Brúnsvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúnsvík
Braunschweig (þýska)
Bronswiek (lágþýska)
Fáni Brúnsvíkur
Skjaldarmerki Brúnsvíkur
Brúnsvík er staðsett í Þýskaland
Brúnsvík
Brúnsvík
Hnit: 52°16′N 10°31′A / 52.267°N 10.517°A / 52.267; 10.517
Land Þýskaland
SambandslandNeðra-Saxland
Stofnun9. öld
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriThorsten Kornblum (SPD)
Flatarmál
 • Samtals192,13 km2
Hæð yfir sjávarmáli
75 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Samtals248.823
 • Þéttleiki1.300/km2
TímabeltiUTC+01:00 (CET)
 • SumartímiUTC+02:00 (CEST)
Póstnúmer
38100–38126
Vefsíðabraunschweig.de

Brúnsvík (þýska: Braunschweig) er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með tæpa 250 þúsund íbúa (2019). Borgin var lengi vel höfuðborg samnefnds furstadæmis.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Braunschweig liggur við ána Oker mjög austarlega í Neðra-Saxlandi, rétt vestan við gömlu landamærin að Austur-Þýskalandi (Saxlandi-Anhalt). Næstu borgir eru Wolfsburg til norðausturs (30 km), Hannover til vesturs (50 km) og Magdeburg til austurs (70 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerkið sýnir rautt ljón, stígandi til vinstri, á silfurlituðum grunni. Ljónið var áður fyrr tákn Hinriks ljón úr Welfen-ættinni sem réði ríkjum í Braunschweig á 12. öld. Merki þetta var opinberlega tekið upp á ný 1953.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin hét upphaflega Brunswik. Bruns er sennilegast dregið af mannanafninu Bruno og wik merkir bær. Borgarheitið hefur ekkert með litinn brúnan að gera (braun á þýsku). Orðið Braunschweig birtist fyrst 1573 þegar reynt var að rita Brunswik, en á þeim tíma var réttritun ekki til sem slík. Núverandi heiti varð þó ekki endanlega fastsett fyrr en við nýmyndun furstadæmisins 1814. Það má geta þess að íslenski rithátturinn (Brúnsvík) er miklu nær upphaflega heitinu en þýska heiti nútímans.[1]

Saga Brúnsvíkur[breyta | breyta frumkóða]

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Bronsljónið sem Hinrik ljón setti upp var fyrsta bronsstyttan norðan Alpa.

Samkvæmt ljóðinu Reimchronik var bærinn stofnaður árið 861 af Bruno hertoga. Hann átti að hafa byggt hús og kirkjur við ána Oker og nefnt bæinn eftir sjálfum sér. Öruggt er þó að borgin var samsett úr 5 litlum þorpum sem sameinuðust í einn stærri bæ. Fornleifafundir hafa staðfest tímasetninguna. Um miðja 12. öld varð Hinrik ljón (Heinrich der Löwe) hertogi í Saxlandi og Bæjaralandi. þar sem hann var frændi Friðriks Barbarossa keisara. Hann kaus Brúnsvík sem aðsetur sitt en síðan þá hefur borgin verið höfuðborg greifadæmis eða furstadæmið með hléum fram á 20. öld. 1166 setur Hinrik ljón upp bronsstyttu af ljóni, fyrstu bronsstyttuna norðan Alpa. Ljónið var merkið um yfirráð Hinriks og verður að aðalsmerki og skjaldarmerki borgarinnar. Ljónsstyttan er enn til á safni í borginni. Í kjölfarið lætur Hinrik reisa nýja dómkirkju. Eftir daga Hinrik varð Brúnsvík að mikilli óróaborg. Borgarráð og íbúar fundu ekki hljómgrunn og deildu um ýmis mikilvæg mál. 1374 var svo komið að múgur manns setti borgarráðið í heild sinni í herkví og hélt þeim föngnum í tvö heil ár. Á þessum óróatíma var borgin rekin úr Hansasambandinu, sem það hafði gengið í áður. Á 14. öld klofnaði Saxland í smærri greifadæmi. Þá myndast greifadæmið Braunschweig-Wolfenbüttel, og var Brúnsvík höfuðborg þess. 1430 lýsti borgin yfir sjálfstæði sem borgríki og fluttu greifarnir þá til Wolfenbüttel.

Siðaskipti og stríð[breyta | breyta frumkóða]

1521 komu fyrstu lútersku kennimenn til borgarinnar og hófu að predika nýju trúna. 1528 kom Johannes Bugenhagen til borgarinnar. Hann var einn ötullasti siðaskiptamaður síns tíma og samstarfsmaður Lúthers. Á aðeins þremur mánuðum bjó hann til nýja handbók um framkvæmd guðsþjónustur í nýja siðnum. Borgarráð meðtók hana og tilkynnti formlega siðaskiptin í öllum kirkjum og samkomustöðum. Bugenhagen innleiddi siðaskiptin víða í Þýskalandi, en einnig í Danmörku og Noregi. Í 30 ára stríðinu var borgin aldrei hernumin. Bæði kom það til að borgarráðið náði með diplómatískum ráðum að sefja hina ýmsu heri, meðan aðrar borgir voru herteknar af keisarahernum. Í annan stað var Brúnsvík afar vel varin með borgarmúrum og ánni Oker. Borgin lýsti yfir hlutleysi og auk þess tók Gústaf Adolf II Svíakonungur borgina undir sinn verndarvæng 1632, án þess þó að koma inn í hana sjálfa með her sinn. 1635 samdi borgin sérfrið við keisarann og fékk því að vera í friði þar sem eftir lifði stríðs. Á hinn bóginn geysaði skæð pest í borginni 1657-58. 1671 náðu greifarnir í Wolfenbüttel að hertaka borgina. Við það missti Brúnsvík sjálfstæði sitt. Greifarnir fluttu aðsetur sitt hins vegar ekki aftur til borgarinnar fyrr en 1753.

Uppgangstímar[breyta | breyta frumkóða]

Eðlisfræðingurinn Gauss fæddist í Brúnsvík 1777

Hertoginn Karl I. stofnaði háskóla í Brúnsvík 1745 sem varð að miðstöð upplýsingatímans í héraðinu. Meðal helstu kennara var Gotthold Ephraim Lessing, eitt merkasta skáld Þjóðverja á upplýsingatímanum. 1806 tók hertoginn Karl Vilhjálmur Ferdinand þátt í orrustunni við Jena og Auerstedt, þar sem hann barðist með prússum gegn Napoleon. Napoleon sigraði þar og Karl hertogi féll. Í kjölfarið lét Napoleon hertaka Brúnsvík og var hún innlimuð í konungsríkinu Vestfalíu til 1813. Á Vínarfundinum 1814 var ákveðið að endurreisa furstadæmið Braunschweig-Wolfenbüttel. 1838 var járnbrautartengingu komið á milli Brúnsvík og Wolfenbüttel en þar var fyrsta ríkisrekna járnbrautin í Þýskalandi. Með tilkomu járnbrautarinnar hófst iðnvæðingin í borginni. 1866 réðust prússar inn í konungsríkið Hannover og barðist Brúnsvík með prússum. Fyrir vikið hélst furstadæmið sjálfstætt, meðan prússar innlimuðu Hannover. 1871 varð Prússland hins vegar að keisararíki og varð Brúnsvík þá að hálfsjálfstæðu ríki innan keisararíkisins.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Nasistar með fjölmennustu göngu samtímans í Þýskalandi

1918 lagðist keisararíkið af í Þýskalandi. Furstinn í Brúnsvík var látinn segja af sér og varð héraðið að lýðveldi innan Weimar-lýðveldisins. Mikill æsingur einkenndi þennan tíma. Í borginni kom til uppþota og verkfalla. Í apríl 1919 lamaðist borgin í allsherjarverkfalli. Stjórnin í Berlín sendi þá 10 þúsund manna her og brynbíla sem hertók borgina og kom skikki á íbúana og borgarráð. Aðgerðin tókst vel og viðhélst Brúnsvík sem lýðveldi. Á uppgangstímum nasista var Adolf Hitler gestur í Brúnsvík. Í október 1931 var hann viðstaddur fjöldagöngu nasista þar, er 100 þúsund manns gengu til stuðnings við málstaðinn. Þetta var stærsta fjöldaganga eins hóps á tíma Weimar-lýðveldisins. Hitler var á þessum tíma enn austurrískur ríkisborgari, en hann hafði sótt um þýskt ríkisfang í nokkrum þýskum borgum síðan 1925 en alls staðar fenguð neitun. Það var Brúnsvík sem veitti honum þýska ríkisborgarréttinn (ekki borgin Brúnsvík, heldur lýðveldið Brúnsvík). Þetta var nauðsynlegt fyrir Hitler til að geta orðið kanslari í Þýskalandi (sem hann varð aðeins nokkrum mánuðum seinna) og hefur Brúnsvík oft verið harðlega gagnrýnd fyrir sinn þátt í þessu ferli. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum. Þær verstu voru gerðar nóttina 14.-15. október 1944. 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Bandaríkjamenn hertóku borgina 12. apríl 1945 eftir mikla bardaga, enda voru nasistar staðráðnir í að berjast til síðasta manns. 5. júní var borgin eftirlátin Bretum, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Hreinsunarstarfið í borginni tók heil 17 ár, enda var borgin nánast rústir einar. Uppbygging miðborgarinnar var mjög umdeild, enda var ákveðið að rífa rústir gamalla og vinsælla húsa, til dæmis furstahöllina (kastalann). Hún var þó endurreist frá grunni frá og með 2005.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalíþróttafélag borgarinnar er Eintracht Braunschweig. Knattspyrnudeild karla varð þýskur meistari 1967. Kvennadeildin í hokkí hefur þrisvar orðið þýskur meistari. Í ruðningi hefur liðið American Footballer margfalt orðið þýskur meistari og Evrópumeistari. Árlega fer fram Maraþonhlaup milli Brúnsvíkur og Wolfenbüttel.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Brúnsvík viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Bandung í Indónesíu, síðan 1960
Nîmes, í Frakklandi, síðan 1962
Bath í Englandi, síðan 1971
Sousse í Túnis, síðan 1980
Kiryat Tivon í Ísrael, síðan 1985/86
Magdeburg í Þýskalandi, síðan 1987
Kasan í Rússlandi, síðan 1988
Omaha í Nebraska (BNA) síðan 1992
Zhuhai í Kína, síðan 2011

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Gamla ráðhúsið
  • Dómkirkjan í Brúnsvík var reist að tilstuðlan Hinriks ljóns á 12. öld og hvílir hann sjálfur í henni. Í kirkjunni er stórfenglegt grafhýsi þar sem fjölmargir hergotar og furstar hvíla.
  • Kastalinn í Brúnsvík var aðsetur greifanna og furstanna sem ríktu yfir héraðinu áður fyrr. Hann gjöreyðilagðist í loftárásum og rifinn í kjölfarið. Núverandi mannvirki var endurbyggt frá og með 2005.
  • Gamla ráðhúsið er eitt af elstu ráðhúsum Þýskalands. Elsti hluti þess er frá 1250 (kemur fyrst við skjöl 1253. Húsið er forkunnarfögur gotnesk bygging með 17 stórum styttum af keisurum, konungum og hertogum fyrir 1455. Ráðhúsið brann algjörlega í loftárásum, eingöngu múrarnir að utan stóðu eftir. Eftir stríð var húsið endurbyggt. Það þjónar í dag sem viðhafnarbygging og sem hluti af byggðasafni borgarinnar.
  • Marteinskirkjan var reist að tilstuðlan Hinriks ljóns. Smíðin hófst 1190 eða 95 og er kirkjan sú eina í borginni með tvo turna. Hún er í rómönskum stíl, en síðari tíma viðbætur er í gotneskum stíl. Að innan eru fjölmargar styttur af postulum og öðru helgu fólki. Í loftárásum brann aðeins litill hluti kirkjunnar, allt innviðið slapp.
  • Gewandhaus (Fatahúsið) er ævagamalt hús í gotneskum stíl sem byggt var fyrir 1268 og kemur fyrst við skjöl 1329. Það var upphaflega lager, verslun og stéttarfélagshús fyrir skraddara. 1329 var vínkjallara bætt við, sem fékk vínveitingaleyfi 1352 og er því með allra elstu pöbbum Neðra-Saxlands. Í loftárásum brann húsið til kaldra kola, einungis austurgaflinn stóð eftir, en hann hrundi í stormi 1946. Húsið var svo endurbyggt frá grunni 1948-50.
  • Alte Waage (Gamla vogin) er heiti á húsi sem reist var 1534 sem geymsla og vog. Með tímanum grotnaði húsið niður og gjöreyðilagðist í loftárásum 1944. Það var ekki endurbyggt fyrr en 1994 og er í dag notað sem skólahús.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 63.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Braunschweig“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.