Kúveiska karlalandsliðið í knattspyrnu
Gælunafn | Al-Azraq (Bláa bylgjan) | ||
---|---|---|---|
Íþróttasamband | (Arabíska: الإتحاد الكويتي لكرة القدم) Knattspyrnusamband Kúveit | ||
Álfusamband | AFC | ||
Þjálfari | Óráðið | ||
Leikvangur | Jaber Al-Ahmad alþjóðaleikvangurinn | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 148 (31.mars 2022) 24 (des. 1998) 189 (des. 2017) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
2-2 gegn Líbíu, 3. sept., 1961 | |||
Stærsti sigur | |||
20-0 gegn Bútan, 14. feb., 2000 | |||
Mesta tap | |||
0-8 gegn Sameinaða arabalýðveldinu, 4. set. 1961 & 0-8 gegn Portúgal, 19. nóv. 2003 |
Kúveiska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Kúveit í knattspyrnu og er stjórnað af knattspyrnusambandi landsins. Liðið hefur einu sinni komist í úrslit heimsmeistaramóts, á Spáni 1982.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Landslið Kúveit var stofnað árið 1961 til að taka þátt í knattspyrnukeppni Arabaleikan na sem fram fóru í Marokkó sama ár. Fyrsti leikurinn var 2:2 jafntefli gegn Líbíu en allar aðrar viðureignir í keppninni töpuðust, þar á meðal leikurinn gegn Sameinaða Arabalýðveldinu sem fór 8:0 og er enn í dag stærsta tap Kúveit á knattspyrnuvellinum.
Í byrjun áttunda áratugarins fór Kúveit að taka þátt í öllum helstu knattspyrnukeppnum Asíu og forkeppnum stórmóta. Fyrsta HM-forkeppnin var fyrir HM í Vestur-Þýskalandi 1974 þar sem liðið hafnaði í neðsta sæti í sínum riðli. Betur gekk fjórum árum síðar fyrir HM í Argentínu þar sem Kúveit varð efst í sínum riðli og hafnaði loks í þriðja sæti í sex liða úrslitariðli þar sem einungis topplið Írans komst áfram.
Í Asíumótinu árið 1976 tapaði Kúveit í úrslitaleiknum gegn gegtjöfum Írana og árið 1980 varð Kúveit Asíumeistari í fyrsta og eina sinn, en úrslitakeppnin fór einmitt fram í landinu. Sama ár keppti Kúveit í fyrsta og eina sinn í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna sem fram fóru í Moskvu. Kúveit kom mjög á óvart með því að sigra bæði Nígeríu og Kólumbíu og gera jafntefli við Tékkóslóvakíu í riðlakeppninni. Við tók fjórðungsúrslitaleikur gegn Sovétmönnum þar sem leikmenn Kúveit sýndu góða baráttu og töpuðu aðeins 2:1.
Asíumeistaratitillinn og frammistaðan í Moskvu gerði það að verkum að Kúveit var talið sterkasta landslið Asíu í aðdraganda HM á Spáni 1982.
Kúveit kemst á HM
[breyta | breyta frumkóða]Lið Kúveit vann alla leiki sína í forriðli undankeppninnar fyrir HM 1982 og tryggði sér þar með sæti í fjögurra liða úrslitariðli þar sem keppt var um tvö sæti í lokakeppninni. Þrátt fyrir ljótan skell gegn Kínverjum, 3:0, hafnaði Kúveit á toppnum með Nýsjálendinga fast á hælum sér. Bæði lið tryggðu sér því farseðilinn til Spánar.
Í úrslitunum biðu þrjár sterkar Evrópuþjoðir og möguleikarnir á að komast áfram voru taldir óverulegir. Fyrsti leikurinn var gegn Tékkóslóvakíu og líkt og á Ólympíuleikunum tveimur árum fyrr lauk honum með jafntefli. Eftir að Evrópumeistararnir frá 1976 náðu forystu með vítaspyrnu í fyrri hálfleik jöfnuðu Kúveitar þegar tæpur klukkutími var liðinn af leiknum.
Frakkar reyndust of stór biti í næstu umferð. Leiknum lauk með 4:1 sigri franska liðsins og rataði viðureignin helst í sögubækurnar vegna furðulegs atviks þar sem forseti knattspyrnusambands Kúveit brást ókvæða við marki frá franska liðinu, óð inn á völlinn og hafði í hótunum. Athæfið bar tilætlaðan árangur þar sem dómarinn kaus að skipta um skoðun og dæmdi markið af. Líklegt er talið að forsetinn hafi hótað að lið hans gengi af velli að öðrum kosti.
Lokaleikurinn var gegn Englendingum sem þegar voru komnir áfram. England skoraði um miðjan fyrri hálfleik en þar við sat. Kúveit hafði lokið keppni en mátti ágætlega við árangurinn una.
Gullöldinni lýkur
[breyta | breyta frumkóða]Bestu ár Kúveit á knattspyrnusviðinu voru rétt í kringum 1980. Eftir 1982 hefur landið aldrei verið nálægt því að komast í úrslitakeppni HM og oftar en ekki fallið út í forriðlunum. Kúveit var lengi vel langsigursælasta landið í keppni Persaflóaríkja, sem fram fer að jafnaði annað hvert ár og varð meistari í átta af tíu fyrstu skiptunum frá 1970 til 1990. Upp frá því hefur landið ekki unnið keppnina nema þrívegis, síðast árið 2010.
Óstjórn og spilling innan knattspyrnusambandsins hefur gert það að verkum að ítrekað hefur orðið að víkja landinu úr FIFA. Fékk Kúveit t.a.m. ekki að taka þátt í forkeppni HM 2018 vegna þessa.
Landsliðsmenn Kúveit leika undantekningarlítið í heimalandinu og eru því lítt kunnir á Vesturlöndum. Langfrægasti landsliðsmaðurinn í sögu Kúveit er því vafalítið Michel Platini sem tók upp kúveiskt ríkisfang til þess að geta leikið í um tuttugu mínútur í leik gegn Sovétríkjunum árið 1988. Þetta var jafnframt síðasti opinberi knattspyrnuleikur Platini og kom honum í fámennan hóp þeirra sem leikið hafa fyrir meira en eitt landslið.