Fara í innihald

Hesteyri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hesteyri.
Rústir síldarbræðslunnar og hvalstöð á Stekkeyri.

Hesteyri er eyðiþorp við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið fór í eyði rétt eftir miðja 20. öld.[1] Hesteyrarjörðin, sem þorpið stendur á, á landamerki með jörðinni Sléttu í Sléttuhreppi yst í Hesteyrarfirði. Jörðin nær frá landamerkjum við Sléttu fyrir Hesteyrarfjörð og fremst á Lásfjall.

Hesteyri var nokkurs konar miðstöð stjórnsýslu í Sléttuhreppi en þar var læknir, loftskeytastöð frá 1922, barnaskóli frá 1884 og loks var lagður sæstrengur til Grunnavíkur og komst þá á símasamband við þorpið.[1]

Á Hesteyri eru nú 9 hús sem notuð eru sem sumarhús. Flest þessara húsa eru frá fyrri hluta síðustu aldar en nokkur voru reist fyrir aldamótin 1900. Í húsi, sem gengur undir nafninu Búðin, var rekin verslun en Hesteyri varð löggiltur verslunarstaður 1881. Þegar flest var bjuggu rúmlega 80 manns á Hesteyri. Byggð lagðist af haustið 1952 en síðustu íbúarnir fluttu á brott þann 1. nóvember það ár.[1]

Innan við Hesteyri rennur Hesteyrará sem oft reyndist farartálmi þeim sem ætluðu norður í víkur (Kjaransvík, Hlöðuvík, Hornvík). Sumarið 2004 var áin brúuð. Rúmum tveimur kílómetrum innan við þorpið á Stekkeyri stóð áður hvalstöð, reist 1894, sem síðar varð síldarbræðsla. Stöðin var reist af Norðmönnum en komst síðan í eigu Íslendinga. Stöðin var starfrækt fram í seinna stríð. Í dag er orðið lítið eftir af stöðinni nema rústir og strompur mikill sem enn stendur.

Hesteyrarkirkja

[breyta | breyta frumkóða]

Kirkja var reist á Hesteyri, og var hún vígð 3. september 1899. Kirkjunni var þjónað frá Staðarkirkju í Aðalvík. Það voru Norðmenn þeir, sem áttu hvalverksmiðjuna á Stekkeyri, sem gáfu Hesteyringum kirkjuna, sem var flutt tilhöggvin frá Noregi. Árið 1962 var hún tekin niður og flutt til Súðavíkur þar sem hún stendur enn. Það láðist að fá leyfi landeigenda á Hesteyri fyrir töku kirkjunnar og spunnust um það miklar deilur.[2][3][4] Þar sem kirkjan stóð áður hefur nú verið reistur minnisvarði með bjöllu og koparskildi með teikningu af kirkjugarðinum og lista yfir þá sem þarna eru grafnir.

Hesteyri í miðlum

[breyta | breyta frumkóða]

Sögusvið í bók Yrsu Sigurðardóttur Ég man þig er Hesteyri. Hún fjallar um ungt fólk sem er að gera upp hús í þorpinu um miðjan vetur og fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir á staðnum.[5] Árið 2015 var tekin upp kvikmynd með sama nafni en í aðalhlutverkum hennar voru Ágústa Eva Erlendsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1 2 3 Páll Ásgeir Ásgeirsson (23. desember 2013). „Hin hljóðu þorp“. Vísbending. Sótt 23 apríl 2025 gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs
  2. Sölvi Betúelsson (6. september 1960). „Það er búið að taka kirkjuna okkar“. Morgunblaðið. bls. 8. Sótt 25 apríl 2025 gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs
  3. Sigurbjörn Einarsson (20. september 1960). „Um Hesteyrarkirkju“. Morgunblaðið. bls. 6. Sótt 25 apríl 2025 gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs
  4. „Enn um Hesteyrarkirkju - Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns“. Tíminn. 1 október 1960. bls. 9. Sótt 25 apríl 2025 gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs
  5. Jón Hákon Halldórsson (15. mars 2011). „Sigurjón Sighvatsson vill kvikmynda bók Yrsu“. Vísir.is. Sótt 23 apríl 2025.
  6. Freyr Bjarnason (13 nóvember 2015). „Glæpasagnadrottningin á tökustað á Hesteyri“. Fréttatíminn. bls. 38–42. Sótt 23 apríl 2025 gegnum Tímarit.is.Einkennismerki opins aðgangs