Umskurður
Umskurður á við það að skera um forhúð getnaðarlimsins. Umskurður getur verið stundaður af læknisfræðilegum ástæðum eða trúarlegum, til dæmis er hefð fyrir umskurð í gyðingdómi og íslam. Umskurður er víða stundaður í Miðausturlöndum og Afríku af trúarlegum ástæðum, bæði af múslimum og eþíópískum kristnimönnum.
Eftir umskurðinn er reðurhúfan sýnileg jafnvel þegar getnaðarlimurinn er linur. Talið er að tilfinninganæmni getnaðarlimsins minnki eftir umskurð.
Tíðni og staða umskurðar drengja
[breyta | breyta frumkóða]Umskurður drengja er stundaður um allan heim. Tíðni umskurðar er þó breytileg eftir löndum og ástæður fyrir honum ólíkar. Umskurður er algengur hjá múslímum og gyðingum, í Bandaríkjunum og í hlutum Suðaustur-Asíu og Afríku sunnan Sahara. Hann er stundaður sjaldnar í Evrópu, Suður-Ameríku, Suður-Afríku og flestum Asíulöndum.[1] Talið er að um það bil þriðjungur karlmanna í heimi sé umskorinn.[1]
Danmörk
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt Samtökum múslíma í Danmörku láta næstum allir múslímar í Danmörku umskera drengjana sína. Um það bil 15 drengir gyðinga eru umskornir á hverju ári. Danska heilbrigðisstjórnin telur að um það bil 1.000–2.000 danskir drengnir séu umskornir af trúarástæðum á hverju ári í Danmörku.[2]
Ísland
[breyta | breyta frumkóða]Í janúar 2018 var lagt fyrir Alþingi frumvarp um bann við umskurði drengja nema af heilsufarsástæðum. Bann við umskurði stúlkna hefur verið í gildi frá 2005.[3]
Verði frumvarpið samþykkt gæti brot á lögunum varða við allt að sex ára fangelsisvist. Frumvarpið nýtur þverpólitísks stuðnings.[3] Yfirrabbínar í Danmörku og Noregi hafa þó mótmælt frumvarpinu og óttast að það gæti sett á stofn „hættulegt fordæmi“ fyrir önnur lönd.[4] Samtök gyðinga á Norðurlöndunum hafa sakað íslenska þingmenn um árás á gyðingdóm og mótmælir frumvarpinu harðlega. Samtökin sendu íslenskum þingmönnum yfirlýsingu um mótmæli í febrúar 2018. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaðurinn sem lagði frumvarpið fyrir Alþingi, sagði að það væri „ákveðin yfirgangssemi að grípa svona inn í störf þingsins“ og að sér fyndist afskipti á þessu stigi máls „ansi gróf“.[5]
Í febrúar 2018 fundaði Menachem Margolin, formaður Samtaka evrópskra gyðinga, með Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Belgíu, um frumvarpið. Á fundinum var rætt um að frumvarpið nyti ekki stuðnings allra íslenskra þingmanna og að „samtal við íslenska þingmenn um málið“ myndi halda áfram.[6]
Umsagnir
[breyta | breyta frumkóða]Ýmsir hafa sent umsögn um málefnið og sagði biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, að hætta væri á að „gyðingdómur og íslam verði gerð að glæpsamlegum trúarbrögðum og að einstaklingar sem aðhyllast þau verði bannaðir hér á landi eða óvelkomnir“.[7] Talsmaður kaþólsku kirkjunnar á Íslandi líkti banni við útrýmingarherferð nasista.[8]
Samtökin Siðmennt styður bann við umskurði og að um „alvarlegt og óafturkræft inngrip“ væri um að ræða. Ennfremur að „það sé skýrt að réttur barnsins skuli vera siðum og trú yfirsterkari“.[9]
Anne Lindboe umboðsmaður barna í Noregi styður frumvarpið og segist bjartsýn á að bann við umskurði drengja verði innleitt þar í landi í framtíðinni.[10]
Yfir 400 íslenskir læknar skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem þeir „lýstu yfir ánægju með frumvarpið til breytinga á almennum hegningarlögum þar sem umskurður drengja verði bannaður nema læknisfræðilegar ástæður liggi til grundvallar.“[11]
Kári Stefánsson stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar hefur gagnrýnt frumvarpið. Hann sagði að það „[myndi] í prinsippinu gera það ólöglegt að vera gyðingur á Íslandi vegna þess að umskurðurinn (brit milah) er órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd gyðinga.“ Auk þess sagði hann að bann við umskurði „[myndi vega] að rétti foreldra til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd barna sinna sem hefur verið höndlaður sem allt að heilagur á Íslandi fram til þessa.“[12]
Yfir 1.100 íslenskir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa skrifað undir lista frumvarpinu til stuðnings.[13]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Male circumcision – Global trends and determinants of prevalence, safety and acceptability“ (PDF). Sótt 14. febrúar 2018.
- ↑ „Omskæring af drengebørn“. Sótt 14. febrúar 2018.
- ↑ 3,0 3,1 „Vilja banna umskurð drengja“, RÚV, 30. janúar 2018.
- ↑ „Rabbínar mótmæla umskurðar-frumvarpi Silju“, RÚV, 2. febrúar 2018.
- ↑ „Saka íslenska þingmenn um árás á gyðingdóminn“, RÚV, 14. febrúar 2018.
- ↑ „Fundaði með sendiherra um umskurð“. mbl.is.
- ↑ „Hætt við að trúarbrögðin verði gerð glæpsamleg“, RÚV, 18. febrúar 2018.
- ↑ Talsmaður kaþólsku kirkjunnar á Íslandi líkir umskurðsbanni við útrýmingarstefnu nasista Vísir. Skoðað 19. apríl, 2018
- ↑ „Siðmennt styður bann við umskurði“, RÚV, 18. febrúar 2018.
- ↑ „Vill að Noregur banni umskurð drengja“, mbl.is, 20. febrúar 2018.
- ↑ „Íslenskir læknar styðja bann við umskurði barna - lýsa alvarlegum fylgikvillum“, Stundin, 21. febrúar 2018.
- ↑ „Segir bann við umskurði aðför að rétti gyðinga og birtingarmynd óvildar“, Kjarninn, 22. febrúar 2018.
- ↑ „1.100 styðja frumvarp um umskurð“, mbl.is, 26. febrúar 2018.