Fara í innihald

Anna af Bretagne

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Anna af Bretagne.

Anna af Bretagne (25. janúar 14779. janúar 1514) var hertogaynja af Bretagne frá 1488 og drottning Frakklands frá 1492. Hún var gift tveimur Frakklandskonungum í röð, Karli 8. og Loðvík 12. Hún var auðugasta kona Evrópu á sinni tíð.

Erfingi Bretagne[breyta | breyta frumkóða]

Anna var dóttir Frans 2. hertoga af Bretagne og konu hans, Margaret af Foix. Hún var eina barn þeirra sem komst upp og var því alin upp sem erfingi hertogadæmisins og hlaut góða menntun. Faðir hennar vildi umfram allt forðast að Bretagne yrði innlimað í Frakkland og reyndi því að finna henni eiginmann sem væri nægilega öflugur til að geta staðið gegn Frökkum. Hún var heitbundin Játvarði, prinsi af Wales, syni Játvarðar 4., árið 1483 en hann hvarf skömmu eftir að faðir hans lést og föðurbróðir hans, Ríkharður 3., hrifsaði völdin.

Árið 1488 neyddist Frans þó til að fallast á að dóttir hans mætti ekki giftast án samþykkis Frakkakonungs. Hann dó svo 9. september sama ár og bretónskir ráðamenn giftu Önnu Maxímilíian 1. af Austurríki, síðar keisara, 19. desember 1490. Brúðguminn var þó ekki á staðnum, heldur var notast við staðgengil.

Anna og Karl 8.[breyta | breyta frumkóða]

Frakkar litu á þetta sem alvarlega ögrun og vorið 1491 kom Karl 8. Frakkakonangur í herleiðangur til Bretagne. Maximilian kom ekki til liðs við hina ungu brúði sína, sem hann hafði aldrei litið augum, Karl sigraði herlið hennar eftir umsátur um Rennes og lýst var yfir trúlofun þeirra. Austurríkismenn mótmæltu þar sem Anna væri þegar gift Maximilian, væri neydd til ráðahagsins og auk þess væri Karl löglega trúlofaður Margréti af Austurríki, dóttur Maximilians. Mótmælunum var ekki sinnt og brúðkaupið var haldið 6. desember 1491. Skömmu síðar lýsti Innósentíus VIII páfi hjónabandið löglegt þar sem hjónaband Önnu og Maximilians hefði aldrei verið fullkomnað. Samkvæmt hjúskaparsamningnum skyldi það hjónanna sem lifði lengur halda Bretagne en jafnframt var tekið fram að ef Karl dæi sonalaus ætti Anna að giftast eftirmanni hans.

Anna var krýnd drottning Frakklands 8. febrúar 1492 en hjónabandið var ekki hamingjusamt. Þegar Karl dó 7. apríl 1798 var Anna 21 árs og hafði alið honum sjö börn á sex árum, þrjú voru andvana fyrirburar, þrjú dóu nýfædd og elsti sonurinn dó úr mislingum þriggja ára að aldri og var það foreldrum hans mikill harmur.

Anna og Loðvík 12.[breyta | breyta frumkóða]

Anna af Bretagne tekur við handriti að bók Antoine Dufour um frægar konur.

Samkvæmt samkomulaginu átti Anna nú að giftast nýja konunginum, Loðvík 12., fjarskyldum frænda Karls, en gallinn var sá að hann var þegar kvæntur Jóhönnu systur Karls. Hún féllst á að giftast konunginum ef hjónaband hans fengist ógilt og sneri svo heim til Bretagne og tók aftur við stjórnartaumum þar. Hún notaði tækifærið til að ferðast um ríki sitt og láta slá mynt með nafni sínu. Ef til vill hefur hún treyst á að Loðvík tækist ekki að fá hjónaband sitt gert ógilt en Alexander VI páfi brást snarlega við óskum Loðvíks og 8. janúar 1499 giftist Anna í þriðja sinn. Hún gat fengið Loðvík til að samþykkja að hún notaði titilinn hertogaynja af Bretagne, sem Karl hafði ekki viljað fallast á, og barðist alla tíð af hörku fyrir sjálfstæði hertogadæmisins gagnvart Frakklandi.

Með Loðvík átti Anna tvær dætur sem komust upp og fimm andvana fædd börn, það síðasta 1512. Þegar hún dó, skömmu fyrir 37 ára afmæli sitt, hafði hún því alið fjórtán börn en átti aðeins tvö á lífi. Eldri dóttir hennar, Claude (f. 1499), gat ekki erft frönsku krúnuna en var hins vegar erfingi að Bretagne. Anna vildi umfram allt að Bretagne héldi sjálfstæði sínu og samdi því þegar árið 1501 um hjúskap milli hennar og Karls af Lúxemborg (síðar Karl 5. keisari). En þegar Loðvík varð ljóst varð að Anna mundi sennilega ekki eiga eftir að ala honum son sleit hann trúlofuninni og ákvað að dóttir hans skyldi giftast Frans af Angouleme, sem stóð næstur til ríkiserfða í Frakklandi. Anna neitaði að samþykkja ráðahaginn og Claude og Frans giftust ekki fyrr en eftir lát hennar.

Anna var bráðgreind og góður stjórnandi, stolt og drambsöm og mikill listunnandi. Annar fótur hennar var styttri en hinn og hún var því hölt. Hún er sá einstaklingur úr sögu Bretagne sem íbúar héraðsins þekkja best og um hana hafa verið sagðar og skrifaðar sögur og söngvar og samdar óperur.

Loðvík var rúmlega fimmtugur þegar Anna dó og átti engan son svo að honum lá á að reyna að bæta úr því. Hann giftist Maríu Tudor, 18 ára gamalli systur Hinriks 8. Englandskonungs, 9. október sama ár en dó á nýársdag 1515 og var sagt að ofreynsla í hjónasænginni hefði orðið honum að aldurtila. Frans frændi hans og tengdasonur erfði því ríkið. Claude varð drottning Frakklands og þegar hún dó 1524, 24 ára að aldri og hafði alið sjö börn, erfði elsti sonur hennar Bretagne, sem síðan hefur verið hluti af Frakklandi. Renee, yngri dóttir Önnu og Loðvíks, giftist Ercole 2. hertoga af Ferrara, syni Lucreziu Borgia.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]