Fara í innihald

Úlfhildur Hákonardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Úlfhildur drottning stofnaði Alvastra-klaustur í Svíþjóð og er grafin þar.

Úlfhildur Hákonardóttir (um 10951148) var norsk hefðarkona sem var drottning Svíþjóðar frá því um 1117 til 1125, síðan skamma hríð drottning Danmerkur og svo Svíadrottning öðru sinni frá 1134 til dauðadags.

Úlfhildur var dóttir norska höfðingjans Hákonar Finnssonar úr Þjóttu. Hún giftist fyrst Inga yngri Svíakonungi, líklega um 1116. Sagt er að hún hafi fengið hann til að myrða Filippus bróður sinn og meðkonung á eitri árið 1118 og einnig að hún hafi seinna byrlað honum sjálfum eitur. Svo mikið er víst að hún hafði illt orð á sér í Svíþjóð og eftir dauða Inga leitaði hún hælis í Danmörku því henni var ekki vært í Svíþjóð.

Fljótlega eftir að Danadrottning, Margrét friðkolla, dó árið 1130 giftist Níels konungur Úlfhildi. Í Danmörku aflaði hún sér einnig óvinsælda og því hefur jafnvel verið haldið fram að hún hafi staðið að baki níðingsverki Magnúsar sterka stjúpsonar síns, þegar hann myrti Knút lávarð frænda sinn. Úlfhildur sagði skilið við Níels og er sögð hafa farið aftur til Svíþjóðar árið 1132; sumir telja að hún hafi þá strax gifst Sörkvi eldri Svíakonungi en líklegra er að þau hafi ekki gengið í hjónaband fyrr en eftir að Níels lést 1134, að minnsta kosti virðist aldrei hafa verið gerð athugasemd við hjónabandið eða dregið í efa að börn þeirra væru skilgetin, sem örugglega hefði verið gert ef þau hefðu gifst meðan Níels var enn á lífi.

Úlfhildur átti engin börn í fyrri hjónaböndum sínum en með Sörkvi átti hún synina Jóhann, sem var drepinn vegna kvennaráns sem hann framdi, og Karl, sem varð konungur Svíþjóðar 1161, og dótturina Ingigerði, sem giftist stjúpbróður sínum, Knúti Magnússyni Danakonungi.

Úlfhildur lést 1148 og Sörkvir giftist aftur Ríkissu af Póllandi, ekkju Magnúsar sterka, stjúpsonar Úlfhildar.

Orðspor Úlfhildar hefur löngum verið í þá átt að hún hafi verið hið versta flagð og kvendjöfull en nútímasagnfræðingar telja fremur að hún hafi verið viljasterk og stjórnsöm kona. Hún var framtakssöm og átti samskipti við marga höfðingja víða, var til dæmis mikil vinkona Össurar erkibiskups í Lundi. Hún stofnaði Alvastra-klaustur með Sörkvi manni sínum og er grafin þar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]