Fara í innihald

Bert Patenaude

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bertrand „Bert“ Arthur Patenaude (f. 4. nóvember 1909 - d. 4. nóvember 1974) var knattspyrnumaður frá Bandaríkjunum. Hann var í bandaríska landsliðinu sem hlaut bronsverðlaunin á HM 1930 og er talinn hafa skorað fyrstu þrennuna í sögu HM.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Bert Patenaude fæddist í Massachusetts árið 1909 og hóf að leika knattspyrnu með bæjarliðinu sínu. Hann fékk atvinnumannasamning hjá Philadelphia Field Club nítján ára að aldri. Hann skipti fljótlega aftur yfir í uppeldisfélagið í Fall River FC þar sem hann skoraði 112 mörk í 114 leikjum á árabilinu 1928-31. Um þær mundir riðaði atvinnumannadeildin í Bandaríkjunum til falls og átti það sinn þátt í því hversu endasleppur ferill Patenaude varð en hann lagði skóna á hilluna árið 1936 eftir að hafa leikið fremur stopult árin á undan. Miklar gloppur eru í bandarískri knattspyrnutölfræði frá fjóra áratugnum en áætlað er að Patenaude hafi leikið í það minnsta 174 meistaraflokksleiki á ferlinum og skorað í þeim að lágmarki 170 mörk.

HM í Úrúgvæ[breyta | breyta frumkóða]

Bert Patenaude var valinn í bandaríska landsliðshópinn sem tók þátt í fyrstu heimsmeistarakeppninni, í Urúgvæ árið 1930. Bandaríska liðið kom mjög á óvart með því að vinna Belga í fyrsta leik sínum, 3:0, þar sem Patenaude skoraði eitt markanna. Fyrirfram hafði verið búist við að Belgía og Paragvæ myndu slást um sætið í undanúrslitunum og áttu þau að mætast í lokaleiknum. Bandaríkin fylgdu sigrinum gegn Belgum eftir með því að skella Paragvæ, sömuleiðis 3:0. Í leiknum skoraði Patenaude tvö mörk samkvæmt leikskýrslu dómara. Árið 2006 lýsti FIFA því hins vegar yfir að þriðja mark Patenaude hefði ranglega verið eignað öðrum leikmanni. Hann telst því í dag hafa skorað fyrstu þrennuna í sögu heimsmeistarakeppninnar.

Mörkin fjögur gerðu Patenaude að þriðja markahæsta leikmanni heimsmeistaramótsins og er það enn í dag met bandarísks landsliðsmanns.