Minjasafnskirkjan á Akureyri
Minjasafnskirkjan á Akureyri er svartbikuð timburkirkja í garði Minjasafnsins á Akureyri, héraðs- og byggðasafns Eyfirðinga, við Aðalstræti 58 á Akureyri. Hún er í senn safngripur og Guðshús.
Kirkjan stóð upphaflega á Svalbarði austanmegin Eyjafjarðar. Hana byggði Þorsteinn Daníelsson kirkjusmiður frá Skipalóni árið 1846. Kirkjan er íburðarlaus en stílhrein og talin gott dæmi um íslenskar sveitakirkjur sem reistar voru á Íslandi um miðbik nítjándu aldar. Messað er í kirkjunni á annan í páskum og annan í jólum.[1]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Svalbarðskirkja í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi var byggð árið 1846 af hinum alkunna kirkjusmið, Þorsteini Danielssyni (1796—1882) á Skipalóni. Þorsteinn var afkastamikill byggingarmeistari og einn þekktasti kirkjuforsmiður 19. aldar. Upphaflega var ytra byrði kirkjunnar bikað en árið 1888 var hún var hvítmáluð. Nokkru fyrr var hún máluð að innan.
Árið 1957 voru ekki talin lengur not fyrir kirkjuna á Svalbarðseyri. Hún var bæði of lítil og ástand hennar bágt. Hún var því afhelguð það ár við vígslu nýrrar Svalbarðskirkju. Sóknarnefnd Svalbarðssóknar gaf Æskulýðssambandi kirkjunnar í Hólastifti húsið og var ætlunin að flytja það til sumarbúðanna kirkjunnar við Vestmannsvatn. Það gekk ekki eftir vegan vegtálmana. Æskulýðsfélag Hólastiftis gaf því Minjasafninu kirkjuna. Árið 1965 fékk stjórn safnsins heimild til að veita henni viðtöku og ákveðið var að gera við hana í samráði við þjóðminjavörð og flytja hana á grunn gömlu Akureyrarkirkjunnar (1863-1943). Hún var flutt á grunn hinnar fyrri Akureyrarkirkju haustið 1970 og var endurvígð 10. desember 1972 sem guðshús og safngripur.[2][3]
Í tilefni af endurvígslu kirkjunnar árið 1972 orti Kristján frá Djúpalæk vígslusálm við lag Sverris Pálssonar skólastjóra en báðir áttu þeir sæti í stjórn Minjasafnsins. Síðasta erindi sálmsins[4] er:
- Og kæra, aldna kirkja,
- í kyrrþey beiðstu þess,
- að yngjast, endurvígjast,
- og öðlast fyrri sess.
- Enn bljúg, í hljóði beðin,
- er bæn í fangi þér.
- — Hið gamla, lága guðshús
- vor griðastaður er.
Kirkjan
[breyta | breyta frumkóða]Kirkjan er turnlaust timburhús undir einu formi reist með bindingsverki, 10,2 metrar að lengd og 5 metrar á breidd. Timburklæddir veggir og þak standa á steyptum og hlöðnum grunni. Kirkjurýmið er um 52,6 rúmmetrar og skiptist í framkirkju og kór aðskilið með kórþili og er prédikunarstóll.
Tveir merkilegir menningargripir eru í kirkjunni. Annars vegar ljósahjálmur úr kopar með tveimur krönsum og sex ljósaliljum frá árinu 1688 og hins vegar altaristafla frá árinu 1806 eftir Jón Hallgrímsson málara (1741-1808). Myndefni altaristöflunnar sem gerð var fyrir torfkirkjuna á Svalbarði er síðasta kvöldmáltíð Krists með ellefu lærisveinum og Júdas tvístígandi með fullan peningapung í útréttri hendi.[5]
Fegurð litlu kirkjunnar felst í einfaldleika og látleysi hennar sem er undirstrikað í hlutföllum og frágangi. Hún er dæmigerð fyrir þær timburkirkjur sem tóku við af torfkirkjum 19. aldar. Turnleysið og frágangur glugga við þakskegg er talið einkenni þeirra kirkna sem byggðar voru á árunum 1830 til1880. Lengd kirkjunnar samsvarar tvöfaldri breidd hennar og vegghæð er helmingur af hæð upp í mæni. Kórinn er einn þriðji af grunnfleti kirkjunnar.[6]
Minjasafnið á Akureyri er héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga safnar, varðveitir og rannsakar menningarsögulegar minjar, einkum þær sem eru lýsandi fyrir daglegt líf og atvinnuvegi í Eyjafirði. Af fjölbreyttum safnakosti er Minjasafnskirkjan stærsti gripur safnsins.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Tilvitnanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Minjasafnið á Akureyri. „Minjasafnskirkjan“. Minjasafnið á Akureyri. Sótt 10. mars 2021.
- ↑ Tíminn - 282. Tölublað (08.12.1972) (8. desember 1972). „Minjasafnskirkfan vígð á sunnudaginn“. Tíminn - 282. Tölublað (08.12.1972). bls. 28. Sótt 10. mars 2021.
- ↑ Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 4. tölublað (01.01.1975) (1. janúar 1975). „Minjasafnskirkjan“. Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 4. tölublað (01.01.1975). bls. 155-157. Sótt 10. mars 2021.
- ↑ Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 4. tölublað (01.01.1975) (1. janúar 1975). „Minjasafnskirkjan“. Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis - 4. tölublað (01.01.1975). bls. 157. Sótt 10. mars 2021.
- ↑ Minjasafnið á Akureyri. „Minjasafnskirkjan“. Minjasafnið á Akureyri. Sótt 10. mars 2021.
- ↑ Minjasafnið á Akureyri. „Minjasafnskirkjan“. Minjasafnið á Akureyri. Sótt 10. mars 2021.