QAnon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Algengt einkennismerki QAnon-hreyfingarinnar.

QAnon er nafn á samsæriskenningu öfgahægrimanna í Bandaríkjunum[1] sem gengur út á að söfnuður satanískra barnaníðinga reki alþjóðlegan barnaníðshring sem teygi sig til allra heimshorna og bruggi launráð gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem á að vera helsti óvinur safnaðarins.[2] Kenningar QAnons ganga jafnframt yfirleitt út á að Trump sé að undirbúa sérstakan uppgjörsdag sem kallist „Stormurinn“ og muni leiða til þess að þúsundir meðlima söfnuðarins verði handteknir.[3][4] Enginn hluti þessarar kenningar á við rök að styðjast.[5][6][7][8] Stuðningsmenn QAnons hafa sakað marga frjálslynda Hollywood-leikara, stjórnmálamenn í Demókrataflokknum og háttsetta embættismenn um að vera meðlimir í barnaníðshringnum.[9]

Áhagendur QAnons halda því jafnframt fram að Trump hafi sett á svið samsæri með Rússum til þess að fá Robert Mueller til liðs við sig við að afhjúpa barnaníðshringinn og koma í veg fyrir að Barack Obama, Hillary Clinton og George Soros fremji valdarán.[10][11] Nettröll á mála hjá ríkisstjórn Rússlands hafa gefið samsæriskenningum QAnons byr undir báða vængi á samfélagsmiðlum[12][13][14][15][16][17] auk þess sem rússneskir ríkisfjölmiðlar hafa breitt út kenningarnar.[12][18]

Svipaðar samsæriskenningar á borð við Pizzagate-kenninguna svokölluðu, sem hefur síðan þá orðið hluti af hugmyndamynstri QAnons, höfðu áður náð útbreiðslu á netinu[19][20] en hin eiginlega samsæriskenningasmíð QAnon-hreyfingarinnar hófst í október árið 2017 á netspjallsíðunni 4chan með færslum notanda sem gekk undir nafninu „Q“. Almennt er gengið út frá því að notandinn Q hafi verið Bandaríkjamaður[21] en einnig hafa líkur verið leiddar að því að síðar hafi hópur fólks birt færslur undir notendanafninu Q.[22][23] Q sagðist vera háttsettur embættismaður með svokallaða Q-öryggisheimild og aðgang að leynilegum upplýsingum um ríkisstjórn Donalds Trump og andstæðinga hennar í Bandaríkjunum.[24] Fréttastofan NBC News hefur greint frá því að þrír einstaklingar hafi tekið hina upphaflegu færslu Q og dreift henni til ýmissa fjölmiðla til þess að byggja upp netfylgi í hagnaðarskyni. Ýmsir notendur á 4chan höfðu áður birt svipaðar færslur á undan Q með notendanöfnum á borð við FBIAnon, HLIAnon (High-Level Insider), CIAAnon, og WH Insider Anon.[25] Þótt hreyfingin sé bandarísk að uppruna hefur virkni hennar einnig verið talsverð utan Bandaríkjanna, einkum í Evrópu.[26]

Áhagendur QAnons fóru að birtast á kosningasamkomum Trumps í ágúst árið 2018.[27] Bill Mitchell, útvarpsmaður sem hefur talað fyrir kenningum QAnons, sótti „samfélagsmiðlafund“ í Hvíta húsinu í júlí 2019.[28][29] Stuðningsmenn QAnons merkja færslur sínar á samfélagsmiðlum gjarnan með myllumerkinu #WWG1WGA, sem er skammstöfun á slagorðinu „Where We Go One, We Go All“ (ísl. „Þangað sem eitt okkar fer, förum við öll“[30]). Á fjöldasamkomu Trumps í ágúst 2019 notaði maður slagorðið til að hita upp fyrir Trump en neitaði síðar að um væri að ræða vísun í QAnon. Þetta gerðist fáeinum klukkustundum eftir að alríkislögreglan birti skýrslu þar sem talað var um QAnon sem mögulega uppsprettu hryðjuverkastarfsemi.[31][32] Samkvæmt greiningu fjölmiðlasamtakanna Media Matters for America hafði Trump í október 2020 breitt út skilaboð QAnons að minnsta kosti 265 sinnum með því að deila eða minnast á 152 Twitter-færslur tengdar hreyfingunni, stundum oft á dag.[33][34] Stuðningsmenn QAnons fóru að kalla Trump „Q+“.[35]

Fjöldi stuðningsmanna QAnons er óljós en hreyfingin nýtur verulegs fylgis á netinu. Í júní árið 2020 hvatti Q fylgismenn sína til að sverja „hernaðareið stafrænna stríðsmanna“, sem margir gerðu og merktu með myllumerkinu #TakeTheOath á Twitter.[36] Næsta mánuð lét Twitter loka þúsundum notendaaðganga tengdum QAnon og breytti reikniforritum sínum til að draga úr útbreiðslu samsæriskenningarinnar.[37] Innri greining á Facebook í ágúst leiddi í ljós að milljónir stuðningsmanna hreyfingarinnar væru virkir á þúsundum hópa og síðna á samfélagsmiðlinum. Facebook gerði ráðstafanir síðar sama mánuð til að fjarlægja og takmarka virkni QAnons[38][39] og lét í október alfarið banna dreifingu samsæriskenningarinnar á miðlinum.[40] Fylgismenn QAnons hafa einnig flust á netmiðla á borð við EndChan og 8chan, þar sem þeir hafa skipulagt upplýsingaherferðir til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar 2020.[41]

Margir áhagendur QAnons voru meðal þeirra stuðningsmanna Trumps sem réðust á þinghúsið í Washington í janúar 2021 eftir ósigur Trumps í forsetakosningunum gegn Joe Biden.[42][43][44]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Roose, Kevin (August 28, 2020). „What Is QAnon, the Viral Pro-Trump Conspiracy Theory?“. The New York Times. Sótt October 4, 2020.
 2. Rozsa, Matthew (August 18, 2019). „QAnon is the conspiracy theory that won't die“. Salon. Sótt April 17, 2020.
 3. Spring, Marianna; Wendling, Mike (3. september 2020). „The link between Covid-19 myths and QAnon“. BBC News. Sótt 3. september 2020.
 4. Liptak, Kevin. „Trump embraces QAnon conspiracy because 'they like me'. CNN. Sótt August 20, 2020.
 5. „Why President Trump's refusal to refute QAnon conspiracy theorists matters“. CBS News. August 20, 2020. Sótt October 4, 2020.
 6. Colvin, Jill (August 14, 2020). „Trump dodges question on QAnon conspiracy theory“. Associated Press. Sótt October 4, 2020.
 7. O'Reilly, Andrew (August 19, 2020). „Trump addresses QAnon conspiracy theory for the first time: 'I heard that these are people that love our country'. Fox News.
 8. Sommer, Will (July 7, 2018). „What Is QAnon? The Craziest Theory of the Trump Era, Explained“. The Daily Beast. Sótt October 2, 2020.
 9. Laviola, Erin (August 1, 2018). „QAnon Conspiracy: 5 Fast Facts You Need to Know“. Heavy.
 10. Stanley-Becker, Isaac (August 1, 2018). 'We are Q': A deranged conspiracy cult leaps from the Internet to the crowd at Trump's 'MAGA' tour“. The Washington Post. Sótt September 19, 2018.
 11. 12,0 12,1 Menn, Joseph (August 24, 2020). „Russian-backed organizations amplifying QAnon conspiracy theories, researchers say“. Reuters. Sótt October 4, 2020.
 12. Ross, Jamie (2. nóvember 2020). „Russia-Backed Twitter Accounts Pushed QAnon Theory Right From Its Start, Says Report“. The Daily Beast (enska). Sótt 7. janúar 2021.
 13. „Russian troll accounts purged by Twitter pushed Qanon, other conspiracies“. NBC News (enska). Sótt 7. janúar 2021.
 14. Menn, Joseph (2. nóvember 2020). „QAnon received earlier boost from Russian accounts on Twitter, archives show“. Reuters (enska). Sótt 7. janúar 2021.
 15. „Congressman Krishnamoorthi Requests Information From DNI Ratcliffe On Russian Use QAnon In Disinformation Efforts“. Congressman Raja Krishnamoorthi (enska). 19. október 2020. Sótt 7. janúar 2021.
 16. „Russian Trolls Spread Baseless Conspiracy Theories Like Pizzagate And QAnon After The Election“. BuzzFeed News (enska). Sótt 7. janúar 2021.
 17. Davis, Julia (24. ágúst 2020). „Russia Using QAnon Conspiracies to Help Get Trump Re-Elected“. The Daily Beast (enska). Sótt 7. janúar 2021.
 18. Sullivan, Margaret (August 1, 2018). „As the bizarre QAnon group emerges, Trump rallies go from nasty to dangerous“. The Washington Post. ISSN 0190-8286. Sótt October 4, 2020.
 19. Greenspan, Rachel E. (September 29, 2020). „QAnon conspiracy theorists have been linked to a killing and multiple armed stand-offs. Here are the criminal allegations connected to the movement and its followers“. Insider. Sótt October 4, 2020.
 20. Martineau, Paris (December 19, 2017). „The Storm Is the New Pizzagate – Only Worse“. New York. ISSN 0028-7369. Sótt March 26, 2018.
 21. Rothschild, Mike (May 29, 2018). „Who is Q Anon, the internet's most mysterious poster?“. The Daily Dot (bandarísk enska). Sótt July 5, 2018.
 22. Brean, Henry (July 13, 2018). „Suspect in Hoover Dam standoff writes Trump, cites conspiracy in letters“. Las Vegas Review-Journal. ISSN 1097-1645. Sótt July 14, 2018.
 23. Griffin, Andrew (August 24, 2020). „What is Qanon? The Origins of the Bizarre Conspiracy Theory Spreading Online“. The Independent. London. Sótt October 2, 2020.
 24. Zadrozny, Brandy; Collins, Ben (August 8, 2018). „How three conspiracy theorists took 'Q' and sparked Qanon“. NBC News. Sótt November 11, 2019.
 25. „Europe's QAnon followers embrace US election conspiracy theories“. POLITICO. 6 November 2020.
 26. Bank, Justin; Stack, Liam; Victor, Daniel (August 1, 2018). „What Is QAnon: Explaining the Internet Conspiracy Theory That Showed Up at a Trump Rally“. The New York Times. ISSN 0362-4331. Sótt August 1, 2018.
 27. Roose, Kevin (July 10, 2019). „Trump Rolls Out the Red Carpet for Right-Wing Social Media Trolls“. The New York Times. ISSN 0362-4331. Sótt July 17, 2019.
 28. Durkee, Alison (July 8, 2019). „Trump's "Social Media Summit" Is a Far-Right Troll Convention“. Vanity Fair. Sótt April 17, 2020.
 29. „What is the QAnon conspiracy theory?“. CBS News. September 29, 2020. Sótt October 2, 2020.
 30. Bump, Philip (August 2, 2019). „Hours after an FBI warning about QAnon is published, a QAnon slogan turns up at Trump's rally“. The Washington Post (enska). Sótt April 17, 2020.
 31. Kovensky, Josh (August 2, 2019). „Ex-Dem Who Spouted QAnon Slogan At Trump Rally Disavows QAnon“. Talking Points Memo. Sótt April 17, 2020.
 32. Kaplan, Alex. „Trump has repeatedly amplified QAnon Twitter accounts. The FBI has linked the conspiracy theory to domestic terror“. Media Matters for America. Sótt 18. október 2020.
 33. Nguyen, Tina (July 12, 2020). „Trump isn't secretly winking at QAnon. He's retweeting its followers“. Politico.
 34. LaFrance, Adrienne (June 2020). „The Prophecies of Q“. The Atlantic. ISSN 1072-7825. Afrit from the original on August 29, 2020. Sótt October 4, 2020.
 35. Rosenberg, Matthew; Steinhauer, Jennifer (July 14, 2020). „The QAnon Candidates Are Here. Trump Has Paved Their Way“. The New York Times.
 36. Conger, Kate (July 21, 2020). „Twitter Takedown Targets QAnon Accounts“. The New York Times.
 37. Sen, Ari; Zadrozny, Brandy (August 10, 2020). „QAnon groups have millions of members on Facebook, documents show“. NBC News.
 38. Seetharaman, Deepa (August 19, 2020). „Facebook Removes QAnon Groups as It Expands Anti-Violence Policy“. The Wall Street Journal.
 39. O'Sullivan, Donie (6 October 2020). „Three years later, Facebook says it will ban QAnon“. CNN. Sótt 6 October 2020.
 40. Thomas, Elise (February 17, 2020). „Qanon Deploys 'Information Warfare' to Influence the 2020 Election“. Wired. Sótt October 4, 2020.
 41. Samúel Karl Ólason (7. janúar 2021). „Öfgamenn áberandi í árásinni á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
 42. „Hver er maður­inn með horn­in?“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 7. janúar 2021.
 43. Samúel Karl Ólason (7. janúar 2021). „Konan sem skotin var til bana var lengi í flughernum og ötull stuðningsmaður Trumps“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.