Fara í innihald

Þingeyrar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þingeyrakirkja.
Altaristaflan
Má ekki rugla saman við Þingeyri.

Þingeyrar er bóndabær í Húnaþingi milli vatnanna Hóps og Húnavatns, landmikil hlunnindajörð og löngum stórbýli. Bærinn stendur á lágri hæð í miðju héraði og þaðan er afar víðsýnt.

Á Þingeyrum var þingstaður Húnvetninga til forna en engar fornminjar eru þar sem tengjast þinghaldi nema sporöskjulagaður garður eða hleðsla sem kallast Lögrétta. Sagt er að Jón Ögmundsson Hólabiskup hafi farið til vorþings á Þingeyrum eftir mikinn hallærisvetur skömmu eftir að hann tók við biskupsdómi og hafi þá fengið þingheim til að heita því að reisa klaustur á Þingeyrum. Þingeyraklaustur hóf þó ekki starfsemi fyrr en 1133.

Kirkjan á Þingeyrum var helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Prestssetur Þingeyraprestakalls var þó ekki þar, heldur í Steinnesi, allt þar til það var flutt til Blönduóss 1970. Núverandi kirkja var reist á árunum 1864-1877 og þykir mjög merk, hlaðin úr grjóti límdu saman með kalki, en þar sem varla finnst steinn í landi Þingeyra var allt hleðslugrjótið sótt yfir Hópið á sleðum á vetrum. Kirkjuhvelfingin er bogadregin, blámáluð með gylltum stjörnum sem sagðar eru 1000 að tölu. Margir fornir og merkir gripir eru í kirkjunni og einnig eru ýmsir gripir úr henni á Þjóðminjasafninu.

Eftir að klaustrið var lagt af um siðaskipti sátu jafnan höfðingjar á Þingeyrum. Má nefna Jón Jónsson lögmann, Þorleif Kortsson lögmann, sem þekktastur er fyrir galdraofsóknir sínar og Lauritz Gottrup lögmann, sem byggði þar vegleg húsakynni og timburkirkju. Jóhann Gottrup sonur hans bjó á Þingeyrum en sóaði auði sem hann erfði eftir foreldra sína og dó í fátækt. Eftir að hann missti Þingeyrar bjó þar Bjarni Halldórsson sýslumaður og þótti yfirgangssamur og héraðsríkur.

Um miðja 19. öldina bjó á Þingeyrum miklu rausnarbúi Ásgeir Einarsson alþm. og þjóðfundarfulltrúi og byggði að mestu á eigin kostnað á árunum 1864-1877 steinkirkjuna sem enn stendur á staðnum. Grjót í bygginguna lét hann uxa draga á ís yfir Hópið, enda lítið um grjót í landi Þingeyrar. Kirkjuhvelfingin er bogadregin, blámáluð með gylltum stjörnum sem sagðar eru 1000 að tölu. Margir fornir og merkir gripir eru í kirkjunni og einnig eru ýmsir gripir úr henni á Þjóðminjasafninu. Sonur Ásgeirs var Jón Ásgeirsson þjóðkunnur hestamaður, faðir Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp.

Prófessor Björn M. Ólsen, málvísindamaður og fyrsti rektor Háskóla Íslands, fæddist á Þingeyrum og þar fæddist einnig Jón Eyþórsson veðurfræðingur og jöklarannsóknamaður. Þar fæddist líka Ásgeir Jónsson, sem kenndi sig við Gottorp og þekktur er fyrir bókina Horfnir góðhestar. Hulda Á. Stefánsdóttir skólastjóri og frumkvöðull í menntun kvenna var lengi húsfreyja á Þingeyrum.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

„Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi?“. Vísindavefurinn.