Fara í innihald

Olusegun Obasanjo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Olusegun Obasanjo
Obasanjo árið 2001.
Forseti Nígeríu
Í embætti
29. maí 1999 – 29. maí 2007
VaraforsetiAtiku Abubakar
ForveriAbdulsalami Abubakar
EftirmaðurUmaru Musa Yar'Adua
Þjóðarleiðtogi Nígeríu
Í embætti
13. febrúar 1976 – 30. september 1979
ForveriMurtala Mohammed
EftirmaðurShehu Shagari (sem forseti)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. mars 1937 (1937-03-05) (87 ára)
Ibogun-Olaogun, Nígeríu
ÞjóðerniNígerískur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkur alþýðunnar (1999–2015; 2018–)
MakiBola Alice (eiginkona)
Esther Oluremi (skilin)
Lynda (látin)
Stella Abebe (látin)
Mojisola Adekunle (látin)
TrúarbrögðKristinn
HáskóliMons-kadetskólinn
Konunglegi varnarfræðaháskólinn
Opni þjóðarháskólinn í Nígeríu

Olusegun Matthew Okikiola Aremu Obasanjo (f. 5. mars 1937) er nígerískur herforingi og stjórnmálamaður. Hann hefur verið þjóðhöfðingi Nígeríu á tveimur tímabilum, fyrst sem leiðtogi herforingjastjórnar frá 1976 til 1979 og síðan sem þjóðkjörinn forseti frá 1999 til 2007.

Olusegum Obasanjo fæddist í þorpinu Ibogun-Olaogun í suðurhluta Nígeríu og er kominn af þjóðarbroti Jórúba.

Hernaðarferill

[breyta | breyta frumkóða]

Olusegun Obasanjo gekk í nígeríska herinn árið 1958 og var sendur til liðsforingjanáms í Aldershot í Bretlandi. Á þjálfunarárum sínum var hann jafnframt staðsettur á Indlandi og í Gana. Á árunum 1960-1961 var hann sendur til Austur-Kongó ásamt hermönnum friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna í inngripi SÞ í Kongódeiluna. Eftir heimkomu sína til Nígeríu var honum falin stjórn 3. deildar Nígeríuhers, sem tók við uppgjöf aðskilnaðarsinna í Bíafra við lok nígerísku borgarastyrjaldarinnar í janúar 1970.

Fyrri valdataka

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 29. júlí árið 1975 tók Obasanjo þátt í valdaráni herforingjans Murtala Mohammed gegn ríkisstjórn herforingjans Yakubu Gowon. Þegar Murtala var ráðinn af dögum þann 13. febrúar næsta ár í misheppnaðri gagnbyltingu tók Obasanjo, sem þá var æðsti leiðtogi hersins, við sem þjóðarleiðtogi. Hann skipulagði valdfærslu til lýðræðisstjórnar, innleiðingu nýrrar stjórnarskrár og varð fyrsti leiðtogi ríkisins sem lét viljugur (eða lifandi) af völdum þegar hann steig til hliðar fyrir Shehu Shagari, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Nígeríu.

Obasanjo hætti í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum og þegar herinn tók völdin í landinu á ný árið 1983 tók Obasanjo hvorki þátt né studdi hann nýju herforingjastjórnina. Á næstu árum var hann kunnur gagnrýnandi mannréttindabrota og frændhygli sem viðgekkst meðal næstu ríkisstjórna.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Obasanjo var í framboði til embættis aðalritara Sameinuðu þjóðanna árið 1991 en tapaði fyrir Boutros Boutros-Ghali.

Á stjórnartíð hershöfðingjans Sani Abacha árið 1995 var Obasanjo dæmdur til dauða fyrir aðild að samsæri gegn ríkisstjórninni. Dómurinn var mildaður í 15 ára fangelsi vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu og var síðan ógiltur eftir dauða Abacha í júní 1998. Obasanjo sagðist hafa „fundið Guð“ á meðan hann sat í fangelsi og tók upp evangelíska kristni.[1] Hann hóf þátttöku í stjórnmálum að nýju undir formerkjum Lýðræðisflokks alþýðunnar (e. People's Democratic Party - PDP) og vann árið 1999 sigur í forsetakosningum með 62,6 % atkvæða á móti öðrum kristnum Jórúba, Olu Falae. Minnstu fylgi náði Obasanjo í heimahéraði sínu, þar sem hann var litinn hornauga fyrir að hafa vingast við múslima af þjóðerni Hása árið 1979 og fyrir að hafa sýnt þeim undirgefni. Engu að síður var litið á nýja áherslu Obasanjos á kristna trú sína sem pólitískt útspil til þess að vinna sér stuðning meðal kristinna Nígeríumanna í suðurhéruðum landsins.

Sem forseti reyndi Obasanjo að hvetja til erlendrar fjárfestingar í landinu, sem leiddi til þess að margir nýir einkareknir bankar voru stofnaðir, fjöldi ríkisfyrirtækja var einkavæddur og til þess að fjölmargir ríkisstarfsmenn voru leystir frá störfum. Í aðdraganda kjörs síns til forseta hafði Obasanjo heimsótt Bandaríkin í einkaþotu sem orkufyrirtækið Chevron útvegaði honum.[2]

Forsetakosningarnar árið 2003 einkenndust af ágreiningi eftir trúarlegum línum. Obasanjo vann endurkjör með 61,8 % atkvæða gegn múslima af Hásaþjóðerni, fyrrum forsetanum Muhammadu Buhari, en tapaði verulegu fylgi í norðurhluta landsins sem honum tókst þó að bæta fyrir með verulegri fylgisaukningu í heimahéruðum sínum í suðurhlutanum. Kosningabaráttan var stormasöm og einkenndist af ásökunum um kosningamismerli á báða bóga. Eftirlitsmenn töldu kosningasvikin þó ekki hafa verið nógu víðtæk eða kerfisbundin til að hafa veruleg áhrif á úrslitin, enda hafði Obasanjao unnið með nærri 11 milljóna atkvæða forskoti á Buhari.

Stjórnarskrá Nígeríu heimilar ekki forsetanum að gegna fleiri en tveimur kjörtímabilum en Obasanjo stakk upp á frumvarpi að stjórnarskrárbreytingu til þess að hann gæti hugsanlega boðið sig fram í þriðja sinn. Fyrrum forsetarnir Muhammadu Buhari og Ibrahim Babangida og varaforsetinn Atiku Abubakar lýstu yfir andstöðu sinni gegn breytingartillögunni.[3] Frumvarpið mætti jafnframt verulegri andstöðu á nígeríska þinginu og þingmeirihluti Lýðræðisflokks alþýðunnar nægði ekki til að skila því tilskildum stuðningi tveggja þriðju þingmanna þegar kosið var um það þann 16. maí 2006. Obasanjo gat því ekki boðið sig fram til endurkjörs í forsetakosningunum 2007.[4] Rannsóknum var í kjölfarið hleypt af stokkunum vegna ásakana um að þingmönnum hefði verið mútað til að greiða atkvæði með tillögunni.[5] Á fundi framkvæmdastjórnar Lýðræðisflokks alþýðunnar lýsti Obasanjo því yfir að atkvæðagreiðslan hefði verið „sigur fyrir lýðræðið“.[6]

Í maí árið 2007 vann flokksbróðir og næstráðandi Obasanjos, Umaru Yar'Adua, sigur í forsetakosningum sem þóttu einkennast af víðtæku kosningasvindli.[7] Yar'Adua tók við af Obasanjo sem forseti í lok sama mánaðar.

Að lokinni forsetatið

[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember 2008 var Obasanjo útnefndur sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna til þess að stýra friðarviðræðum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó milli stjórnarhers Josephs Kabila forseta og uppreisnarhreyfingar Laurents Nkunda.[8]

Í ágúst 2021 skipaði Afríkusambandið Olusegun Obasanjo sem æðsta fulltrúa friðar á horni Afríku. Obasanjo stýrði friðarviðræðum í stríðinu í Tígraí sem leiddi til þess að samið var um vopnahlé í nóvember 2022.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Iliffe, John (2011). Obasanjo, Nigeria and the World. James Currey. bls. 157. ISBN 978-1847010278.
  2. Jean-Christophe (1. júní 2007). „Cynique « black business » entre les Etats-Unis et l'Afrique“ (franska). Le Monde diplomatique. Sótt 5. febrúar 2021.
  3. Abdullahi Tasiu Abubakar (19. maí 2006). „Death of Third Term Celebrated in Yola With a Rally“ (enska). Daily Trust.
  4. Rotimi Ajayi; Ben Agande; Emmanuel Aziken (19. maí 2006). „Obasanjo Accepts 3rd Term Defeat“ (enska). Vanguard.
  5. Cosmas Ekpunobi (19. maí 2006). „Obasanjo Accepts Decision On 3rd Term“. Daily Champion.
  6. Kola Ologbondiyan; Chuks Akunna; Donald Andoor (19. maí 2006). „Obasanjo: It's Victory for Democracy“ (enska). This Day.
  7. „Nigeria election 'worst ever seen' (enska). SMH News. 24. apríl 2007.
  8. „UN Chief Names Special Envoy for DRC Crisis“, Voice of America, 3. nóvember 2008.
  9. „Borgarastyrjöldinni í Eþíópíu lokið“. mbl.is. 2. nóvember 2022. Sótt 5. nóvember 2022.


Fyrirrennari:
Abdulsalami Abubakar
Forseti Nígeríu
(29. maí 199929. maí 2007)
Eftirmaður:
Umaru Musa Yar'Adua
Fyrirrennari:
Murtala Mohammed
Þjóðarleiðtogi Nígeríu
(13. febrúar 197630. september 1979)
Eftirmaður:
Shehu Shagari
(sem forseti)