Goodluck Jonathan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Goodluck Jonathan
Jonathan árið 2013.
Forseti Nígeríu
Í embætti
6. maí 2010 – 29. maí 2015
VaraforsetiNamadi Sambo
ForveriUmaru Musa Yar'Adua
EftirmaðurMuhammadu Buhari
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. nóvember 1957 (1957-11-20) (66 ára)
Ogbia, Nígeríu
ÞjóðerniNígerískur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkur alþýðunnar
MakiPatience Faka
HáskóliHáskólinn í Port Harcourt
VefsíðaOpinber heimasíða

Goodluck Ebele Azikiwe Jonathan (f. 20. nóvember 1957)[1] er nígerískur stjórnmálamaður sem var forseti Nígeríu frá 2010 til 2015. Hann tapaði forsetakosningunum 2015 fyrir fyrrum herstjóra landsins, Muhammadu Buhari, og varð þannig fyrsti sitjandi forseti landsins sem tapaði endurkjöri og viðurkenndi ósigur.[2] Jonathan hafði áður verið varaforseti Nígeríu frá 2007 til 2010 í forsetatíð Umaru Musa Yar'Adua og fylkisstjóri hins olíuríka Bayelsa-fylkis frá 2005 til 2007.

Þegar Umaru Yar'Adua lést þann 5. maí 2010 var Goodluck Jonathan svarinn í embætti þjóðhöfðingja og útnefndi Namadi Sambo sem varaforseta sinn.[3] Jonathan vann síðan forsetakosningarnar 16. apríl 2011, sem voru almennt taldar hafa farið sómasamlega fram. Kosningunum fylgdi þó ofbeldi milli kristinna og múslima í norðurhluta Nígeríu, þar sem Jonathan hafði fyrst og fremst sótt fylgi sitt til kristinna íbúa landsins.

Uppvöxtur og fyrri störf[breyta | breyta frumkóða]

Jonathan tilheyrir kristna þjóðarbrotinu Ijaw í suðurhluta Nígeríu[4] og er kominn úr fjölskyldu kanógerðarmanna.[4][5] Hann nam dýrafræði við Háskólann í Port Harcourt[6] og hefur starfað sem eftirlitsmaður í skóla, fyrirlesari og embættismaður í umhverfisverndarmálum. Árið 1998 gekk Jonathan í Lýðræðisflokk alþýðunnar og hóf þátttöku í stjórnmálum.[4]

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1999 var Jonathan kjörinn varafylkisstjóri í heimahéraði sínu, Bayelsa, í suðvesturhluta Nígeríu, og gegndi því embætti í tvö kjörtímabil.[4][5] Þegar fylkisstjórinn Diepreye Alamieyeseigha sagði af sér vegna spillingar árið 2005 tók Jonathan við embætti hans þann 9. desember.[5]

Jonathan var valinn sem varaforsetaefni í forsetaframboði Umaru Yar'Adua fyrir Lýðræðisflokk alþýðunnar í kosningum árið 2007, meðal annars til þess að skapa mótvægi við Yar'Adua á kjörseðlinum. Þar sem Yar'Adua var múslimi frá norðurhluta landsins var það talið gefa framboðinu breiðari skírskotun ef varaforseti hans yrði kristinn.[5] Í kosningabaráttunni varð Jonathan fyrir árás sem lögreglan lýsti sem morðtilræði.[5] Jonathan tók við embætti varaforseta þann 29. maí 2007.[6] Sem varaforseti varði Jonathan talsverðum tíma í að fást við vopnaða uppreisnarhópa kristinna Nígeríumanna í olíuhéruðum Nígerósa og hvatti marga þeirra til þess að leggja niður vopnin.[4] Þegar Yar'Adua forseti veiktist af hjartasýki í nóvember 2009 var Jonathan settur í forsetaembættið til bráðabirgða. Þann 9. febrúar 2010 sló alríkisdómstóll því föstu að Jonathan væri starfandi forseti vegna veikinda Yar'Adua.[6] Yar'Adua lést þann 5. maí og Jonathan sór því embættiseið sem forseti Nígeríu næsta dag. Jonathan bauð sig fram til heils kjörtímabils sem forseti í kosningum sem haldnar voru í apríl árið 2011 og vann sigur með um tíu milljóna atkvæða forskoti á helsta keppinaut sinn, Muhammadu Buhari.[7][8]

Frá árinu 2012 einkenndist stjórnartíð Jonathans einna helst af baráttu stjórnar hans gegn hryðjuverkahópnum Boko Haram. Í aðdraganda kosninganna sem fóru fram árið 2015 gagnrýndi Muhammadu Buhari forsetann fyrir lélegan árangur í baráttunni gegn Boko Haram og fyrir að hafa ekki tekist að hafa upp á 219 skólastúlkum sem samtökin höfðu rænt frá bænum Chibok.[9] Jonathan bauð sig fram til endurkjörs í forsetakosningunum 2015 en bað í þetta sinn ósigur gegn Buhari, sem hlaut um tveimur milljónum fleiri atkvæði en Jonathan.[10] Goodluck Jonathan játaði sig sigraðan og lét friðsamlega af völdum í lok maí 2015. Hann er fyrsti forseti í sögu Nígeríu sem hefur látið friðsamlega af völdum eftir að hafa tapað endurkjöri.

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Jonathan er kvæntur Patience Goodluck Jonathan.[6] Eiginkona hans var árið 2006 ákærð fyrir peningaþvætti upp á um 13,5 milljónir Bandaríkjadala og sætti spillingarrannsókn vegna málsins. Hún var hins vegar aldrei dæmd.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lawson Heyford, "Jonathan: A Colossus at 49" Geymt 15 janúar 2009 í Wayback Machine, The Source (Lagos), 11. desember 2006.
  2. Max Siollun (1. apríl 2015). „How Goodluck Jonathan lost the Nigerian election“. Afrit af uppruna á 22. október 2016. Sótt 11. desember 2016.
  3. „Namadi Sambo confirmed as Nigeria vice-president“. BBC News. 18. apríl 2010. Sótt 10. febrúar 2021.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 „Profile: Goodluck Jonathan“. BBC News. 6. apríl 2010. Sótt 10. febrúar 2021.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 5,4 „Profile: Goodluck Jonathan“. Al Jazeera English. 6. apríl 2010. Sótt 10. febrúar 2021.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 „Bio-brief of Dr Goodluck Ebele Jonathan, GCON“. Nigeria First. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2010. Sótt 10. febrúar 2021.
  7. „Endurkjörinn í skugga óeirða“. Fréttablaðið. 19. apríl 2011.
  8. „Goodluck Jonathan áfram forseti“. RÚV. 18. apríl 2011. Sótt 10. febrúar 2021.
  9. Ásta Sigrún Magnúsdóttir (24. mars 2015). „„Ég trúi því að við finnum þær". Dagblaðið Vísir.
  10. „Buhari forseti Nígeríu“. mbl.is. 31. mars 2015. Sótt 10. febrúar 2021.


Fyrirrennari:
Umaru Musa Yar'Adua
Forseti Nígeríu
(6. maí 201029. maí 2015)
Eftirmaður:
Muhammadu Buhari