Wolfsburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Wolfsburg Lega Wolfsburg í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Neðra-Saxland
Flatarmál: 204,02 km²
Mannfjöldi: 124.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 600/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 63 m
Vefsíða: www.wolfsburg.de
Hluti af Volkswagen verksmiðjunum

Wolfsburg er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 124 þúsund íbúa (2019). Hún er helst þekkt fyrir Volkswagen verksmiðjurnar stóru sem framleiddi VW bjölluna. Borgin var gagngert mynduð fyrir starfsfólk verksmiðjanna um miðja 20. öldina.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Wolfsburg liggur við miðþýska skipaskurðinn (Mittellandkanal) og er austasta borgin í Neðra-Saxlandi. Hún var áður landamæraborg að Austur-Þýskalandi (Saxland-Anhalt). Næstu borgir eru Brúnsvík til suðvesturs (20 km), Hannover til vesturs (50 km) og Magdeburg til suðausturs (60 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Wolfsburg sýnir appelsínugulan úlf á hvítu borgarvirki. Virkið er hin gamla Wolfsburg. Úlfurinn er ættarmerki ættarinnar sem lét reisa það. Vatnið fyrir framan er skipaskurðurinn mikli sem borgin stendur við. Skjaldarmerki þetta var hannað 1947, en ekki samþykkt fyrr en 1952. Seinustu breytingar á því voru gerðar 1961. Merkið á að vísa til heiti borgarinnar, þ.e. úlfur (Wolf) og borg (Burg).

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Wolfsburg heitir eftir samnefndu kastalavirki sem Bartensleben-ættin lét reisa á 14. öld. Úlfurinn var einkennisdýr ættarinnar og skírskotar ekki til þess að úlfar hafi lifað þar á þeim tíma (ekki frekar en ljón í skjaldarmerkjum annarra borga).

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Milljónasta VW bjallan er gullslegin

Saga Wolfsburg er nátengd sögu bílaframleiðandans Volkswagen og forvera þess. Borgin var stofnuð 1938 og þá nefnd borg KdF-bílsins í því augnamiði að þar yrði fjöldaframleiddir KdF-bílar fyrir almenning. Eftir stríðið var nafni borgarinnar breytt í Wolfsburg. Eftir stríðið var bílaframleiðslunni áframhaldið og KdF bíllinn áfram framleiddur, en hann náði miklum vinsældum bílakaupenda og er kallaður bjallan. Til stóð eftir stríðið að flytja framleiðslutækin burt en breski hernámsstjórinn kom í veg fyrir það með því að láta verksmiðjurnar framleiða bíla fyrir England. 1951 var Wolfsburg splittað úr sveitarfélaginu Gifhorn og fékk eigin borgarréttindi. 1955 kom milljónasta bjallan af færibandinu. 1972 varð breyting á sveitarfélögum, þannig að 20 þorp voru innlimuð í Wolfsburg, sem við það varð að stórborg með yfir 100 þúsund íbúa. 2003 var framleiðslu á bjöllunni hætt en framleiðsla á öðrum Volkswagen tegundum tók við.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er VfL Wolfsburg, sem varð þýskur meistari 2009. Félagið komst í fyrsta sinn í fyrstu Bundesliguna 1997 og hefur, ásamt örfáum öðrum félögum, aldrei fallið úr þeirri deild.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Wolfsburg-kastalinn
  • Wolfsburg er gamla kastalavirkið sem borgin er nefnd eftir. Það kemur fyrst við skjöl 1302 sem miðaldavirki, en var breytt í kastala í endurrreisnarstíl á seinni öldum. 1961 eignast borgin kastalann. 2002 var haldin mikil hátíð í kastalanum í tilefni af 700 afmæli staðarins. Í dag er kastalinn safn. Þar er að finna sögusafn kastalans, málaverkasafn, listasafn, ljósmyndasafn, keramíksafn og veitingastaður. Auk þess eru ýmsir viðburðir haldnir árlega við kastalann, til dæmis riddarakeppni.
  • Neuhaus virkið er gamalt vatnavirki í gamla borgarhlutanum Neuhaus. Það kemur fyrst við skjöl 1371 og var til skamms tíma eign von Bartensleben-ættarinnar (eins og Wolfsburg). Í virkinu voru hermenn allt til miðju 16. aldar, en varð þar eftir aðsetur hertoga. 1372 var háð mikil orrusta milli Magnúsar hins yngra von Bartensleben og herliðs hertogans frá Brúnsvík, sem endaði hvorugum í hag. 1552 var hart barist á ný við virkið er Vollrad greifi von Mansfeld réðist á virkið. Hann var fulltrúi mótmælenda í trúarstríðinu á miðri 16. öld, en virkisherrann var enn kaþólskur. Vollrad greifi notaði fallbyssur en virkið stóðst áhlaupið. 1981 eignaðist borgin virkið. Þar eru til húsa ýmis félög, svo sem dansfélag, safn, barnaheimili, íþróttasalur, aðstaða fyrir listamenn og margt annað.
  • Fallersleben-kastalinn er enn einn kastali í eða við Wolfsburg. Hann er þó yngri en hinir, reistur 1520-51, en þó hafði verið annar kastali á staðnum áður. Á þeim tíma var mikið síki í kringum kastalann en það er nú horfið. Það var hertoginn Franz von Braunschweig und Lüneburg sem lét reisa hann. Á 19. öld var kastalanum breytt í ríkisskrifstofur. Þar voru þá ráðhús, dómssalur og fjármáladeild. 1991 var kastalanum breytt í safn fyrir skáldið Hoffmann von Fallersleben, sem fæddist í honum 1798.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Wolfsburg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.