Ulm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Ulm Lega Ulm í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Baden-Württemberg
Flatarmál: 118,69 km²
Mannfjöldi: 127.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1.004/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 478 m
Vefsíða: www.ulm.de
Dómkirkjan í Ulm er hæsta kirkja heims - 161 metri á hæð

Ulm er sjöunda stærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með 127 þúsund íbúa (2019). Ulm er háskólaborg sem stendur við ána Dóná og skartar hæsta kirkjuturni í heimi (161 m). Ulm er fæðingarborg Alberts Einsteins.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Ulm liggur við Dóná austast í Baden-Württemberg, gegnt Neu-Ulm í Bæjaralandi. Næstu borgir eru Stuttgart í norðvestri (60 km), Reutlingen í vestri (50 km) og Ágsborg (Augsburg) í austri (50 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er tvílita skjöldur, svart fyrir ofan og hvítt fyrir neðan. Merkingin er óljós. Merki þetta kom fyrst fram 1351 en þá með erni. Örninn féll brott árið 1803.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Upprunalega heiti borgarinnar er Hulma en merkingin er óljós. Þó er víst að það hafi ekkert með álmtré að gera (Ulme), heldur með rennandi vatn. Ekki er ólíklegt að einhver gamall lækur hafi heitið þessu heiti.

Saga Ulm[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Ulm var stofnuð, en í kringum árið 850 varð Ulm konungssetur, er Lúðvík hinn þýski (Ludwig der Deutsche) settist þar að. Hann var barnabarn Karlamagnúsar og tók þátt í skiptingu hins mikla Frankaríkis í Verdun-samningnum 843. Konungar og keisarar þýska ríkisins eftir daga Lúðvíks sátu einnig meira eða minna í Ulm, en bjuggu samtímis á öðrum stöðum. Þegar aðalsættin Salier dó út á 12. öld, spratt af því ófriður við Staufen-ættina. Í þeim ófriði var Ulm brennd til kaldra kola 1134. Furstar Staufen-ættarinnar byggðu Ulm upp aftur 1140 og varð hún við það stærri en áður. Þrátt fyrir að vera mikilvæg konungs- og keisaraborg, eru engar upplýsingar til um það hvenær Ulm fékk borgarréttindi.

Síðmiðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Ulm 1597. Dómkirkjan er enn ekki orðinn hæsta kirkja heims.

1376 var Sváfabandalagið stofnað í Ulm, en það var bandalag 14 fríborga í Sváfahéraði. Bandalag þetta hafði að takmarki að vernda hagsmuni sína gagnvart útþennslustefnu hinna ýmsu greifa og fursta og viðhalda fríborgarstöðu sinni. Aðalborgin var Ulm og fóru flestir fundir bandalagsins fram þar. Bandalagið varð þó ekki langlíft. Árið 1377 voru borgarbúar mjög óánægðir með höfuðkirkju borgarinnar. Hún lá utan borgarmúrana og því ekki alltaf aðgengileg. Til að bæta úr þessu og til að ganga skrefi nær því að losa sig undan oki kaþólsku kirkjunnar, ákvað borgarráð að reisa nýja kirkju innan borgarmúranna og á eigin kostnað. Þetta var upphafið að byggingu hæstu kirkju heims. Kirkjan var þó ekki fullgerð fyrr en 1890. Undir lok miðalda var Ulm orðin að ákaflega efnaðri borg. Aðalatvinnuvegurinn var vefnaður og flutningar (járn, salt, smíðaviður og vín). Á þeim tíma var landsvæði borgarinnar það næststærsta í ríkinu (þ.e. innan núverandi Þýskalands) á eftir Nürnberg. Þrjár borgir og 55 þorp tilheyrðu henni. Frá þeim tíma er vísan:

Máttur Feneyja,
glæsileiki Ágsborgar,
slægð Nürnbergs,
fallbyssur Strassborgar,
og fjármunir Ulm
stjórna heiminum.

Á 16. öld fór velmegun borgarinnar ört dvínandi. Kom þar til mikil samkeppni við aðrar borgir, en einnig breytt verslunarmynstur eftir fund Ameríku og siglingaleiðarinnar til Indlands.

Trúarumrót og styrjaldir[breyta | breyta frumkóða]

1529 urðu siðaskiptin í borginni. Það ár var ríkisþing haldið í Worms og voru fulltrúar Ulm allir mótmælendur. Árið 1531 voru haldnar kosningar í borginni um trúmálin og var niðurstaðan sú að borgarbúar skyldu allir verða lúterskir. Í kjölfarið á því ruddist hópur manna inn í kirkjur kaþólikka og eyðilagði helgimyndir og önnur listaverk. Margar kirkjur í nágrenninu voru rifnar eða vanhelgaðar. Trúarumrótið leiddi til mikilla erja. Skærur voru tíðar og missti Ulm í þeim 35 af þorpum sínum, sem voru brennd til kaldra kola. Loks þurfti borgin að auðmýkja sig vegna þrýstings frá Karl V keisara, sem neyddi kaþólska trú aftur upp á borgarbúa árið 1546. 30 ára stríðið og spænska erfðastríðið í upphafi 18. aldar léku borgina grátt. Margoft var setið um hana, hún hertekin, rænd og rupluð. Þar að auki geisuðu hinar ýmsu pestir og borgin þurfti að greiða stríðsskaðabætur. Loks árið 1770 lýsti Ulm sig gjaldþrota. Hún missti við það nær allar nærsveitir sínar, en náði þó að viðhalda fríborgastöðu sinni. Velmegunarárin voru þó á enda.

Napóleonstíminn[breyta | breyta frumkóða]

Austurríkismenn gefast upp fyrir Napóleon við borgarhliðið í Ulm. Málverk eftir Charles Thévenin.

Árið 1802 missti Ulm fríborgastöðu sína og var innlimuð í Bæjaraland. Árið 1805 áttu sér stað tvær orrustur í og við Ulm. 14. október var barist við Elchingen nálægt Ulm. Þar sigraði Michel Ney, einn hershöfðingja Napoleons, Austurríkismenn. Hermennirnir flúðu til Ulm. Næsta dag kom Napóleon sjálfur á vettvang. Hann sat um Ulm, sem gafst upp eftir tvo daga. 20 þús hermenn Austurríkismanna náðu að flýja, 10 þús létu lífið og afgangurinn var tekinn til fanga. Við uppgjöfina rétti Mack, hershöfðingi Austurríkismanna, Napóleon sverð sitt og sagðist vera hinn ‚ólánsami Mack‘. Napoleon rétti honum sverðið aftur og sagði: „Ég veiti hinum ólánsama Mack sverð sitt og frelsi á ný, og færi auk þess keisaranum kveðju mína.“ Mack sneri heim til keisarans, Franz II, sem leiddi hann fyrir herrétt og kastaði honum í fangelsi. Napoleon hertók Ulm og fór þaðan til Austerlitz, þar sem hann sigraði í „þriggja-keisara-orrustunni“. 1810 skiptust Bæjaraland og stórhertogadæmið Württemberg á landsvæðum. Við þessar tilfærslur varð Ulm hluti af Württemberg, en hafði verið bærísk í átta ár. Dóná afmarkaði landamærin. Þetta þýddi að Ulm missti nær allt bakland sitt sem hélst í Bæjaralandi. Við bakka Dónár, gegnt Ulm, reis ný borg, Neu-Ulm í Bæjaralandi.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Lituð mynd af Ulm 1890, sama ár og dómkirkjan var fullgerð

Þrátt fyrir að Ulm væri aðeins lítil borg á 19. öld (12 þúsund íbúar 1850) var hafist handa við að stækka dómkirkjuna. Það verk tók 56 ár. Kirkjan var endurvígð 1890 og var þá orðin hæsta kirkja í heimi og meðal hæstu mannvirkja heims. Hún er enn í dag hæsta kirkja veraldar. Heimstyrjöldin fyrri hafði sjálf ekki mikil áhrif á borgina, en það gerði hins vegar kreppan milli stríða. Árið 1944 varð Ulm fyrir gríðarlegum loftárásum bandamanna. 81% miðborgarinnar var eyðilögð, en dómkirkjan slapp þó að mestu. Það tók nokkra áratugi að endurreisa miðborgina. Háskólinn í Ulm var stofnaður 1967.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

  • Lúðradagurinn mikli er haldinn á tveggja ára fresti í maí eða júní. Þá koma unglingar saman og blása í lúðra. Blásarar eru um 9.000 talsins, sem gerir þetta að stærstu blásturssveit heims.
  • Schwörwoche er heiti á nokkurs konar þjóðhátíð borgarinnar. Hún er ávallt haldin næstsíðasta mánudag í júlí. Á þeim degi er það skylda borgarstjórans að gera reiknisskil á þjónustu sinni í ræðu til almennings. Eftir önnur hátíðahöld er farið að Dóná, þar sem haldin er skrúðsigling á bátum og kænum (kallað Nabada).
  • Menningarnótt Ulm (og Neu-Ulm) er haldin í september. Með 95 viðburðum er menningarnóttin ein stærsta menningarhátíð Þýskalands.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Einstein-Marathon er Maraþonhlaup í borginni og er haldið í september. Samfara því er hlaupið hálfmaraþon, 10 km og 5 km.

Ulmer Donaucup er árleg róðrarkeppni á Dóná. Keppt er í 37 mismunandi bátategundum. Einnig er keppt í drekabátum.

Helsta knattspyrnulið borgarinnar er SSV Ulm 1846 sem komst í fyrsta sinn í sögu félagsins í 1. Bundeslíguna árið 2000 og spilar þar enn.

Í blaki náði kvennaliðið SSV Ulm 1846 þeim áfanga að verða þýskur meistari og bikarmeistari árið 2003.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Albert Einstein er fæddur í Ulm

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]