Steinunn Sveinsdóttir
Steinunn Sveinsdóttir frá Sjöundá (1767 - 31. ágúst 1805) myrti ásamt Bjarna Bjarnasyni konuna hans og manninn hennar og var það upphafið að frægu morðmáli sem kallað er morðin á Sjöundá. Hún lést í tukthúsinu á Arnarhóli þegar hún beið þess að vera ásamt Bjarna flutt til Noregs til aftöku þar sem enginn böðull fékkst til verksins á Íslandi. Hún var dysjuð á Skólavörðuholti þar sem ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Bein hennar voru þá grafin upp og flutt í Hólavallakirkjugarð.
Jón Espólín segir svo frá máli Steinunnar og Bjarna:
„Þá varð atburðr illr á Barðaströnd, á þeim bæ er heitir at Sjöundá, þar bjó sá maðr er Jón hét, kona hans Steinunn, ok þóttisiðlát ok sæmilega vel at sér; þar bjó á móti honum sá maðr er Bjarni hét, ok var Bjarnason, hann var með gildari mönnum og kallaðr gæflyndr ok óknyttalaus; hans kona hét Guðrún. Þat bar til, at Jón gekk inn í Skor á Rauðasandi, ok var at fara vestr yfir hlíðar brattar; í þeirri ferð hvarf Jón, ok ætluðu menn hann hrapat hafa; hann rak síðan af sjó, ok fannst á honum stíngr; var þá ok Guðrún kona Bjarna dáin, ok grafin; við þat kom upp grunr, ok var lík Guðrúnar grafit upp aptr, ok sá ummerki, at misþyrmt hefði verit; lét þá Guðmundr Skevíng taka Bjarna ok Steinunni, ok meðgekk Bjarni, at hann hefði farit eptir Jóni, at ráðum Steinunnar, ok lostið hann í rot með staf, ok hrundit honum síðan úr hlíðinni, en þau hefði kyrkt Guðrúnu. Steinunn með gekk mjök treglega, en þó varð allt sannat um síðir, ok gekk síðan frá hverjum rétti til annars, sem þá var tídt orðit við sakamanna mál, ok var þeim hvervetna dæmdr dauði báðum, ok Bjarna at klípast, sem lög stóðu til.“[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Espólín, Íslands árbækur XI, árið 1802, „XCII. Kap. Stórmæli vestra.“, bls. 124–125