Sófistar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sófistar (forngríska: σοφιστής, sofistēs) eða fræðarar voru viskukennarar og róttæklingar í Grikklandi til forna. Hugtakið er dregið af gríska lýsingarorðinu σοφός, sofos, sem merkir „vitur“. Sófistar ferðuðust borga á milli og héldu námskeið og þénuðu sumir vel á kennslunni. Þeir voru sannfærðir um að margt sem talið var heilagt að gömlum sið og talið liggja í eðli hluta væri í raun merki um mannlega hagsmuni og árangur af mannlegum ákvörðunum. Þeir gagnrýndu kynþáttafordóma, þrælahald og kvennakúgun. Hafa ber í huga að sófistarnir voru sundurleitur hópur sem hafði ólíkar skoðanir um margt.

Almenn æðri menntun[breyta | breyta frumkóða]

Sófistar áttu snaran þátt í að móta evrópska menntun. Þeir mótuðu hugmyndir um almenna æðri menntun. Þeir lögðu áherslu á málfræði, mælskulist og rökleikni. Málfræði þýddi hjá þeim þekking á málinu, uppbyggingu þess og réttri notkun, mælskulist táknaði listina að flytja ræðu á lýtalausan hátt og rökleikni þýddi hæfileikann til að nota rök í málflutningi.

Mælskulist og rökbrellur[breyta | breyta frumkóða]

Sófistar lögðu áherslu á hið ytra form og létu málefnið víkja fyrir framsetningu. Þeir reyndu með rökbrellum og mælskulist að sigra andstæðinga í rökræðum. Það komst á sá orðrómur að þeir væru meistarar í að gera svart að hvítu. Þessi áhersla sófista á rökvísi er sprottinn upp úr afstæðiskenndu lífsviðhorfi þeirra. Sumir sófistar trúðu ekki að til væri hlutlægur sannleikur eða algerlega bindandi siðferði. Þetta snerist svo upp í grímulausa einstaklingshyggju þar sem frelsi var túlkað sem hömluleysi og réttlæting þess að sá sem færi með völd hefði einnig réttinn sín megin.

Sókrates[breyta | breyta frumkóða]

Sókrates trúði því, öfugt við sófista, að sannleikurinn væri til og unnt væri að finna hann. Sókrates var frábrugðinn sófistum að því leyti að hann tók ekki fé fyrir kennslu sína og hann fullyrti ekki að hann væri vitur.

Varðveitt þekking um sófista[breyta | breyta frumkóða]

Það sem vitað er um sófista er einkum umsögn um þá í ritum andstæðinga þeirra og þá sérstaklega Platons og Aristótelesar. Á seinni hluta 5. aldar f. Kr. var orðið „sófistar“ notað til að lýsa óskipulögðum hópi hugsuða sem notaði rökræður og mælskulist til að kenna og sannfæra aðra. Þessir hugsuðir fengu oft háar greiðslur frá nemendum því stjórnkerfi í Aþenu var þannig uppbyggt að mikilvægt var að vera mælskur og rökfimur. Prótagóras er talinn fyrsti sófistinn. Aðrir þekktir sófistar eru Pródíkos, Hippías, Þrasýmakkos, Lykofron og Antifon.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Reidar Myhre (2001). Stefnur og straumar í uppeldissögu. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. ISBN 9979-847-45-X.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Sophism“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. febrúar 2006.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Forverar Sókratesar