Fara í innihald

Lárus Gottrup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lárus Gottrup (16491. mars 1721) eða Lauritz Christensen Gottrup var Dani sem flutti til Íslands á 17. öld, settist þar að, komst til metorða og varð síðast lögmaður.

Gottrup kom fyrst til landsins með dönskum kaupmönnum og starfaði við verslun. Síðar varð hann fulltrúi fógeta, hafði Þingeyraklaustursumboð frá 1685 og varð að lokum lögmaður norðan og vestan árið 1695 að tillögu Müllers amtmanns. Var það í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem Íslendingar réðu alls engu um val á lögmanni. Upp frá því skipaði konungur lögmenn, svo og varalögmenn, en það embætti hafði ekki verið til áður.

Gottrup gegndi lögmannsembættinu til 1714. Árið 1701 fór hann utan með bænaskrár Íslendinga til konungs og tillögur um ýmis málefni og skipaði konungur tvær nefndir til að skoða það sem þar var fjallað um. Árangurinn af því mun meðal annars hafa verið að þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín voru sendir til Íslands til að rannsaka ástand og hagi landsins í hvívetna, gera tillögur um úrbætur og semja jarðabók. Ein af tillögum Gottrups var líka að Íslendingar skyldu hafa að staðaldri erindreka sinn í Kaupmannahöfn til að framfylgja nauðsynjamálum landsins. Minna varð þó úr umbótum en til stóð, meðal annars vegna flokkadrátta og misklíðar milli íslenskra höfðingja.

Lárus Gottrup bjó lengi stórbúi á Þingeyrum í Húnaþingi, byggði þar upp og reisti meðal annars stórt timburhús, upphitað að hluta og lét leggja vatn að húsinu. Einnig reisti hann stóra timburkirkju á Þingeyrum og gaf henni meðal annars hollenskan prédikunarstól í barokkstíl, skírnarfont og fleiri góða gripi. Hann reisti nýbýlið Gottrup í landi Ásbjarnarness, sem þá heyrðu undir Þingeyrar og kenndi það við sjálfan sig.

Lárus Gottrup flutt vefstól til landsins og tvo eða þrjá rokka á árunum 1711–1712. Árið 1702 hafði hann komið sér upp þófaramyllu og litunarverkfærum og hafði ráðið litara að nafni Hans Andersen frá Danmörku. Gottrup lét gera kálgarða að Þingeyrum og hafði kálgarðsstúlku (höstepige) frá Kaupmannahöfn.

Kona Lárusar hét Catharina Christiansdatter Peeters (1666-1731) en var hérlendis kölluð Katarína Kristjánsdóttir. Þau áttu þrjár dætur og soninn Jóhann Gottrup, sýslumann og klausturhaldara á Þingeyrum.

Þjóðminjasafnið varðveitir íburðarmikið málverk af Lárusi Gottrup og fjölskyldu hans en það var málað fyrir Þingeyrarklausturkirkju snemma á 18. öld og var fyrst í timburkirkjunni sem Gottrup lét reisa 1695 en síðar í steinkirkju sem var reist 1877 en var keypt til Þjóðminjasafnsins um 1900.


Fyrirrennari:
Magnús Jónsson (f. 1642)
Lögmaður norðan og vestan
(16951714)
Eftirmaður:
Oddur Sigurðsson lögmaður