Frelsi, jafnrétti, bræðralag
„Frelsi, jafnrétti, bræðralag“ (franska: Liberté, égalité, fraternité) er kjörorð Frakklands og lýðveldisins Haítí. Þó það eigi uppruna sinn í frönsku byltingunni var það þá bara eitt af mörgum slagorðum, en varð opinbert kjörorð árið 1870 undir Þriðja lýðveldinu. Deilt hefur verið um samsetningu og samhæfni kjörorðsins frá upphafi. Núverandi form þess er styttra en það upprunalega, sem var „Frelsi, jafnrétti, bræðralag, eða dauði!“ (Liberté, égalité, fraternité, ou la mort!).
Undir Vichy-stjórninni var því skipt út fyrir „Vinna, fjölskylda, föðurland“ (Travaille, famille, patrie). Vichy-stjórnin féll árið 1945 en árið eftir var upprunalega kjörorðið tekið upp á ný. Frá þessum tíma hefur það staðið í stjórnarskrá Frakklands.
Stundum er kjörorðið notað ásamt litunum þremur á franska fánanum, en það eru engin tengsl á milli þess og fánans. Kjörorðið stendur á frönskum evrumyntum.