Fara í innihald

Landafræði Færeyja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Færeyjar er eyjaklasi í evrópu, 1.396 km² að stærð. Eyjarnar eru í Atlantshafinu, 430km suðaustan við Ísland og 575 km vestan við Noreg. Eldfjöll Færeyja eru kulnuð en þó má þar finna jarðhita. Þekktasta jarðhitalind Færeyja er Varmakelda. Eyjurnar eru vogskornar með fjörðum og sundum og eru allir þéttbýlisstaðir landsins staðsettir austurströndinni, fyrir utan Fámjin og Sumba.

Helstu þéttbýlistaðir er Þórshöfn á Straumey og Klakksvík á Borðey. Íbúar Sveitarfélagsins Þórshafnar eru 19.284 og innan þess eru þriðju og fjórðu stærstu bæir eyjanna, Hoyvík og Argir.

Staðsetning og stærð

[breyta | breyta frumkóða]
Enniberg, nyrsti tangi Færeyja.

Færeyjar liggja í Atlantshafi, milli Noregs, Skotlands og Íslands. Eyjarnar eru 1.396 km² að stærð og er samanlögð strandlengja þeirra 1117 km. Nyrsti tangi eyjana heitir Enniberg (62°29,2´ N) og sá syðsti Sumbiarsteinur (61°21,6´ N). Færeyjar liggja á 62. breiddargráðu. Vestasti oddi eyjana er Gráadrangur (7°40,1´ N) og austasti Stapi (6°21,5´ N). Eyjaklasinn samanstendur af 18 eyjum og 11 hólmum og er 118 kílómetra langur.

Stærstu eyjar Færeyja eru Straumey (57,4 km²), Borðey (52,4 km²), Austurey (37,0 km²), Suðurey (30,9 km²) og Nólsey (26,1 km²). Byggð er á öllum þessum eyjum.

Jarðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Færeyjar tóku að myndast fyrir um 55 milljónum ára. Kolalög á Suðurey og Mykinesi sýna að á meðan eldvirknin var sem mest á Færeyjum var þar hitabeltisloftslag og fenjagreni og musteristré blómstruðu. Eyjarnar eru myndaðar úr basalti og móbergi. Móbergið kemur frá öskulagi sem kólnaði og þéttist og sést aðeins sem þunnt lag í færeyskum jarðlögum. Helstu ummerki ísaldar á eyjunum eru dalir, firðir og sund.

Landslagsþættir

[breyta | breyta frumkóða]
Sørvágsvatn

Vesturströnd Færeyja er alsett bröttum björgum og er fuglalíf þar mikið. Meðalhæð fjalla er 300 metra yfir sjávarmáli. Mörg færeysk fjöll enda í þverhníptum björgum út í sjó og flestir fossar eyjanna falla fram af þessum björgum beint í sjó. V Ár og vötn þekja 9 km² eða 0,6% landsins. Stærsta stöðuvatn Færeyja og jafnframt það dýpsta er Sørvágsvatn, 3,4 km² og 59 metrar að dýpt. Vatnið myndaðist þegar farg jökulsins hörfaði á ísöld. Hæsta fjall færeyja, Slættaratindur myndaðist þegar jarðskorpuflekinn reis. Í kringum eyjarnar rísa víða standberg beint úr sjó til dæmis: Kunoyarnakkur, Enniberg og Beinisvørð.

Í Færeyjum er temprað loftslag. Golfstraumurinn hefur talsverð áhrif á hitastig sjávarins sem skapar kjöraðstæður fyrir fiska. Á eyjunum eru veturnir langir, mildir og vindasamir en sumrin eru svöl og rakt loft kemur úr suðri og vestri. Oftast er skýjað yfir Færeyjum, þoka og vindur er hefðbundinn á eyjunum. Sumstaðar má segja að heimskautaloftslag ríki í fjalllendi eyjanna. Meðalhitastig Þórshafnar yfir árið er 6,7 °C.

Lundar á Mykinesi.

Öll landdýr Færeyja hafa verið flutt inn af mönnum. Sauðfé var fyrst flutt til eyjanna á 9. öld og verður 20 kg við kynþroska aldur. Færeyski hesturinn er á milli 115 til 125 cm hár. Á meðal sjávardýra er útselur algengur á skerjum við eyjarnar. Best þekkta hvalategundin við Færeyjar er grindhvalurinn (Globicephala melaena).

Í færeyjum eru 110 mismunandi tegundir fugla og síðustu 150 ár hafa 260 tegundir fundist. Algengasti varpfuglinn er fýll (600.000 pör) og lundi er næst algengastur (550.000 pör). Þjóðarfugl Færeyja er tjaldur, því að koma hans 12. mars boðar upphaf vors á eyjunum.

Snæhéri var fluttur til Færeyja um miðja 19. öld og lifir nú villtur. Hann hefur þróast á þá leið að hann verður ekki hvítur á veturna þar sem lítið er af snjó á Eyjunum heldur gráleitari.