Fara í innihald

Níkíta Khrústsjov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Nikita Krústsjov)
Níkíta Khrústsjov
Никита Хрущёв
Níkíta Khrústsjov árið 1963.
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
Í embætti
14. mars 1953 – 14. október 1964
ForveriJósef Stalín
EftirmaðurLeoníd Brezhnev
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
Í embætti
27. mars 1958 – 14. október 1964
ForsetiKlíment Voroshílov
Leoníd Brezhnev
Anastas Míkojan
ForveriNíkolaj Búlganín
EftirmaðurAleksej Kosygín
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. apríl 1894
Kalínovka, rússneska keisaradæminu
Látinn11. september 1971 (77 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiJefrosínja Khrústsjova (1914–19, lést)
Marúsha Khrústsjova (1922, skilin)
Nína Kúkhartsjúk (Khrústsjova) (1923–71)
BörnJúlía (1915–81), Leoníd (1917–43), Rada (1929–2016), Sergej (1935–2020), Elena (1937–72)
HáskóliIðnháskólinn í Moskvu
StarfVerkfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Níkíta Sergejevítsj Khrústsjov (kyrillískt letur: Ники́та Серге́евич Хрущёв) (17. apríl 189411. september 1971) var eftirmaður Stalíns sem aðalritari sovéska kommúnistaflokksins og leiðtogi Sovétríkjanna. Hann var litríkur persónuleiki, lítill, þybbinn og sköllóttur, og vakti oft athygli fyrir óvenjulega framkomu. Frægt varð þegar hann eitt sinn hélt ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, fór úr öðrum skónum og lamdi honum í ræðupúltið til að leggja áherslu á orð sín.

Eftir að Khrústsjov komst til valda fordæmdi hann glæpi Stalíns og gerði sitt besta til að þurrka út arfleifð hans og draga úr persónudýrkun á honum. Á stjórnartíð Khrústsjovs var reynt að gera umbætur í frjálsræðisátt, auk þess sem Sovétríkin hófu geimrannsóknir fyrir alvöru. Flokksfélagar Khrústsjov steyptu honum af stóli árið 1964 og komu Leoníd Brezhnev til valda í hans stað.

Khrústsjov fæddist árið 1894 í þorpinu Kalínovka, sem er í dag við landamæri Rússlands og Úkraínu. Hann vann sem járnvinnslumaður á unga aldri og var pólitískur umboðsmaður, eða kommissar, í hernum á meðan rússneska borgarastyrjöldin stóð yfir.[1] Khrústsjov kynntist bolsévikanum Lazar Kaganovítsj árið 1916 og með hans hjálp vann hann sig upp metorðastigann í stjórn Sovétmanna.[2]

Khrústsjov studdi hreinsanir Stalíns á fjórða áratugnum og staðfesti handtökur á þúsundum meintra andófsmanna. Völd Khrústsjovs jukust í hreinsununum og hann varð aðalritari Moskvudeildar Kommúnistaflokksins árið 1935. Árið 1938 var Khrústsjov gerður að leiðtoga landsdeildar Kommúnistaflokksins í Úkraínu og varð því eiginlegur stjórnandi úkraínska sovétlýðveldisins, þar sem hreinsunum var haldið áfram.[3] Ári síðar skipaði Stalín hann aðalfulltrúa í stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins í þakkarskyni fyrir vel unnin störf.[2]

Eftir að Sovétmenn gerðu innrás í Pólland árið 1939 var Khrústsjov falið að innlima austurhluta Póllands í Sovétríkin. Á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar var Khrústsjov stjórnmálahershöfðingi í Rauða hernum og fór með yfirstjórn málefna Úkraínu til ársins 1949. Það ár kvaddi Stalín Khrústsjov til Moskvu, gerði hann að yfirmanni flokksins í borginni og fól honum umsjón yfir sovéskum landbúnaði.[2]

Dauði Stalíns árið 1953 hratt af stað valdabaráttu milli Khrústsjovs og annarra leiðtoga í Kommúnistaflokknum. Honum tókst að ryðja keppinautum sínum, Lavrentíj Bería og Georgíj Malenkov, úr vegi með valdaráni sem hann framdi með aðstoð Georgíj Zhúkov hermarskálks þann 26. júní. Bería var tekinn af lífi og Malenkov var í kjölfarið smám saman jaðarsettur.[4]

Árið 1954 lét Khrústsjov færa Krímskaga frá stjórn rússneska sovétlýðveldisins og gerði hann hluta að úkraínska sovétlýðveldinu. Þessi tilfærsla var gerð í tilefni af því að þá voru liðin 300 ár síðan Úkraína og Rússland sameinuðust.[5]

Þann 25. febrúar 1956 flutti Khrústsjov á 20. flokksþingi kommúnistaflokksins „leyniræðuna“ svokölluðu þar sem hann fordæmdi hreinsanir Stalíns og harðstjórn Stalínstímans og lofaði að innleiða frjálslyndara stjórnarfar í Sovétríkjunum. Innanríkisumbætur hans, sem áttu að bæta líf óbreyttra borgara, höfðu oft lítil áhrif, sérstaklega í landbúnaði. Khrústsjov vonaðist til þess að geta reitt sig á eldflaugar fyrir landvarnir Sovétríkjanna og skar því niður fjármagn til hersins sjálfs. Þrátt fyrir þennan niðurskurð var valdatíð Khrústsjovs spennuþrungnasta tímabil kalda stríðsins og náði spennan hátindi í Kúbudeilunni árið 1962.

Kúbudeilan hófst með því að Khrústsjov hugðist koma fyrir langdrægum eldflaugum á Kúbu, þar sem kommúnistar höfðu komist til valda í byltingu þremur árum fyrr. Hugsanlega gerði Khrústsjov þetta til að styrkja stöðu sína eftir ýmis pólitísk vonbrigði heima fyrir og erlendis.[6] Heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar þar sem Bandaríkjamenn vildu alls ekki að kjarnorkuvopnum yrði komið fyrir á dyraþrepi þeirra og íhuguðu alvarlega að gera árás þegar sovésk flutningaskip nálguðust Kúbu. Eftir mikla spennu féllst Khrústsjov á að fjarlægja kjarnavopnin frá Kúbu í skiptum fyrir að Bandaríkjamenn fjarlægðu sín eigin kjarnavopn á Tyrklandi.[6] Fjarlægingu bandarísku kjarnavopnanna var hins vegar haldið leyndri fyrst um sinn. Því hlaut Khrústsjov engan hróður af málinu heldur var tilfinningin fremur sú að hann hefði lúffað þegar Bandaríkin settu honum úrslitakosti. Deilan veikti mjög stöðu hans innan Sovétríkjanna.[6]

Vinsældir Khrústsjovs döluðu smám saman vegna vankanta í stefnumálum hans. Við þetta óx andstæðingum hans ásmegin og svo fór að þeir steyptu honum af stóli í október árið 1964.[7] Ólíkt fyrri valdsmönnum sem höfðu beðið ósigur í valdabaráttu Sovétríkjanna var Khrústsjov þó ekki tekinn af lífi, heldur var honum gefið hús á rússnesku landsbyggðinni og íbúð í Moskvu.[8] Þar bjó hann á kostnað ríkisins þar til hann lést vegna hjartagalla árið 1971.[9]

  • Max Hastings (2023). Kúbudeilan 1962. Þýðing eftir Magnús Þór Hafsteinsson. Reykjavík: Ugla útgáfa. ISBN 9789935218186.
  • Níkíta Khrústsjov; Vladímír Lenín (2016). Hannes Hólmsteinn Gissurarson (ritstjóri). Leyniræðan um Stalín: ásamt Erfðaskrá Leníns. Þýðing eftir Stefán Pjetursson. Inngangur eftir Áka Jakobsson. Reykjavík: Almenna bókafélagið. ISBN 978-9935-469-93-9.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Victor Alexandrov (20. apríl 1958). „Ferill Nikita Krustsjov. I. grein: Krustjov kynntist rússnesku hnútasvipunni, vodka og kommúnismanum“. Sunnudagsblaðið. bls. 207-211; 219.
  2. 2,0 2,1 2,2 Guðmundur Halldórsson (26. janúar 1992). „Khrústsjov: Valdhafinn sem fordæmdi Stalín“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  3. Victor Alexandrov (27. apríl 1958). „Ferill Nikita Krústsjov. II. grein: Krústsjov hreinsar til í Úkraínu“. Sunnudagsblaðið. bls. 230-235.
  4. Victor Alexandrov (3. maí 1958). „Ferill Nikita Krústsjov. III. grein: Dauði Stalíns – Krústsjovs í valdabaráttu“. Sunnudagsblaðið. bls. 248-251.
  5. Bogi Þór Árnason (1. mars 2014). „Gjöfin gæti reynst afdrifarík“. mbl.is. Sótt 22. október 2022.
  6. 6,0 6,1 6,2 Róbert F. Sigurðsson (16. september 2009). „Um hvað snerist Kúbudeilan?“. Vísindavefurinn. Sótt 7. apríl 2024.
  7. Guðmundur Halldórsson (25. september 1988). „Fall Khrústsjovs“. Morgunblaðið. bls. 10-11.
  8. „Frá völdum til einangrunar“. Vikan. 18. janúar 1968. bls. 22-23; 29-31.
  9. „„Með sorg í huga". Vísir. 16. september 1971. bls. 8.


Fyrirrennari:
Jósef Stalín
Aðalritari sovéska kommúnistaflokksins
(1953 – 1964)
Eftirmaður:
Leoníd Brezhnev
Fyrirrennari:
Níkolaj Búlganín
Forsætisráðherra Sovétríkjanna
(1958 – 1964)
Eftirmaður:
Aleksej Kosygín


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.