Fara í innihald

Palmiro Togliatti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Palmiro Togliatti
Aðalritari ítalska kommúnistaflokksins
Í embætti
Nóvember 1926 – janúar 1934
ForveriAntonio Gramsci
EftirmaðurRuggero Grieco
Í embætti
Maí 1938 – 26. ágúst 1964
ForveriRuggero Grieco
EftirmaðurLuigi Longo
Dómsmálaráðherra Ítalíu
Í embætti
21. júní 1945 – 1. júlí 1946
ForsætisráðherraAlcide De Gasperi
ForveriUmberto Tupini
EftirmaðurFausto Gullo
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. mars 1893
Genúa, Ítalíu
Látinn21. ágúst 1964 (71 árs) Jalta, Krímskaga, úkraínska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÍtalski kommúnistaflokkurinn
MakiRita Montagnana (1924–1948)
Nilde Iotti (1948–1964)
HáskóliHáskólinn í Tórínó
Undirskrift

Palmiro Togliatti (26. mars 189321. ágúst 1964) var ítalskur stjórnmálamaður og leiðtogi ítalska kommúnistaflokksins frá 1927 til dauðadags. Hann lék stórt hlutverk í því ferli sem leiddi til stofnunar lýðveldis á Ítalíu eftir síðari heimsstyrjöld með því að framkvæma stefnubreytingu flokksins í Salernó, að undirlagi Stalíns, þar sem kommúnistaflokkurinn og ítalski sósíalistaflokkurinn sammæltust um að vinna eftir lýðræðislegum leiðum að stofnun lýðveldis á Ítalíu eftir stríð í stað vopnaðrar baráttu fyrir byltingu öreiganna, líkt og margir flokksmenn vildu.

Togliatti var stofnfélagi í ítalska kommúnistaflokknum og varð aðalritari eftir að Antonio Gramsci var tekinn höndum af fasistastjórninni.[1] 1935 varð hann meðlimur í stjórn Alþjóðasambands kommúnista undir dulnefninu Ercole Ercoli. Árið 1937 barðist hann í spænsku borgarastyrjöldinni og tók þar þátt í að útrýma leiðtogum trotskýista og anarkista í Katalóníu samkvæmt skipunum Stalíns.

Ítalska stjórnlagaþingið

[breyta | breyta frumkóða]

Hann tók sæti á stjórnarskrárþinginu 1946 og samþykkti þar, þrátt fyrir mótmæli innan eigin flokks, að Lateransamningarnir sem staðfestu skiptinguna milli Ítalíu og Vatíkansins, yrðu hluti af stjórnarskrá Ítalíu.

Árið 1947 hætti kommúnistaflokkurinn stuðningi við aðra ríkisstjórn Alcide de Gasperi og kristilegir demókratar mynduðu stjórn með frjálslyndum og fleiri flokkum hægra megin við kommúnista. Í kosningunum 1948, fyrstu kosningunum eftir að landið varð lýðveldi, fengu kommúnistar yfir 30% atkvæða, en demókratar sigruðu með yfirburðum með 48,5% atkvæða. Kommúnistar voru útilokaðir frá ríkisstjórn (líkt og í Frakklandi), meðal annars vegna afskipta Bandaríkjamanna, og urðu stórt stjórnarandstöðuafl.

Tilræðið 1948

[breyta | breyta frumkóða]

Tveimur mánuðum eftir kosningarnar var Togliatti skotinn af tilræðismanni sem að sögn óttaðist sterk tengsl ítalskra kommúnista við Sovétríkin. Þrjú skot hittu Togliatti í höfuð, hnakka og bak. Um leið og fréttist af tilræðinu og orðrómur komst á kreik um að hann væri látinn, hófust mótmæli verkamanna á mörgum stöðum á Ítalíu.[2] Þessar aðgerðir urðu skammvinnar þar sem kommúnistaflokkurinn ákvað að styðja þær ekki eftir að hafa ráðfært sig við Moskvu. Togliatti gaf sjálfur skipun um að aðgerðum skyldi hætt af sjúkrabeðinu.

Langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Undir stjórn hans varð ítalski kommúnistaflokkurinn stærsti evrópski kommúnistaflokkurinn í stjórnarandstöðu. Flokkurinn fékk milli 20 og 30% atkvæða í kosningum. Þrátt fyrir sterk tengsl Togliattis við Moskvu tókst honum að halda vinsældum sínum eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956 sem olli miklum átökum og klofningi vinstriflokka annars staðar á Vesturlöndum.

Toljattí í Rússlandi

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir andlát hans var bærinn Stavropol við Volgu endurnefndur í höfuðið á honum, Toljattí. Gamla bænum hafði verið drekkt af uppistöðulóni Kújbyshevstíflunnar en hann var endurreistur á öðrum stað 1964, sama ár og Togliatti lést í sumarleyfi í Sovétríkjunum. Bílaframleiðandinn AvtoVAS, sem framleiddi meðal annars Lödu, var settur upp í bænum tveimur árum síðar í samstarfi milli Sovétríkjanna og ítalska bílaframleiðandans Fiat.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Per-Olov Zennström (20. ágúst 1948). „Palmiro Togliatti“. Þjóðviljinn. bls. 5.
  2. „Palmiro Togliatti: Æviminning“. Réttur. 1. ágúst 1964. bls. 145-151.