Mönchengladbach

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Mönchengladbach Lega Mönchengladbach í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Norðurrín-Vestfalía
Flatarmál: 170,45 km²
Mannfjöldi: 260 þús (2018)
Þéttleiki byggðar: 1499/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 70 m
Vefsíða: www.moenchengladbach.de

Mönchengladbach er stórborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 260 þúsund íbúa (2018). Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Mönchengladbach liggur fyrir suðvestan Ruhr-héraðið, vestan Rínarfljóts, en rétt austan við hollensku landamærin. Næstu borgir eru Düsseldorf til austurs (20 km), Köln til suðausturs (40 km) og Roermond í Hollandi til vesturs (20 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er þrískiptur skjöldur. Til vinstri er hvítur bagall á bláum grunni, sem vísar til fyrstu munkana. Til hægri er svartur kross á gulum grunni, það vísar til greinafanna frá Bylandt sem ríktu í héraðinu. Efst er hvít takkalína á rauðum grunni en það vísar til greifanna frá Quadt sem einnig ríktu í héraðinu til 1796. Skjaldarmerki þetta var formlega tekið upp 1977.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin hét upphaflega Monich Gladebach og München Gladbach. München er nefnt eftir munkum sem bjuggu í klaustrinu sem byggðin myndaðist í kringum. Gladbach merkir glansandi lækur (glad = glans, Bach = lækur). Forliðurinn München féll þó snemma niður og hét borgin Gladbach í margar aldir. 1888 var heiti borgarinnar aftur breytt í München Gladbach til aðgreiningar frá borginni Bergisch Gladbach sem ekki er langt frá. Árið 1960 var forliðnum München breytt í Mönchen, þar sem mikið var ruglast á þessari borg og München í Bæjaralandi.[1]

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

  • 974 stofnaði Gero, erkibiskupinn í Köln, munkaklaustur, ásamt munknum Sandrad frá Trier. Byggðin myndaðist í kringum klaustrið.
  • 1364/66 fékk Gladbach borgarréttindi. Borgin tilheyrði hertogadæminu Jülich til loka 18. aldar.
  • 1794 hertóku Frakkar borgina.
  • 1801 var borgin innlimuð Frakklandi. Þetta voru endalok klaustursins sem varð kveikjan að myndun borgarinnar. Hið fræga klausturbókasafn var eyðilagt.
  • 1815 varð borgin prússnesk.
  • 1921 náði íbúafjöldinn 100 þúsund.
  • 1929 voru borgirnar Gladbach og Rheydt sameinaðar í eina stóra borg.
  • 1940-45 varð borgin fyrir miklum loftárásum. 65% borgarinnar eyðilögðust.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Borussia Mönchengladbach sem 5 sinnum hefur orðið þýskur meistari (síðast 1977), þrisvar sinnum bikarmeistari (síðast 1995) og 2 sinnum Evrópumeistari félagsliða (1975 og 1979). Auk þess er hokkíliðið Gladbacher HTC ákaflega vinsælt. Það varð þýskur meistari 2002. Á heimavelli liðsins fór fram HM 2006 í hokkí.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Vatnsturninn mikli
Veitskirkjan
Rheydt-kastalinn
  • Veitskirkjan er gamla klausturkirkjan og þekktasta og merkasta bygging borgarinnar. Elstu hlutar hennar eru frá 974 en meginhlutar kirkjunnar voru reistir í áföngum næstu aldir. Víglan fór fram 1275. Í kirkjunni er voru áður fyrr mikil verðmæti en mörg þeirra voru skemmd og stolin af Frökkum um aldamótin 1800. Enn eru þar þó gamalt færanlegt altari frá 1160, forn handrit, dauðabókin Necrologium Gladbacense, forn germanskur rúnasteinn, jarðneskar leifar heilags Sandrads munks og margt fleira. Kirkjan er helguð heilögum Vítusi en sagan segir að þegar Gero, erkibiskupinn af Köln, hafi leitað að góðu klausturstæði, hafi fylgdarmenn hans fundið jarðneskar leifar af heilögum Vítusi, Cornelíusi, Cypríanusi og Barböru í helli nokkrum en þetta hafði verið geymt í Balderichkirkju sem hafði verið eyðilögð. Því var klaustrið, sem nú er farið, verið byggt á staðnum og kirkjan fylgt í kjölfarið.
  • Rheydt-kastalinn er vel varðveittur kastali í endurreisnar-stíl og er með merkustu byggingum borgarinnar. Hann var sennilega reistur á 12. öld, en kemur fyrst við skjöl 1180. Kastalinn var uppgerður og stækkaður 1558-70 þegar greifinn Otto von Bylandt bjó þar. Arkítektinn var Maximilian Pasqualini frá Ítalíu og því má finna ítalskan stíl í kastalanum. Borgin Rheydt keypti kastalann 1917 en Rheydt var sameinuð Gladbach 10 árum síðar. Kastalinn slapp við allar loftárásir seinna stríðsins. Síðan þá hefur hann þjónað sem listasafn fyrir endurreisnar- og barokktímabilin. 1978 fékk safnið verðlaun fyrir safn ársins í Evrópu.
  • Vatnsturninn einn af einkennisbyggingum borgarinnar. Hann var reistur 1907-09 og er 51 metra hár. Hann er enn í notkun og þjónar nú miðborginni og ýmis önnur hverfi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 186.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]