Tom Florie
Thomas „Tom“ Florie (f. 6. september 1897 - d. 26. apríl 1966) var knattspyrnumaður frá Bandaríkjunum. Hann var í bandaríska landsliðinu sem hlaut bronsverðlaunin á HM 1930 og lék aftur með liðinu fjórum árum síðar. Árið 1986 var hann tekinn inn í frægðarhöll bandarísku knattspyrnunnar.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Tom Florie fæddist í New Jersey, sonur ítalskra innflytjenda. Hann æfði knattspyrnu á yngri árum en herþjónusta og fyrri heimsstyrjöldin gerðu það að verkum að knattspyrnuferill hans hófst ekki af alvöru fyrr en 1922 þegar hann var á 25. aldursári. Byrjunin var þó brösótt. Atvinnumennska í knattspyrnu stóð á brauðfótum í Bandaríkjunum þar sem félög skiptu ört um eigendur eða voru lögð niður, auk þess sem fleiri en eitt knattspyrnusamband bitust um liðin og hylli áhorfenda.
Florie átti nokkur góð ár með Providence F.C. sem raunar gekk undir ýmsum nöfnum, þar á meðal New York Yankees en einnig spilaði hann með góðum árangri fyrir New Bedford Whalers frá Massachusetts. Hann varð bandarískur bikarmeistari með síðarnefnda liðinu árið 1932 og endurtók það afrek árið 1934 með Pawtucket Rangers frá Rhode Island, sem jafnframt var kveðjuár hans í fótboltanum.
Bandaríska landsliðið
[breyta | breyta frumkóða]Landsleikir Tom Florie urðu átta talsins á níu ára tímabili, en bandaríska landsliðið var ekki mjög virkt á þessum árum. Fyrsti leikurinn var árið 1925 og árið eftir tókst Florie að skora fyrra landsliðsmark gegn Kanada í New York. Hann var valinn í landsliðshópinn sem hélt á HM í Úrúgvæ árið 1930. Bandaríkin komu flestum á óvart á mótinu með því að komast í undanúrslitin. Ekki var leikið sérstaklega um bronsverðlaunin en áratugum síðar kvað FIFA upp þann dóm sinn að Bandaríkin hafi náð þriðja sætinu.
Tom Florie skoraði annað mark Bandaríkjanna í afar óvæntum 3:0 sigri á Belgum í fyrsta leik. Óreiða í tölfræði gerði það að verkum að lengi vel var á reiki hvort Florie hefði í raun skorað markið eða hvort liðsfélagi hans Bart McGhee hafi skorað tvö fyrstu mörkin. McGhee er víða eignað markið í bókum og á vefsíðum en samkvæmt opinberri skrá FIFA var Florie að verki. Til marks um ruglinginn í markabókhaldinu var Florie lengi talinn hafa skorað annað mark Bandaríkjanna í sigri á Paragvæ í hinum leiknum í riðlakeppninni en árið 2006 komst FIFA að þeirri niðurstöðu að Bert Patenaude hefði skorað öll þrjú mörkin og þar með sett fyrstu þrennuna í sögu HM.
Í undanúrslitaviðureigninni gegn Argentínu, sem Suður-Ameríkumennirnir unnu 6:1 voru þrjú bandarísk mörk dæmd ógild, þar af eitt frá Tom Florie. Bandaríska liðið taldi sig grátt leikið af dómara leiksins.
Tveir síðustu landsleikir Tom Florie fóru fram á Ítalíu árið 1934. Bandaríkin og Mexíkó mættust í Róm þremur dögum áður en Heimsmeistarakeppnin átti að hefjast til að skera úr um hvort liðið yrði fulltrúi Norður-Ameríku. Bandaríkin unnu 4:2 og hlut að launum leik gegn heimsmeistaraefnum heimamanna sem höfðu mikla yfirburði og unnu 7:1. Florie var þarna á 37. aldursári, sem þótti gríðarlega hár aldur fyrir knattspyrnumann á fjórða áratugnum. Hann varð þar með síðasti maðurinn sem fæddur var á 19. öld til að keppa á HM.
Hann lést á Rhode Island árið 1966.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Tom Florie“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. ágúst 2023.