Úkraínska byltingin 2014

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Úkraínska byltingin 2014
Hluti af Evrómajdan-mótmælunum
SState flag of Ukraine carried by a protester to the heart of developing clashes in Kyiv, Ukraine. Events of February 18, 2014.jpg
Mótmælendur berjast við stjórnarliða á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði þann 18. febrúar 2014.
Dagsetning18.–23. febrúar 2014 (5 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur byltingarmanna

Leiðtogar
Arseníj Jatsenjúk
Vítalí Klitsjkó[4]
Oleh Tjahnjbok
Petró Pórósjenkó
Júríj Lútsenkó
Olexander Túrtsínov
Andríj Parúbíj
Andríj Sadovjí
Rúslana
Tetjana Tsjornovol
Dmíjtró Búlanov
Dmíjtró Jarosj
Refat Tsjúbarov
Viktor Janúkóvitsj
Serjíj Arbuzov
Vítalíj Sakartsjenkó
Olexander Jefremov
Andríj Kljujev
Hennadíj Kernes
Mikhaíl Dobkin
Viktor Psjonka
Olena Lúkasj
Júríj Bojkó
Leoníd Kosjara
Dmíjtró Tabatsjíjk
Mannfall og tjón
Dauðsföll alls: 121[5]
Heildartala slasaðra: 1.811
Heildartalning úkraínska heilbrigðisráðuneytisins (16. apríl 2014 @6:00 að staðartíma)[10]

Úkraínska byltingin, einnig kölluð virðuleikabyltingin[11] (úkraínska: Революція гідності; Revoljútsíja hidnosti) af stuðningsmönnum hennar, átti sér stað þegar úkraínska forsetanum Viktori Janúkóvitsj var steypt af stóli í febrúar árið 2014. Byltingin fór fram í kjölfar hinna mannskæðu Evrómajdan-mótmæla sem brutust út í Kænugarði eftir að Janúkóvitsj ákvað að hætta við samning um nánara samstarf Úkraínu við Evrópusambandið og undirritaði þess í stað starfssamning við Rússland. Eftir að til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu flúði Janúkóvitsj land og var í kjölfarið leystur frá störfum af úkraínska þinginu.

Rússar, bandamenn þeirra og innlendir stuðningsmenn Janúkóvitsj líta á atburðina árið 2014 sem valdarán gegn lýðræðislega kjörinni stjórn sem hafi verið skipulagt og fjármagnað af Bandaríkjunum og hinum vesturveldunum.[12] Eftir að Janúkóvitsj hrökklaðist frá völdum sendu Rússar herlið á Krímskaga og innlimuðu hann í Rússland í kjölfar atkvæðagreiðslu. Rússar sendu jafnframt herafla inn í Donbas-héruðin í austurhluta Úkraínu til að styðja hreyfingar aðskilnaðarsinna sem höfnuðu stjórnarskiptunum í Kænugarði og sóttust eftir nánara sambandi eða samruna við Rússland. Þessir atburðir voru upphaf hernaðardeilna milli Rússlands og Úkraínu sem standa enn í dag og náðu hámarki með innrás Rússa í Úkraínu árið 2022.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Rætur úkraínsku byltingarinnar liggja í langvarandi klofningi meðal Úkraínumanna milli þeirra sem aðhyllast nánara samband við Evrópu og Vesturlönd og þeirra sem aðhyllast áframhaldandi náið samband við grannríkið Rússland, sem er náskyld þjóð Úkraínumönnum og hefur ráðið yfir landsvæði Úkraínu mikinn hluta af sögu hennar.[13] Sögulega séð hefur vesturhluti Úkraínu, þar sem meirihluti íbúa talar úkraínsku og úkraínsk þjóðernisvitund er útbreiddari, hallað sér að Evrópu en austurhlutinn, þar sem margir íbúar eru rússneskumælandi, hefur viljað rækta sambandið við Rússa.[14]

Ágreiningur um þessi efni leiddi árið 2004 til appelsínugulu byltingarinnar svokölluðu, þar sem fjöldamótmæli gegn ætluðu kosningasvindli leiddu til þess að forsetakosningar voru endurteknar og Viktor Jústsjenkó var kjörinn forseti Úkraínu. Jústsjenkó var hallur undir Vesturlönd og vildi leiða Úkraínu inn í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Á forsetatíð Jústsjenkós frá 2004 til 2010 miðaði hins vegar lítið áfram í þeim efnum, einkum vegna ágreinings milli Jústsjenkós og forsætisráðherrans Júlíu Tímósjenkó. Þessi ágreiningur og óánægja með brostin fyrirheit appelsínugulu byltingarinnar stuðluðu að því að árið 2010 var Viktor Janúkóvitsj kjörinn forseti í hnífjöfnum kosningum á móti Tímósjenkó. Janúkóvitsj hafði tapað gegn Jústsjenkó í kosningunum 2004 og var afar vilhallur Rússum.[15]

Stjórnartíð Janúkóvitsj[breyta | breyta frumkóða]

Viktor Janúkóvitsj og Vladímír Pútín undirrita samstarfssamning þann 17. desember 2013.

Eftir að Janúkóvitsj tók við embætti forseta var Júlía Tímósjenkó ákærð fyrir að hafa misbeitt valdi sínu í tengslum við gassamning sem hún gerði við Rússland á meðan hún var forsætisráðherra árið 2009. Árið 2011 var hún síðan dæmd í sjö ára fangelsi.[16] Árið 2013 úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu að dómurinn gegn Tímósjenkó hefði verið ólöglegur og gerræðislegur. Fangelsun hennar erfiðaði því samskipti stjórnar Janúkóvitsj við Evrópusambandið, sem stóð á þessum tíma í viðræðum um samstarfssamning við Úkraínu.[17]

Á forsetatíð sinni hafði Viktor Jústsjenkó hafið að semja við Evrópusambandið um samning um nánara viðskipta- og efnahagssamband Úkraínu og ESB. Janúkóvitsj hafði lengst af gefið út að stjórn hans myndi halda þessum viðræðum áfram og að hann myndi undirrita samninginn fyrir hönd Úkraínu. Stjórn Vladímírs Pútín í Rússlandi beitti Janúkóvitsj hins vegar þrýstingi til þess að koma í veg fyrir að Úkraína yki samstarf sitt við ESB. Rússar beittu ýmsum viðskiptaþvingunum til að ráða Úkraínumönnum frá því að skrifa undir samstarfssamninginn, meðal annars með því að stöðva innflutning á súkkulaði frá úkraínsku sælgætisverksmiðjunni Roshen.[14]

Hagvöxtur í Úkraínu hafði verið neikvæður frá árinu 2012 og því voru miklar vonir bundnar við samstarfssamninginn við ESB. Landið rambaði á barmi greiðslufalls en Vladímír Pútín hvatti Janúkóvitsj til að hafna samningnum við ESB og þiggja þess í stað stuðningspakka frá Rússlandi upp á 15 milljarða Bandaríkjadala.[15] Í október 2013 tilkynnti Janúkóvitsj á síðustu stundu að hann myndi ekki skrifa undir samninginn við Evrópusambandið og myndi þess í stað þiggja tilboð Pútíns. Samtök iðnrekenda höfðu varað við því að frekari refsiaðgerðir Rússa myndu skaða efnahag Úkraínu ef af samkomulaginu yrði.[17]

Evrómajdan-hreyfingin[breyta | breyta frumkóða]

Fjöldamótmæli á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði þann 2. febrúar 2014.
Átök milli lögreglu og mótmælenda í Kænugarði 18. febrúar 2014.

Samkomulagið við ESB hafði notið víðtæks stuðnings í Úkraínu, sér í lagi í vesturhlutanum, og ákvörðun Janúkóvitsj um að hætta við það kom flatt upp á marga. Júlía Tímósjenkó, sem enn sat í fangelsi, hvatti landsmenn til að mótmæla ákvörðuninni og knýja forsetann til að ganga að samningnum. Í nóvember 2013 hófust fjöldamótmæli gegn Janúkóvitsj sem hlutu nafnið Evrómajdan, í höfuðið á Majdan-torginu (eða Sjálfstæðistorginu) í Kænugarði.[15] Um miðjan desember höfðu um 200.000 mótmælendur safnast saman í Kænugarði.[18] Auk þess að krefjast þess að samningurinn við ESB yrði undirritaður fóru mótmælin að beinast með almennari hætti gegn spillingu og gerræði í ríkisstjórn Úkraínu. Mótmælendur kröfðust þess meðal annars að Júlía Tímósjenkó yrði látin laus úr haldi og að stjórnarskrárbreytingar frá árinu 2004 yrðu teknar upp á ný, en með þeim höfðu völd forseta Úkraínu verið skert.[19] Þrír fyrrverandi forsetar Úkraínu, þeir Leoníd Kravtsjúk, Leoníd Kútsjma og Viktor Jústsjenkó, gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við kröfur mótmælendanna.[14]

Mikill hiti færðist í mótmælin á næstu mánuðum og til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. Þann 30. desember 2013 gerði óeirðalögreglan Berkut árás á mótmælendur á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði en mætti harðri mótspyrnu.[11] Þann 19. febrúar 2014 höfðu að minnsta kosti 25 manns látist og allt að 1.000 manns særst í átökum þegar óeirðalögregla gerði atlögu að stærstu búðum mótmælendanna.[20][21] Kaflaskil urðu í átökunum þann 20. febrúar þegar leyniskyttur skutu af húsþökum á mótmælendur á Sjálfstæðistorginu.[17]

Vegna mótmælanna samþykkti úkraínska þingið með miklum meirihluta að skerða stjórnarskrárbundin völd forsetans í samræmi við breytingarnar frá árinu 2004. Þann 21. febrúar skrifaði Janúkóvitsj undir samkomulag um að forsetakosningum yrði flýtt og þær haldnar fyrir lok ársins.[22] Sama kvöld flúði Janúkóvitsj hins vegar frá Kænugarði og hélt til Karkív, þar sem hann naut enn umtalsverðs stuðnings.[23] Janúkóvitsj flúði síðan til Rússlands og sagðist hafa neyðst til að yfirgefa landið vegna ótta um líf sitt.[24]

Eftir að Janúkóvitsj hvarf frá Úkraínu kaus úkraínska þingið með miklum meirihluta að víkja honum úr embætti. Olexander Túrtsínov var útnefndur forseti til bráðabirgða og hann tók að sér að mynda þjóðstjórn fram að kosningum. Janúkóvitsj viðurkenndi ekki stjórnarskiptin og sakaði þingið um að hafa tekið þátt í valdaráni gegn sér. Í Úkraínu var Júlíu Tímósjenkó jafnframt sleppt úr fangelsi og Berkut-lögreglusveitirnar voru leystar upp.[25][11]

Eftirmálar[breyta | breyta frumkóða]

Rússar brugðust við óeirðunum í Kænugarði með því að senda herlið á Krímskaga með stuðningi héraðsstjórnvalda sem ekki viðurkenndu stjórnarskiptin.[17] Rússar og stuðningsmenn þeirra á Krímskaga héldu í kjölfarið atkvæðagreiðslu þar sem samþykkt var að Krímskagi yrði innlimaður í rússneska sambandslýðveldið.

Þegar kosningar voru haldnar í maí 2014 var auðkýfingurinn Petró Pórósjenkó kjörinn nýr forseti Úkraínu. Árið 2014 hófust jafnframt uppreisnir í austurhluta Úkraínu, þar sem meirihluti íbúa er rússneskumælandi. Aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins andmæltu nýju stjórnvöldunum í Kænugarði vegna fjandskaps þeirra við Rússland og vegna ítaka öfgahægrisinnaðra þjóðernisflokka og hreyfinga eins og Svoboda í nýju stjórninni.[26] Aðskilnaðarsinnarnir lýstu yfir stofnun sjálfstæðra „alþýðulýðvelda“ í Donetsk og Luhansk. Rússar veittu aðskilnaðarsinnunum aðstoð en stjórnvöld í Rússlandi neituðu því jafnan að um væri að ræða rússneska stjórnarhermenn.[27] Innlimun Krímskaga og stuðningur Rússa við aðskilnaðarsinna í Donbas-héruðunum hefur leitt til áframhaldandi hernaðardeilna Rússlands og Úkraínu.[28]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Ukraine: Speaker Oleksandr Turchynov named interim president". BBC News. 23. febrúar 2014.
 2. „Makhnitsky: Some 50 people to be charged with organizing killings of Ukrainians". Kyiv Post. 24. febrúar 2014. Skoðað 24. febrúar 2014.
 3. Haukur Viðar Alfreðsson (8. desember 2013). „Mótmælendur felldu styttu af Lenín“. Vísir. Sótt 12. mars 2022.
 4. Þórunn Elísabet Bogadóttir (13. febrúar 2014). „Boxarinn sem vill sameina Úkraínu“. Kjarninn. bls. 32-36.
 5. 5,0 5,1 5,2 „Accountability for killings in Ukraine from January 2014 to May 2016“ (PDF). Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. bls. 9, 21–25.
 6. МОЗ: З початку сутичок померло 28 людей. Ukrayinska Pravda (úkraínska). Afrit af upprunalegu geymt þann 1. desember 2008. Sótt 20. febrúar 2014.
 7. 7,0 7,1 „Police advance on EuroMaidan at night after government ultimatum". Kyiv Post. 18. febrúar 2014.
 8. „В полоні МВС: затримано 77 активістів, в'язниця загрожує 40 з них". Ukrayinska Pravda. Skoðað 20. febrúar 2014.
 9. „Police held hostage by protesters in Kiev: interior ministry". Chicago Tribune. 19. febrúar 2014. Skoðað 23. febrúar 2014.
 10. „Інформація про постраждалих під час масових акцій у Києві та у регіонах України станом на 06.00 год. 16 квітня 2014 року“. Heilbrigðisráðuneyti Úkraínu. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. apríl 2014. Sótt 16. apríl 2014.
 11. 11,0 11,1 11,2 Ægir Þór Eysteinsson (27. febrúar 2014). „Hættulegasti tíminn liðinn“. Kjarninn. bls. 52-56.
 12. „Forsætis­ráðherra Úkraínu segir mótmæli tilraun til valdaráns - byltingar­miðstöð í ráðhúsi Kiev - Pútín segir erlenda aðila standa að baki“. Evrópuvaktin. 2. desember 2013. Sótt 15. mars 2022.
 13. Þórgnýr Einar Albertsson (24. febrúar 2022). „Eilíf togstreita á milli austurs og vesturs“. RÚV. Sótt 15. mars 2022.
 14. 14,0 14,1 14,2 Guðsteinn Bjarnason (7. desember 2013). „Veigra sér við að styggja Rússa“. Fréttablaðið. bls. 56.
 15. 15,0 15,1 15,2 Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (17. janúar 2014). „Úkraína í kjöltu Moskvu“. Dagblaðið Vísir. bls. 24-25.
 16. „Júlía Tímósj­en­kó leyst úr haldi“. mbl.is. 22. febrúar 2004. Sótt 17. mars 2022.
 17. 17,0 17,1 17,2 17,3 Júlía Margrét Alexandersdóttir (9. mars 2014). „Á suðupunkti í Úkraínu“. Fréttablaðið. bls. 48-49.
 18. Hanna Rún Sverrisdóttir (15. desember 2013). „Um 200 þúsund mótmæla í Kænugarði“. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 19. Haukur Viðar Alfreðsson (5. febrúar 2014). „Vilja breyta stjórnarskránni til að draga úr völdum forseta“. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 20. „Tuttugu og fimm liggja í valnum í Kænugarði“. Vísir. 19. febrúar 2014. Sótt 17. mars 2022.
 21. Haukur Viðar Alfreðsson (19. febrúar 2014). „Yfir þúsund manns særðust í Kænugarði“. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 22. Haukur Viðar Alfreðsson (21. febrúar 2014). „Sættir milli stjórnarandstöðu og forseta Úkraínu“. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 23. Elimar Hauksson (22. febrúar 2014). „Viktor Janúkovítsj flúinn frá Kænugarði“. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 24. Haukur Viðar Alfreðsson (28. febrúar 2014). „Janúkovítsj: „Mér var ekki steypt af stóli““. Vísir. Sótt 17. mars 2022.
 25. Vilhjálmur A. Kjartansson (24. febrúar 2014). „Forsetaskipti í Úkraínu“. Morgunblaðið. bls. 15.
 26. Guðsteinn Bjarnason (30. ágúst 2014). „Fasistar og hryðjuverkamenn“. Morgunblaðið. bls. 28.
 27. Bogi Þór Arason (1. ágúst 2017). „Hyggjast stofna Litla Rússland“. Morgunblaðið. bls. 17.
 28. Bogi Þór Arason (13. febrúar 2015). „Efast um að friður komist á“. Morgunblaðið. bls. 24.