Lev Kamenev
Lev Kamenev | |
---|---|
Лев Каменев | |
Varaformaður þjóðfulltrúaráðs Sovétríkjanna | |
Í embætti 6. júlí 1923 – 16. janúar 1926 | |
Forsætisráðherra | Vladímír Lenín Aleksej Rykov |
Formaður framkvæmdanefndar Alrússnesku ráðsamkomunnar | |
Í embætti 9. nóvember 1917 – 21. nóvember 1917 | |
Forveri | Níkolaj Tsjkheídze |
Eftirmaður | Jakov Sverdlov |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 18. júlí 1883 Moskvu, rússneska keisaradæminu |
Látinn | 25. ágúst 1936 (53 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Dánarorsök | Tekinn af lífi fyrir skotsveit |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1918–1927, 1928–1932, 1933–1934) Sósíaldemókrataflokkur Rússlands (Bolsévikar) (1903–1918) |
Maki | Olga Bronstein Tatjana Glebova |
Háskóli | Ríkisháskóli Moskvu |
Lev Borísovítsj Kamenev (rússneska: Лев Борисович Каменев), fæddur undir nafninu Rozenfeld (rússneska: Ро́зенфельд; 18. júlí 1883 – 25. ágúst 1936) var rússneskur byltingarmaður úr flokki bolsévika og síðar stjórnmálamaður í Sovétríkjunum. Kamenev var einn af nánustu samverkamönnum Vladímírs Lenín á árunum fyrir rússnesku byltinguna. Eftir októberbyltinguna varð hann einn af valdamestu mönnum rússneska sovétlýðveldisins og Sovétríkjanna.
Eftir dauða Leníns árið 1924 myndaði Kamenev þrímenningabandalag ásamt Grígoríj Zínovjev og Jósef Stalín og vann með þeim að því að ýta til hliðar sameiginlegum keppinauti þeirra, Lev Trotskíj. Eftir að Trotskíj var rúinn áhrifum lauk bandalagi þeirra þriggja og Stalín tókst að losa sig við Kamenev og Zínovjev og að endingu reka þá úr Kommúnistaflokknum.
Á tíma hreinsananna miklu á fjórða áratugnum var Kamenev handtekinn ásamt Zínovjev og fjölda annarra gamalla bolsévika. Hann var sakaður um landráð og samsæri til að myrða Stalín og var tekinn af lífi af skotsveit ásamt fleiri sakborningum þann 25. ágúst 1936.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Lev Kamenev fæddist árið 1883 og gekk til liðs við rússnesku kommúnistahreyfinguna (þá Sósíaldemókrataflokk Rússlands) árið 1901. Hann stjórnaði starfi bolsévika í Kákasus á meðan hann var enn í námi og kynntist á þeim tíma bolsévikaleiðtoganum Vladímír Lenín. Kamenev fylgdi Lenín þegar sá síðarnefndi var hrakinn í útlegð frá Rússlandi og ritstýrði kommúníska tímaritinu Prövdu á meðan það fékk að koma út.[1]
Byltingarárin
[breyta | breyta frumkóða]Kamenev sneri aftur til Rússlands árið 1914 en var handtekinn og sendur í útlegð til Síberíu. Honum var leyft að snúa aftur til vesturhluta Rússlands eftir febrúarbyltinguna árið 1917.[1] Kamenev kom til Petrograd í lok mars það ár og tók þá aftur við ritstjórn Prövdu ásamt Jósef Stalín og Matvej Múranov. Pravda hafði haldið uppi árásum á bráðabirgðastjórn Aleksandrs Kerenskíj, sem hafði tekið við völdum eftir febrúarbyltinguna, en eftir að Kamenev og Stalín tóku við ritstjórninni var tekin upp vinsamlegri stefna þar sem hvatt var til samstarfs við Kerenskíj. Þessi stefna var á skjön við vilja Leníns, sem var enn í útlegð. Lenín hóf að birta byltingaráköll gegn stjórninni eftir að hann sneri heim til Rússlands stuttu síðar.[2]
Á „júlídögunum“ svokölluðu sakaði stjórn Kerenskíj Lenín um að vera erindreka Þjóðverja, sem voru andstæðingar Rússa í fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta leiddi til mikillar reiði meðal rússneskra hægrimanna, miðflokka og kósakka, sem gerðu árás á ritstjórnarskrifstofu Prövdu og lögðu hana í rúst. Kamenev var í kjölfarið handtekinn ásamt Lev Trotskíj en Lenín neyddist til að fara í felur. Kerenskíj neyddist til að láta Kamenev og Trotskíj lausa síðar sama ár eftir að hafa staðið af sér misheppnaða uppreisn Lavr Kornílov hershöfðingja.[3]
Í aðdraganda októberbyltingarinnar talaði Kamenev, ásamt félaga sínum, Grígoríj Zínovjev, gegn því að bolsévikar gerðu vopnaða uppreisn gegn stjórninni og mælti með því að þeir færu lýðræðislegar leiðir til að komast til valda. Lenín brást illa við og kallaði þá „svikara gegn byltingunni“. Kamenev og Zínovjev greiddu báðir atkvæði gegn því að uppreisnin yrði hafin á leynifundi miðstjórnar bolsévika í nóvember 1917 en Lenín fékk sínu framgengt. Októberbyltingin var gerð og í henni heppnaðist bolsévikum auðveldlega að kollvarpa stjórn Kerenskíj.[3]
Valdaferill
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir ágreining sinn við Lenín hélt Kamenev sæti sínu í miðstjórn flokksins og sast eftir byltinguna í forsæti alrússnesku ráðsamkomunnar sem samþykkti fyrsta þjóðfulltrúaráð (ríkisstjórn) bolsévika í Rússlandi.[4] Á tíma rússnesku borgarastyrjaldarinnar varð Kamenev formaður sovétsins í Moskvu.[1]
Eftir dauða Leníns árið 1924 myndaði Kamenev þremenningabandalag ásamt Stalín og Zínovjev sem fór með mestöll völd í Sovétríkjunum á næstu árum. Kamenev og Zínovjev hjálpuðu Stalín að þröngva Trotskíj frá völdum en lentu síðar í ágreiningi við Stalín vegna ósættis með hugmyndir hans um „sósíalisma í einu landi“. Kamenev og Zínovjev reyndu að mynda bandalag með Trotskíj en Stalín var þá orðinn þeim mun voldugri og lét árið 1927 reka þá alla úr Kommúnistaflokknum.[4]
Eftir að Kamenev var rúinn völdum afneitaði hann fyrri skoðunum sínum og fékk því að gegna minniháttar embættum á næstu árum.[5]
Hreinsanir Stalíns
[breyta | breyta frumkóða]Hreinsanir Stalíns byrjuðu árið 1934 eftir að Sergej Kírov, einn valdamesti meðlimur Kommúnistaflokksins, var myrtur í Leníngrad. Stalín notaði morð Kírovs sem átyllu til að skera upp herör gegn meintum og raunverulegum andstæðingum sínum. Kamenev og Zínovjev voru báðir sakaðir um hlutdeild í morðinu en voru sýknaðir af ákærunum í janúar 1935. Þeir urðu hins vegar báðir að gangast við „siðferðislegri og pólitískri ábyrgð“ á aðgerðum stuðningsmanna sinna gegn flokknum og voru dæmdir til langrar fangelsisvistar.[6]
Árið 1936 voru Kamenev og Zínovjev aftur ákærðir ásamt fleiri sakborningum, í þetta sinn fyrir samsæri og hryðjuverkastarfsemi á vegum Trotskíjs, sem hafði þá verið gerður útlægur. Meðal annars voru þeir sakaðir um að hafa lagt á ráðin um að myrða Stalín samkvæmt skipun Trotskíjs. Kamenev var þvingaður til að játa á sig glæpina og var tekinn af lífi af skotsveit þann 25. ágúst árið 1936.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Þessir óðu rakkar verði skotnir, allir sem einn“. Tíminn. 28. mars 1982. bls. 28-30.
- ↑ „Lenín heimtaði nýja byltingu“. Tíminn. 7. nóvember 1967. bls. 15-16.
- ↑ 3,0 3,1 „Vladímír Lenín“. Samvinnan. 1. apríl 1970. bls. 12-18.
- ↑ 4,0 4,1 „Jósef Stalín“. Samvinnan. 1. desember 1967. bls. 10-16.
- ↑ Guðmundur Halldórsson (12. janúar 1992). „Skuggi Stalíns“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
- ↑ 6,0 6,1 „Hreinsanirnar miklu í Rússlandi“. Alþýðublaðið. 29. apríl 1979. bls. 28.