Fara í innihald

Robert Mueller

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Robert Mueller
Formaður bandarísku alríkislögreglunnar
Í embætti
4. september 2001 – 4. september 2013
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. ágúst 1944 (1944-08-07) (79 ára)
New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiAnn Cabell Standish (g. 1966)
Börn2
HáskóliPrinceton-háskóli
Undirskrift

Robert Swan Mueller III (f. 7. ágúst 1944) er bandarískur málafærslumaður sem var sjötti formaður bandarísku alríkislögreglunnar frá 2001 til 2013.[1] Mueller er skráður Repúblikani og var settur í embættið af George W. Bush Bandaríkjaforseta. Barack Obama Bandaríkjaforseti framlengdi tíu ára embættistímabil hans um tvö ár og Mueller gegndi embættinu því lengur en nokkur formaður alríkislögreglunnar síðan J. Edgar Hoover var og hét. Frá 2017 til 2019 var Mueller formaður rannsóknarnefndar um rússnesk afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Mueller er útskrifaður úr Princeton-háskóla og gegndi herþjónustu í bandaríska sjóhernum í Víetnamstríðinu. Þar hlaut hann Bronsstjörnuorðuna fyrir hugprýði og Purple Heart-orðuna sem sæmd er hermönnum sem hafa særst í átökum. Hann útskrifaðist úr lagaháskólanum í Virginíu árið 1973 og vann hjá lögfræðistöfu í San Francisco í þrjú ár þar til hann var útnefndur aðstoðarmálafærslumaður í sömu borg. Áður en hann var útnefndur formaður alríkislögreglunnar var Mueller ríkismálafærslumaður og aðalmálafærslumaður fyrir glæpadeild auk þess sem hann var varadómsmálaráðherra.

Í maí árið 2017 var Mueller útnefndur af Rod Rosenstein varadómsmálaráðherra sem sérstakur saksóknari til að sjá um rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Rannsóknin sneri einnig að tengslum rússnesku ríkisstjórnarinnar og á kosningaherferð Donalds Trump[2] og möguleikanum á því að Trump hafi sem Bandaríkjaforseti gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar með því að reka James Comey, formann bandarísku alríkislögreglunnar.

Frá því að rannsókn Muellers var hleypt af stokkunum hafa a.m.k. 33 manns verið ákærðir, þar af fjórir samstarfsmenn Trumps.[3] Meðal annars var lögmaður Trumps til margra ára, Michael Cohen, dæmdur í þriggja ára fangelsi þann 12. desember 2018 fyrir að múta tveimur konum í nafni Trumps til að segja ekki frá kynferðislegu sambandi þeirra við Trump á meðan á kosningabaráttunni stóð.[4] Rannsóknin leiddi jafnframt til þess að Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, var dæmdur sekur fyrir að ljúga að lögreglunni í yfirheyrslu;[5] Paul Manafort, kosningastjóri Trumps, var dæmdur sekur fyrir banka- og skattsvik ásamt fleiri glæpum[6] og Roger Stone, kosningaráðgjafi Trumps, var dæmdur í fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar með því að hóta vitnum í málinu.[7]

Rannsókn Muellers lauk í mars árið 2019. Í niðurstöðum rannsóknarinnar sagðist Mueller ekki hafa fundið sannanir fyrir því að kosningaherferð Trumps hefði átt samráð með afskiptum Rússa í kosningunum en tók þó ekki beina afstöðu með eða á móti því að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar.[8] Í vitnisburði sínum fyrir Bandaríkjaþingi í júlí 2019 hafnaði Mueller því að skýrsla hans hefði hreinsað Trump af ásökunum um síðari glæpinn.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Robert Mueller Biography; Special Counsellor of Justice Department“. BiographyTree. 5. ágúst 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2022. Sótt 20. febrúar 2018.
  2. Ruiz, Rebecca R.; Landler, Mark (17. maí 2017). „Robert Mueller, Former F.B.I. Director, Is Named Special Counsel for Russia Investigation“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. maí 2017. Sótt 3. desember 2017.
  3. Ólöf Ragnarsdóttir (22. nóvember 2018). „Um hvað snýst rannsókn Roberts Mueller?“. RÚV. Sótt 30. janúar 2019.
  4. Baldur Guðmundsson (12. desember 2018). „Cohen í þriggja ára fangelsi“. Fréttablaðið. Sótt 30. janúar 2019.
  5. Róbert Jóhannsson (5. desember 2018). „Mueller mælir gegn fangavist Flynns“. RÚV. Sótt 12. desember 2020.
  6. Samúel Karl Ólason (24. ágúst 2018). „Hver er Paul Manafort? Hátt fall mannsins á bak við tjöldin“. Vísir. Sótt 12. desember 2020.
  7. Fanndís Birna Logadóttir (21. febrúar 2020). „Einn helsti banda­maður Trump dæmdur í þriggja ára fangelsi“. Fréttablaðið. Sótt 12. desember 2020.
  8. „Áttu ekki óeðli­leg sam­skipti við Rússa“. mbl.is. 24. mars 2019. Sótt 25. mars 2019.
  9. Kjartan Kjartansson (24. júlí 2019). „Robert Mueller við þingnefnd: „Forsetinn var ekki hreinsaður af sök". Vísir. Sótt 26. september 2019.