Fara í innihald

Neró

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Nero)
Neró
Rómverskur keisari
Valdatími 54 – 68

Fæddur:

15. desember 37
Fæðingarstaður Antium

Dáinn:

9. júní 68
Dánarstaður Róm
Forveri Claudíus
Eftirmaður Galba
Maki/makar Claudia Octavia,
Poppea Sabina,
Statilia Messalina
Börn Claudia Augusta
Faðir Gnaeus Domitius Ahenobarbus
Móðir Agrippina yngri
Fæðingarnafn Lucius Domitius Ahenobarbus
Keisaranafn Nero Claudius Caesar Augustus Germanicus
Ætt Julíska-claudíska ættin

Nero Claudius Caesar Augustus Germanicus (15. desember 379. júní 68) var fimmti og síðasti rómverski keisarinn úr ætt Júlíusar Caesars. Hann tók við krúnunni af Claudíusi frænda sínum, sem hafði ættleitt hann.

Útbreidd ímynd Nerós, byggð á skrifum andstæðinga hans, er á þá leið að hann hafi verið glaumgosi sem lét sig litlu skipta afdrif ríkisins og almennings. Á þeirri ímynd byggir sú staðhæfing að hann hafi leikið á hörpu meðan Rómaborg brann.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Neró var fæddur Lucius Domitius Ahenobarbus og var eini sonur Gnaeusar Domitiusar Ahenobarbusar og Agrippinu yngri, systur Calígúla. Faðir hans var fjarskyldur ættingi Ágústusar, en Ágústus var einnig langafi móður hans.

Við fæðingu hans var ekki útlit fyrir að Neró yrði nokkurntíma keisari þar sem Calígúla hafði verið krýndur 15. mars sama ár og var þá 24 ára. Keisararnir tveir sem ríktu þar áður, Ágústus og Tíberíus, urðu að endingu 76 og 79 ára.

Agrippina, móðir Nerós, bað bróður sinn Calígúla, um að gefa drengnum nafn, í von um að hann kæmist nær ríkiserfðum. Calígúla varð að ósk systur sinnar og gaf drengnum nafnið Claudius, þ.e.a.s. hann lagði til að drengurinn héti Lucius Claudius, sem var ekki í náðinni. Benti nafnið til þess að Calígúla þætti ekki mikið til drengsins koma og að Agrippinu yrði ekki að ósk sinni. Síðar bötnuðu samskipti systkinanna og um tíma var Agrippina í náðinni hjá Calígúla. Þó fór svo að hún var send í útlegð árið 39. Árið 40 lést Gnaeus Domitius eiginmaður Agrippinu og faðir Nerós.

Þann 24. janúar 41 var Calígúla keisari ráðinn af dögum og Claudíus krýndur keisari í kjölfarið. Claudíus kvæntist Agrippinu 1. janúar árið 49 og ári síðar, 25. febrúar 50, ættleiddi Claudíus Neró. Claudíus hampaði Neró á ýmsa vegu; hann varð ungur prokonsúll og mynd af honum birtist á myntum. Árið 53 giftist hann stjúpsystur sinni, dóttur Claudíusar, Claudiu Octaviu. Við dauða Claudíusar 13. október 54 varð Neró keisari.

Því hefur verið haldið fram að Agrippina hafi eitrað fyrir manni sínum Claudíusi svo Neró gæti orðið keisari, og að hún hafi í raun stýrt ríkinu fyrst um sinn sökum ungs aldurs Nerós. Hvort sem Neró hafi þótt móðir sín vasast of mikið í hans málum eða ekki, þá versnuðu samskipti þeirra til muna. Að lokum sauð upp úr og Neró lét drepa móður sína árið 59. Liðsmenn hans afsökuðu drápið með þeim rökum að Agrippina hafi sjálf lagt á ráðin um að drepa son sinn. Vitað var að Agrippinu og Poppaeu, kærustu og frillu Nerós, samdi ekki.

Neró (mynt slegin kringum 66).

Árið 62 lést Burrus sem hafði kennt Neró í æsku og verið ráðgjafi hans frá krýningu líkt og Seneca sem óskaði eftir því að draga sig í hlé eftir að hafa aðstoðað Neró við skynsalega stjórn ríkisins. Talið er að þeir hafi smám saman misst trúnað Nerós einkum fyrir tilstilli Poppaeu. Í stað þeirra kallaði Neró á Gaius Ofonius Tigellinus úr 13 ára útlegð sem fljótlega átti í góðu vinfengi við Neró.

Síðar sama ár skildi Neró við Claudiu Octaviu svo hann gæti kvænst þungaðri fryllu sinni, Poppaeu. Í fyrstu sakaði hann Octaviu um að hafa verið sér ótrú. Uppskar Neró við þá málaleitan ummæli á þá leið að kynfæri Octavíu væru hreinni en munnur Tigellinusar. Því skildi Neró við Octavíu í ljósi þess að hún væri ófrjó og kvæntist Poppaeu. Poppaea ól Neró dótturina Claudiu Augustu. Skyndilegur dauði Octavíu 9. júní 62 varð þó tiliefni fjölda mótmæla. Tigellinus innleidi í kjölfarið lög við landráðum og fór fjöldi aftaka fram í kjölfarið, þar á meðal aftökur á nokkrum nánum ættingjum Nerós.

Á sjöunda áratugnum braust út stríð milli Rómverja og Persa, þar sem barist var um yfirráð yfir Armeníu því þó Armenía tilheyrði Rómaveldi hafði konungur Persa, Vologases 1. tilnenft landstjóra í Armeníu og réðust því Rómverjar inn í Armeníu. Lyktaði ófriðnum á þá leið að Rómverjar skyldu krýna konung Armeníu sem þó skyldi vera persneskur prins. Friðarsamkomulagið var álitið sigur fyrir Neró og ríkti friður á þessum slóðum í um hálfa öld, eða fram til 114 þegar Trajanus rómarkeisari réðst inn í Armeníu.

Neró einbeitti sér að stjórnlist, viðskiptum og uppbyggingu menningalegrar miðborgar Rómaveldis. Í stjórnartíð hans var endir bundinn á uppreisn Breta undir stjórn Bóadíkeu (6061) og uppreisn Galla (68) og tengsl við Grikki styrktust. Hermt er að misheppnuð viðleitni til að binda enda á uppreisn á Spáni árið 68 hafi leitt til sjálfsvígs Nerós.

Ekki tókst Neró þó að kveða niður uppreisn Gyðinga sem hófst 66

Bruninn mikli

[breyta | breyta frumkóða]

Að kvöldi 18. júlí eða aðfaranótt 19. júlí 64 braust út eldur í nokkrum búðum í suðaustanverðum Circus Maximus. Eldurinn brann í 9 daga. Tacitus skrifaði að Neró hafi séð eldana brenna úr Maecenas turninum og sagt frá því að í bjarma loganna hafi hann sungið hans venjubundna sviðshlutverk. Aðrir herma (Tacitus, Ann. xv; Suetonius, Nero xxxvii; Dio Cassius, R.H. lxii.) að Neró hafi leikið á lýru (eins konar hörpu) og sungið á Quirinalis hæðinni. Enn aðrir segja að Neró hafi verið órþeytandi í að leita frétta af brunanum og skipulagt aðstoð við þá sem þess þurftu.

Vitað er að Neró bauð heimilislausum skjól og kom í veg fyrir hungur með matarútdeilingu og við endurbyggingu Rómar voru götur hafðar breiðari og hús byggð úr múrsteinum. Einn þáttur í endurbyggingunni var bygging hallarinnar Domus Aurea.

Almannarómur snerist fljótlega gegn Neró og var honum kennt um brunann og að hann hefði ætlað sér að reisa nýja borg á rústum Rómar og kenna hina nýju borg við sjálfan sig Neropolis. Tacitus ritaði að Neró hefði notað brunann til að koma sök á kristna menn, að í fyrstu hefðu þeir sem hefðu játað verið teknir höndum, síðar fleiri, og ekki einungis vegna aðildar að brunanum heldur og vegna haturs þeirra í garð manna. Áður en hinir handteknu voru teknir af lífi voru þeir hafðir til sýnis öðrum til skemmtunar, þar sem dýr drápu þá og hundar rifu í sig líkin Tacitus Annales, xv.44. Ekki hafa fundist aðrar heimildir fyrir því að Neró hafi í annan tíma að Neró hafi misbeitt valdi sínu gegn kristnum mönnum. Ekki er ljóst hvort hinir handteknu hafi verið teknir höndum vegna trúar sinnar eða hvort að þeir voru kristnir hafi verið tilviljun. Líkum hefur verið leitt að því að Poppaea hafi haft samúð með Gyðingum í Róm og fyrir hennar tilstilli hafi Neró látið til skara skríða.

Neró hækkaði skatta til að fjármagna endurbyggingu Rómar. Órói ríkti í Róm eftir brunann og er talið að Neró hafi fundist hann þurfa að kenna einhverjum um brunann.

Ólympíuleikar og endalok

[breyta | breyta frumkóða]

Neró áleit sig mikinn listamann. Þrátt fyrir að ekki hafi þótt rómverskum keisara bjóðandi að bregða sér í hlutverk skemmtikrafts vílaði Neró ekki fyrir sér að stíga á svið og syngja. Var engum heimilað að hverfa af vettvangi meðan Neró stóð á sviði, því hann skyldi vera miðpunktur athyglinnar, hvort sem áheyrendum líkaði betur eða verr. Neró einangraðist, hann neyddi samsærismenn í Pisón samsærinu til að fremja sjálfsmorð, hann heimtaði að vinsæll herforingi, Gnaeus Domitius Corbulo að nafni fremdi sjálfsmorð því Neró taldi að sér stæði ógn af honum.

Árið 66 barði Neró Poppaeu til bana. Poppaea gékk þá með annað barn þeirra hjóna en dóttirin Claudia Ágústa hafði dáið sem kornabarn. Neró átti því engan erfingja.

Árið 67 fór Neró til Grikklands og söng hann á Ólympíuleikunum. Neró þurfti að múta mótshöldurum sem seinkuðu leikunum og brydduðu upp á hestvagna keppni sem nýrri keppnisgrein að beiðni Nerós. Neró var dæmdur sigur eftir mútugreiðslur.

Þegar Neró sneri aftur til Rómar eftir árs fjarveru þótti honum sem andaði köldu í hans garð. Í mars 68 gerði Gaius Julius Vindex, landsstjóri í Galliu Lugdunensis, uppreisn gegn Neró. Vindex hafði lítinn herafla og var fljótlega sigraður í bardaga gegn Luciusi Verginiusi Rufus landsstjóra í Germaniu Superior. Eftir bardagann vildu herdeildir Rufusar lýsa hann keisara en hann neitaði. Servius Sulpicius Galba, sem var landsstjóri í Hispaniu Tarraconensis, hafði lýst yfir stuðningi við uppreisn Vindex. Galba hélt áfram andstöðu við Neró eftir fall Vindex og lýsti yfir hollustu við Öldungadeildina og Rómverja. Með því afneitaði hann valdi Nerós. Stuðningur við Galba jókst stöðugt og að lokum yfirgaf lífvarðasveit Nerós hann og lýsti yfir stuðningi við Galba. Á sama tíma hætti Lucíus Clodíus Macer að senda korn til Rómar frá Afríku.

Öldungadeildin lýsti Neró sem óvin ríkisins, hann flúði og framdi sjálfsmorð 9. júní 68. Andáts orð hans voru: Qualis artifex pereo („En sá listamaður sem fer til einskis“) áður en hann skar sig á háls. Neró var síðasti keisarinnn af Júlísku-cládísku ættinni og að honum látnum ríkti um tíma mikil óreiða í stjórnun Rómar; á árinu 69 ríktu fjórir keisarar á einu ári, þetta hefur verið kallað ár keisaranna fjögurra.

Frekari fróðleikur

[breyta | breyta frumkóða]

Champlin, Edward (2003). Nero. Harvard University Press. ISBN 978-0674011922.


Fyrirrennari:
Claudius
Rómarkeisari
(54 – 68)
Eftirmaður:
Galba