Morðið á Sámsey
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1671 ferðaðist hann til Íslands til að ganga frá erfðamálum. Í bakaleiðinni, árið 1672, varð hann skipreika á Sámsey við Jótland í Danmörku. Hermt var að nokkrir drukknir Íslendingar ásamt danska vertinum, Hans Pedersen, hefðu ruðst inn til hans eftir að hann var genginn til náða. Greip hann þá til korðans og lagði til vertsins með þeim afleiðingum að hann lést. Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða, en var síðan náðaður og dæmdur til að skrifta opinberlega og greiða hundrað ríkisdali í manngjöld.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Þormóður giftist árið 1665 Önnu Hansdóttur, auðugri ekkju sem lést árið 1695. Árið 1702 átti hann svo aðra Önnu Hansdóttur, sem hafði verið bústýra hans. Hann átti ekki börn með þeim, en var síðar talinn hafa átt mörg börn í lausaleik.
Eitt og annað
[breyta | breyta frumkóða]- Við hann er kennd tónlistarhátíð sem nefnist: „Tormod Torfæus Rock & Blues Festival“ og er haldin árlega á eyjunni Körmt.
- Þormóður var móðurbróðir Stokkseyrar-Dísu, og varð forsvarsmaður hennar þegar faðir hennar (þ.e. Markús Bjarnason) dó árið 1687. [1] Þormóður vildi fá hana til Danmerkur, en hún mun hafa tekið þvert fyrir það. Og vegna þess að Þormóður var í fjarlægu landi, og gat ekki haft umsjá með henni, fól hann Hans Londemann, sýslumanni að líta eftir með henni og ráða gjaforði hennar. Var það eðlilegt, þar sem Londemann var kvæntur systur hennar.
Verk
[breyta | breyta frumkóða]- Commentatio historica de rebus gestis Færoensium (1695)
- Orcades sive rerum Orcadensium historiæ libri tres (1697 og 1715)
- Series dynastarum et regum Daniæ (1702 og 1705)
- Historia Vinlandiæ antiqvæ sive partis Americæ septentrionalis (1705)
- Historia Hrolfi krakii (1705 og 1715)
- Groenlandia antiqva (1706)
- Trifolium historicum (1707)
- Historia rerum Norvegicarum I-IV (1711)
- Torfæana (1777)