Margrét af Austurríki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Margrét af Austurríki á yngri árum.

Margrét af Austurríki (10. janúar 14801. desember 1530) var austurrísk hertoga- og síðan keisaradóttir, heitkona Frakkakonungs, kona ríkiserfingja Spánar og hertogaynja af Savoja og síðan ríkisstjóri Niðurlanda 1507-1515 og aftur 1519-1530.

Margrét var dóttir Maxímilíans af Austurríki, síðar keisara, og Maríu af Búrgund, sem jafnframt ríktu saman yfir Niðurlöndum. Hún hét eftir stjúpömmu sinni, Margréti af York, systur Játvarðar 4. og Ríkharðar 3., sem var þriðja kona Karls djarfa hertoga af Búrgund. María dó tveimur árum eftir fæðingu Margrétar og erfði þá Filippus fagri, eldri bróðir hennar, meirihluta Búrgundar og Niðurlönd en faðir þeirra var ríkisstjóri því Filippus var aðeins fjögurra ára.

Heitkona Frakkakonungs[breyta | breyta frumkóða]

Sama ár undirrituðu þeir Maxímilían og Loðvík 11. Frakkakonungur Arras-samninginn, þar sem faðir Margrétar hét að gifta hana Karli, syni Loðvíks, og árið 1483 var gengið frá trúlofuninni og Margrét fékk Franche-Comté og Artois í heimanmund. Hún var send til frönsku hirðarinnar að alast þar upp eins og þá var algengt þegar konungabörn trúlofuðust. Hún var þá þriggja ára en Karl tíu árum eldri. Loðvík dó sama ár og Karl 8. varð konungur. Anna af Frakklandi, eldri systir Karls, var ríkisstjóri þar til hann varð fullveðja og sá líka um uppeldi Margrétar litlu.

Margréti mun hafa þótt afar vænt um væntanlegan eiginmann sinn en haustið 1491 sleit hann samningnum, því hann hafði einsett sér að giftast Önnu hertogaynju af Bretagne, sem var fjórtán ára og hafði erft geysimikil auðævi. Hún hafði raunar gifst Maxímilían, föður Margrétar, í desember 1490 en það var staðgengilsbrúðkaup og þau höfðu enn aldrei sést. Karl þvingaði því Önnu til að samþykkja ógildingu hjónabandsins og giftist henni í desember 1491.

Hann var þó ekkert að flýta sér að senda Margréti heim og mun hafa ætlað að velja henni mann sjálfur út frá pólitískum hagsmunum sínum. Margrét var mjög ósátt sem við mátti búast og skrifaði föður sínum bréf þar sem kemur fram að hún var til í að flýja frá París á náttkjólnum ef það væri eina leiðin til að öðlast frelsi. Árið 1493 var hún þó send aftur til fjölskyldu sinnar í Niðurlöndum og heimanmundinum skilað. Hún var að vonum mjög sár vegna framkomu Karls og hafði alla tíð horn í síðu Frakka.

Tvö skammvinn hjónabönd[breyta | breyta frumkóða]

Maxímilían vildi koma á bandalagi við konungshjónin Ísabellu, drottningu Kastilíu, og Ferdínand, konung Aragóníu, og samdi því um að Margét skyldi giftast einkasyni þeirra og erfingja, Jóhanni prinsi af Astúríu, og Jóhanna dóttir þeirra skyldi giftast Filippusi syni hans. Margrét hélt til Spánar í árslok 1496 og giftist Jóhanni snemma árs 1497. En hann dó 4. október, eftir hálfs árs hjónaband. Margrét var þá barnshafandi en fæddi andavana dóttur 8. desember.

Hún sneri aftur til Niðurlanda snemma árs 1500 og árið 1501 giftist hún jafnaldra sínum Filibert 2. hertoga af Savoja, en hann dó þremur árum síðar. Þau voru barnlaus. Margrét var þá orðin ekkja öðru sinni, 24 ára að aldri, og hafði auk þess verið svikin af fyrsta heitmanni sínum og uppeldisbróður, og hún sór þess eið að giftast aldrei aftur.

Ríkisstjóri Niðurlanda[breyta | breyta frumkóða]

Margrét á seinni ríkisstjóraárum sínum.

Árið 1507 var hún útnefnd ríkisstjóri Niðurlanda og forráðamaður Karls bróðursonar síns (síðar Karls 5. keisara), sem þá var sjö ára, en Filippus bróðir hennar hafði dáið á Spáni 1506. Hún þótti standa sig mjög vel í því starfi og gerði meðal annars verslunarsamning við Englendinga sem var hagstæður vefurum í Flæmingjalandi. Ríkisstjórn hennar lauk þegar Karl varð sjálfráða 1515. Hann reyndi fyrst að brjótast undan áhrifum hennar en áttaði sig brátt á að hún var einn besti ráðgjafi hans og árið 1519, eftir að Karl var sestur að í ríki sínu á Spáni, gerði hann hana aftur að ríkisstjóra Niðurlanda. Því embætti gegndi hún til dauðadags 1530. Stjórnartími Margrétar var að mestu friðar- og framfaraskeið í sögu Niðurlanda. Þó fór að bera á trúardeilum þegar mótmælendatrú breiddist út í norðurhlutanum. Margrét var þó fremur frjálslynd í trúarefnum og var mótfallin ofsóknum gegn mótmælendum.

Margrét var mjög vel menntuð, vel lesin, lék á nokkur hljóðfæri og orti ljóð. Margir helstu menntamenn samtímans heimsóttu hirð hennar, sem hafði aðsetur í Mechelen, milli Antwerpen og Brussel. Hún átti stórt bókasafn og lét gera fyrir sig fjölda nótnahandrita með verkum helstu tónskálda samtímans til að senda ættingjum og þjóðhöfðingjum að gjöf.

Hún dó í Mechelen, fimmtug að aldri, og hafði áður útnefnt Karl 5. bróðurson sinn sem einkaerfingja sinn.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]