Fara í innihald

Levkippos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Levkippos
Levkippos
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilFornaldarheimspeki
Skóli/hefðFjölhyggjan
Helstu viðfangsefniFrumspeki

Levkippos eða Λευκιππος (5. öld f.Kr.) var upphafsmaður eindahyggjunnar eða atómismans í grískri heimspeki, þ.e. þeirri kenningu að allt samanstandi af óforgengilegum ódeilanlegum frumþáttum sem kallast ódeili (eða atóm).

Ekkert af ritum Levkipposar er varðveitt, en kenningar hans eru varðveittar m.a. í ritum nemanda hans og samstarfsmanns Demókrítosar frá Abderu (Sjá grein um Demókrítos fyrir frekari umfjöllun um eindahyggjuna.) Í raun er ógerningur að benda með neinni vissu á efnisleg atriði sem Demókrítos og Levkippos voru ósammála um.

Levkippos fæddist í Míletos (sumar heimildir segja í Eleu þar sem heimspeki hans var sögð tengjast kenningum heimspekinganna frá Eleu). Hann var samtímamaður Zenons frá Eleu, Empedóklesar og Anaxagórasar sem tilheyrðu jónísku heimspekihefðinni. Hann féll í skuggann af Demókrítosi sem setti eindahyggjuna fram á kerfisbundinn hátt og samkvæmt Díogenesi Laertíosi (D.L., X. 7) dró Epikúros í efa að hann hefði verið til. Á hinn bóginn eigna Aristóteles og Þeófrastos honum skýrt og greinilega heiðurinn af því að hafa verið upphafsmaður eindahyggjunnar.


Forverar Sókratesar