Fara í innihald

Jón Loftsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Loftsson (11241. nóvember 1197) var íslenskur goðorðsmaður á 12. öld og talinn mesti höfðingi landsins á sinni tíð. Hann var af ætt Oddaverja, sonur Lofts Sæmundssonar í Odda, sem var sonur Sæmundar fróða, og Þóru (d. um 1175) laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Hann ólst upp í Konungahellu í Noregi til 1135, en fór þá til Íslands með foreldrum sínum, sem bjuggu í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum, og síðar í Odda á Rangárvöllum eftir að Eyjólfur bróðir Lofts lést 1158.

Jón Loftsson var mikill stjórnmálaskörungur og fór með öll goðorð í Rangárþingi. Hann var talinn vitrasti maður landsins, var vinsæll og var mjög oft leitað til hans til að dæma í málum og sætta menn. Hann var þó harður í horn að taka og í staðamálum fyrri (1179) veitti hann Þorláki helga Skálholtsbiskupi harða mótspyrnu. Þar var tekist á um kröfu kirkjunnar um forræði yfir kirkjustöðum og vann Jón sigur í þeirri deilu, þótt kirkjuvaldið hefði betur síðar og brytist undan hinu veraldlega valdi.

Á þessum tíma var kirkjuvald og veraldlegt vald mjög samtvinnað og faðir og afi Jóns voru prestar en sjálfur var hann djákni að vígslu. Hann stofnaði líka klaustur á Keldum á Rangárvöllum en það var skammlíft. Í Odda var mikið fræða- og menningarsetur. Árið 1181 leitaði séra Páll Sölvason í Reykholti liðsinnis Jóns í deilum við Hvamm-Sturlu og þvingaði Jón Sturlu til að ganga til sátta en bauð honum í staðinn að fóstra Snorra son hans, sem þá var þriggja ára. Snorri ólst upp í Odda til 19 ára aldurs og hlaut þar menntun sína.

Kona Jóns var Halldóra Brandsdóttir og áttu þau tvö börn, Solveigu konu Guðmundar gríss Ámundasonar á Þingvöllum og ömmu Gissurar Þorvaldssonar, og Sæmund Jónsson goðorðsmann í Odda. Jón átti einnig nokkrar frillur og með þeim allmörg börn. Þekktastir eru þeir Páll biskup í Skálholti og Ormur Breiðbælingur. Móðir þeirra var Ragnheiður Þórhallsdóttir, systir Þorláks helga.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Egill J. Stardal: Jón Loftsson, samtíð hans og synir, Ísafoldarprentsmiðja, Rvík 1967. Bókaflokkurinn: Menn í öndvegi, 3.