Leó 13.
Leó 13. | |
---|---|
Páfi | |
Í embætti 20. febrúar 1878 – 20. júlí 1903 | |
Forveri | Píus 9. |
Eftirmaður | Píus 10. |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 2. mars 1810 Carpineto Romano, Rómarumdæmi, franska keisaradæminu |
Látinn | 20. júlí 1903 (93 ára) Páfahöllinni, Róm, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Trúarbrögð | Kaþólskur |
Undirskrift |
Leó 13. (2. mars 1810 – 20. júlí 1903), fæddur undir nafninu Gioacchino Vincenzo Raffaele Luigi Pecci, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1878 til 1903.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Gioacchino Vincenzo Raffaele Luigi Pecci fæddist 2. mars árið 1810 og varð prestur árið 1837.[1] Hann hafði hlotið menntun hjá jesúítum á unga aldri. Þegar Pecci var 27 ára gamall gerði Gregoríus 16. páfi hann að húspresti sínum og notaði hann sem erindreka sinn í Englandi, Belgíu og Þýskalandi. Pecci varð biskup í Perugia árið 1845 og átta árum síðar varð hann kardínáli.[2]
Fyrir dauða sinn hafði Píus 9. skipað Pecci formann kardínalaráðsins, eða camerlengo, sem hefur umsjón með páfakosningu eftir andlát páfa. Talið er að Píus hafi ekki ætlast til þess að Pecci yrði næsti páfi, þar sem almennt var talið að formaður ráðsins væri aldrei kjörinn sjálfur. Pecci var engu að síður kjörinn eftir andlát Píusar árið 1878 og tók sér páfanafnið Leó 13.[2]
Eftir að Leó 13. settist á páfastól reyndi hann að leita sátta við stjórn Ottos von Bismarck í Þýskalandi, sem hafði átt í harðsvírugum deilum við kaþólsku kirkjuna þar í landi (hið svokallaða „menningarstríð“ eða Kulturkampf). Ýmis lög sem Bismarck hafði sett sem beindust gegn kaþólsku kirkjunni voru smám saman felld úr gildi. Árið 1882 var aftur stofnuð sendiherrastaða páfastóls gagnvart Þýskalandi, en hún hafði verið lögð niður árið 1874.[2]
Á páfatíð sinni sendi Leó 13. fjölda umburðarbréfa til ýmissa kristinna trúflokka með hvatningum um að viðurkenna páfaveldið.[1] Hann fyrirskipaði lestur rita Tómasar af Aquino, sem hann tók síðar í tölu kennifeðra kirkjunnar. Árið 1881 stofnaði Leó jafnframt sérstakan kennslustól í heimspeki Tómasar í Háskólanum í Louvain. Með þessu vildi hann vinna gegn áhrifum frá rýnisstefnu Kants, sem hann áleit heimspekistefnu mótmælendatrúar.[2]
Leó heimilaði vísindamönnum aðgang að skjalasafni Vatíkanhallarinnar, sem varð mjög til að efla sögulegar vísindarannsóknir á páfatíð hans. Hann lagði mikla áherslu á dýrkun Maríu meyjar, sem hann sagði vera hornstein kaþólskrar trúar. Leó átti í slæmu sambandi við ítalska konungsríkið og lýsti oft yfir óánægju með að páfadómur hefði svipt veraldlegu valdi í fyrrum Páfaríkinu. Leó viðhélt því banni forvera síns gegn því að kaþólskir menn tækju þátt í pólitískum kosningum á Ítalíu. Hann reyndi hins vegar að bæta samband páfastólsins við Frakkland, sem hann vonaðist til að gæti hjálpað honum að endurheimta frekari yfirráð í gamla Páfaríkinu. Hann skipaði því frönskum biskupum og kaþólskum mönnum að viðurkenna lýðveldisstjórn Frakklands.[2]
Aðdáendur Leós kölluðu hann gjarnan „friðarpáfann“.[2] Hann tók þátt í undirbúningi fyrstu friðarráðstefnunnar í Haag árið 1889 og páfastóllinn miðlaði nokkrum sinnum málum í milliríkjadeilum. Meðal annars var páfinn árið 1885 dómari í deilumáli milli Þýskalands og Spánar í deilumáli um Karólínueyjar og árið 1893 miðlaði hann málum í landamæradeilu milli Ekvador og Perú.[3]
Í umburðarbréfinu Rerum novarum árið 1891 fjallaði Leó 13. um aðstæður verkamanna og gef fyrirmæli um það hvernig ætti að bæta kjör þeirra og bæta samband launþega og vinnuveitenda. Hann brýndi fyrir báðum aðilum skyldur þeirra og staðfesti eignarrétt einstaklingsins.[3] Bréfið var ritað sem viðbragð við þrælkunarvinnu verkafólks í iðnaðarsamfélögum. Í því færði Leó rök fyrir því að hinu opinbera bæri jafnframt að huga að velferð og þægindum hinna vinnandi stétta.[4]
Leó 13. lést þann 20. júlí árið 1903. Hann var þá 93 ára gamall, eldri en nokkur annar páfi í sögu páfadómsins. Einungis Benedikt 16. hefur náð hærri aldri, en aðeins eftir að hann sagði af sér sem páfi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Leo páfi XIII“. Fríkirkjan. 1. maí 1899. bls. 72-73.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 Jón Helgason (1. janúar 1930). „Rómversk-katólska kirkjan á 19. öld“. Prestafélagsritið. bls. 87-122.
- ↑ 3,0 3,1 Jósef Hacking (14. desember 1958). „Páfinn í Róm – postuli friðarins“. Sunnudagsblaðið. bls. 651-654.
- ↑ Brynhildur Björnsdóttir (1. september 2012). „Biskup rannsakar siðferði banka“. Frjáls verslun. bls. 86-87.
Fyrirrennari: Píus 9. |
|
Eftirmaður: Píus 10. |