Ingolstadt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Ingolstadt Lega Ingolstadt í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Bæjaraland
Flatarmál: 133,37 km²
Mannfjöldi: 137.000 (2019)
Þéttleiki byggðar: 968/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 374 m
Vefsíða: www.ingolstadt.de

Ingolstadt er borg í Bæjaralandi í suðurhluta Þýskalands með 137 þúsund íbúa (2019). Borgin er með elsta háskóla Bæjaralands og er þekkt sem Frankenstein-borgin.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Ingolstadt liggur við ána Dóná, nokkuð miðsvæðis í Bæjaralandi. Næstu borgir eru München til suðurs (50 km), Regensburg til norðausturs (50 km), Ágsborg til suðvesturs (50 km) og Nürnberg til norðurs (70 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Miðborg Ingolstadt

Skjaldarmerki Ingolstadt er blátt pardusdýr, spúandi eldi. Fyrstu innsigli borgarinnar sýna heilagan Máritíus, vendardýrling Maríukirkjunnar þar í borg. 1314 er hann saman með pardusdýri á innsiglum og 1340 er pardusdýrið orðið að innsigli án heilags Máritíus.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Ingolstadt hét upphaflega Ingoldstadt. Ingold er mannanafn, en ekki er vitað hver það var sem borgin heitir eftir. [1]

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ingolstadt 1644. Mynd eftir Matthäus Merian.
Hestur Gústafs Adolfs II. er elsta uppstoppaða spendýrið í Evrópu

Upphaf Ingolstadt eru konunglegur kastali frá 8. öld. og kemur fyrst við skjöl árið 806 í skjali Karlamagnúsar. Bær myndaðist í kringum konungskastalann og fékk hann borgaréttindi 1250. Árið 1392 myndast hertogadæmið Bayern-Ingolstadt. Borgin verður aðsetur hertoga, sem reisa sér kastala þar. Hertogadæmið stóð þó aðeins til 1447. Árið 1472 var háskólinn í borginni stofnaður en hann er elsti háskóli Bæjaralands. Háskólinn varð mjög þekktur og var eitt sterkasta vígi kaþólsku kirkjunnar á tímum siðaskiptanna. Siðaskiptin fóru því aldrei fram í borginni. Árið 1546 birtist her mótmælenda við borgardyrnar og stóð andspænis kaþólskum keisaraher. Ekki kom til bardaga, því mótmælendur sáu sitt óvænna og hurfu frá aftur. Árið 1632 réðst Gústaf Adolf II konungur Svía á borgina í 30 ára stríðinu. Eitt sinn, er Gústaf var í leiðangri nálægt borgarmúrunum, var skotið af fallbyssu frá borginni. Kúlan lenti í afturenda hestsins, sem dó samstundis. Konungur féll hins vegar í jörðina og hlaut engan skaða af en ekki mátti tæpara standa. Hesturinn er nú uppstoppaður á safni í Ingolstadt og er elsta spendýrið í Evrópu sem varðveist hefur uppstoppað. Svíar náðu ekki að vinna borgina og hurfu aftur á braut. Hins vegar dó hinn kaþólski Tilly, einn af yfirhershöfðingjum Wallensteins, af sænskum kúlum. Í upphafi 18. aldar var enn setið um borgina í spænska erfðastríðinu og enn stóðst hún öll áhlaup. Árið 1799 náðu Frakkar hins vegar að hertaka borgina. Þeir rifu niður borgarmúrana og lokuðu háskólanum (hann var fluttur til Landshut í Bæjaralandi). Þar með missti Ingolstadt einn mikilvægasta atvinnuveg sinn. Borgarbúum fækkaði um helming er kennarar og stúdentar yfirgáfu borgina, ásamt öllum hermönnum og öðrum sem höfðu þjónustað þá. Á miðri 19. öld var ákveðið að endurreisa að hluta hernaðarmannvirki borgarinnar. Ingolstadt varð því ein stærsta herstöð Bæjaralands, ásamt því að vera vaxandi iðnaðarborg í iðnbyltingunni. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir nokkrum loftárásum bandamanna. Árið 1945 var hún hertekin bardagalaust af Bandaríkjamönnum.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

(1834) Hans Werner Asam, myndhöggvari og byggingameistari

Frankenstein[breyta | breyta frumkóða]

Frægasta sögupersóna borgarinnar er Dr. Victor Frankenstein. Mary Shelley birtir skáldsöguna sína um Frankenstein árið 1818. Í sögunni er Dr. Frankenstein uppruninn í Genf, en fer til Ingolstadt árið 1700 til að læra læknisfræði í háskólanum þar, sem þá var víða þekktur í Evrópu. Meðan hann er þar, vaknar hjá honum þrá til að skapa líf. Honum tekst það og til verður skrýmslið hans (uppvakningurinn). Sérstök uppákoma í Ingolstadt er hin svokallaða Dr. Frankensteins Mystery Tour í miðborginni á kvöldin þegar dimmt er orðið. Gengið er um miðborgina með leiðsögumanni sem klæddur er eins og Dr. Frankenstein. Hann segir frá ýmsu í sambandi við Frankenstein-söguna og sýnir fólki sögulegar byggingar og dimm húsaskot. Draugalegar verur og ýmsar uppákomur verða á vegi hópsins, allt hluti af sýningunni.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Ingolstadt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Kreuztor er gamalt borgarhlið frá 1385
  • Maríukirkjan í Ingolstadt er aðalkirkja borgarinnar. Turnarnir eru misháir, sá hærri er 69 metra hár, hinn 62 metra. Einn af gluggunum var málaður af Albrecht Dürer. Kirkjan skartar meðal annars eitt stærsta safn jólasögustyttna í Þýskalandi (Krippe) með 250 tálguðum styttum.
  • Kreuztor er gamalt borgarhlið frá 1385 sem skartar 7 turnum. Fegurð hliðsins varð þess valdandi að það var ekki rifið eins og flest önnur borgarhlið.
  • Nýi kastalinn var reistur af hertogunum í Bayern-Ingolstadt um aldamótin 1400. Hann er hersafn í dag.
  • Asamkirkjan er eflaust glæsilegasta kirkja borgarinnar. Salur hennar er í barokkstíl og skartar mýmörgum málverkum, súlum og öðru skrauti.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland, Duden, 1993, bls. 143.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]