Fara í innihald

Salvador Luria

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Salvador Edward Luria)
Lífvísindi
20. öld
Nafn: Salvador Edward Luria
Fæddur: 13. ágúst 1912 í Tórínó á Ítaliu
Látinn 6. febrúar 1991 í Lexington í Massachusetts í Bandaríkjunum
Svið: Sameindalíffræði
Örverufræði
Erfðafræði
Helstu
viðfangsefni:
Erfðir baktería
Gerilætur
Markverðar
uppgötvanir:
Luria-Delbrück tilraunin, sem sýndi að svipgerðareginleiki (þolni gegn gerilætu) erfist þó svo áreitið sem eiginleikinn gagnast til (gerilætan) sé ekki til staðar í umhverfinu.
Uppgötvun skerðiensíma
Helstu ritverk: Luria og Delbrück 1943[1]
Alma mater: Háskólinn í Tórínó
Helstu
vinnustaðir:
Columbia háskóli
Háskólinn í Indiana
Illinois háskólinn í Urbana-Champaign
Tækniháskólinn í Massachusetts
Verðlaun og
nafnbætur:
Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði 1969

Salvador Edward Luria (13. ágúst 19126. febrúar 1991) var ítalskur og bandarískur örverufræðingur og nóbelsverðlaunahafi. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á erfðum baktería og fyrir að sýna fram á notagildi gerilæta sem rannsóknatækja í sameindalíffræði.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Luria lauk námi í læknisfræði frá Háskólanum í Tórínó árið 1935. Að því loknu gegndi hann herskyldu í eitt ár og hóf svo framhaldsnám í geislalækningum við Háskólann í Róm, en þar kynntist hann nýjum kenningum Max Delbrück um eðli gensins og tók til við að hanna tilraunir með gerilætum sem staðfest gætu kenningar Delbrücks.

Árið 1938 hlaut hann styrk til náms í Bandaríkjunum, og hugðist nýta hann til að starfa með Delbrück. Fasistastjórn Mussolinis varð þó til að torvelda þau áform, því Luria var af gyðingaættum og skömmu eftir að Luria var lofaður styrkurinn voru sett lög sem bönnuðu að gyðingar hlytu rannsóknastyrki. Snuðaður um fjármögnun hélt Luria til Parísar, en flúði á reiðhjóli undan innrásarher nasista til Marseille og þaðan til Bandaríkjanna árið 1940.

Luria tók land í New York þann 12. september 1940 og breytti skömmu síðar skírnarnafni sínu úr Salvatore í Salvador Edward. Hann leitaði til Enrico Fermi, en honum hafði hann kynnst í Róm, sem aðstoðaði hann við að fá styrk frá Rockefeller sjóðnum við Columbia háskóla. Skömmu síðar hitti hann loks Delbrück, ásamt Alfred Hershey, og hófu þeir hið farsæla samstarf sitt við Cold Spring Harbor Laboratory og á rannsóknastofu Delbrücks við Vanderbildt háskóla.

Árið 1943 greindu þeir frá rannsóknum sínum á erfðum baktería. Þar sýndu þeir fram á erfðir í bakteríum fylgja þróunarkenningu Darwins, fremur en kenningu Lamarcks. Einnig sýndu þeir að stökkbreytingar í bakteríum eru slembiháðar og erfast hvort sem viðeigandi áreiti er til staðar eða ekki. Þeir hlutu nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar árið 1969.

Árið 1950, þá við Illinois háskóla í Urbana-Champaign, uppgötvaði Luria að sumar bakteríur framleiða ensím sem klippa DNA við ákveðnar kirnaraðir og vernda þannig bakteríuna gegn framandi erfðaefni. Slík ensím voru síðar nefnd skerðiensím og eru mikið notuð sem rannsóknatól í erfðatækni.

  1. S. E. Luria og M. Delbrück (1943) Mutations of Bacteria from Virus Sensitivity to Virus Resistance. Genetics 28, 491–511. PDF
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.