Staðarkirkja (Aðalvík)
66°19′44.16″N 23°3′14.43″V / 66.3289333°N 23.0540083°V
Staðarkirkja (Aðalvík) | ||
Staður í Aðalvík (24. júlí 2012) | ||
Almennt | ||
Byggingarár: | 1904 | |
---|---|---|
Breytingar: | 1930 | |
Kirkjugarður: | Bak við kirkjuna | |
Arkitektúr | ||
Arkitekt: | Helgi Elíasson smiður | |
Efni: | Timbur | |
Hlið: | Sáluhlið frá 2013 | |
Kirkjurýmið | ||
Sæti: | Sveigðir bekkir | |
Staðarkirkja í Aðalvík í Sléttuhreppi er kirkja sem byggð var árið 1904. Áður stóð þar torfkirkja sem byggð var milli 1850-1860 og talið er að kirkja hafi verið í Aðalvík frá miðöldum. Skrá Páls biskups Jónssonar yfir kirkjur á Íslandi um 1200 er elsta heimild um kirkju á Stað í Aðalvík.[1]
Staðarkirkja í Aðalvík var reist árið 1904, hönnuður var Helgi Elíasson smiður. Hún er reist úr timbri með forkirkju. Breytingar voru gerðar á kirkjunni 1930, en þá var hún klædd bárujárni að utan, kór reistur og prédikunarstóll færður til.
Kirkjan er friðuð frá 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.
Eignir
[breyta | breyta frumkóða]Máldagi frá 1286 er elsti máldagi kirkjunnar og átti kirkjan þá helming jarðarinnar. Jörðin er talin eign Vatnsfjarðar-Kristínar 1397.
Séra Snæbjörn Torfason á Kirkjubóli á Langadalsströnd gefur Staðarjörð til Staðarkirkju 16. ágúst 1602 og var þá Staður kirkjujörð síðan.
Samkvæmt máldaga frá 1286 á kirkjan m.a. hálft heimaland að Stað og viðarreka í Kagravík (Kagadarvijk). Gripir kirkjunnar eru m.a. altarisklæði og klukka.[2]
Mariu kirckia j adalvijk a helmijng j heima landi: nema Bondi vilie helldur greida. x: kugilldi: oc eigi kirkia þa þrid- iung j landi: hun a vidreka j kagadarvijk: allt thil suignar kleifar: klucku eina: tiolld vm kirckiu: alltara klædi j : stola ij: Þar skal vera prestur heimilisfastur oc taka iiij merkur: þang- ad liggia tijundir oc lýsi tollar af xiiij bæum.
Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá 1397 á kirkjan m.a. hálft heimaland, hluta í hval- og viðarreka í Rekavík. Af gripum á kirkjan m.a. tvenn messuklæði, glóðarker, klukkur og bjarnarfeld.[3]
Samkvæmt Gíslamáldaga frá um 1570 á kirkjan m.a. hálft heimaland, hluta í hval- og viðarreka í Rekavík, hluta í hvalreka í Höfn og selver í Miðkjós í Jökulfjörðum. Af gripum á kirkjan m.a. messuklæði, silfurkaleik og klukkur með bjöllum.[4]
Prestar
[breyta | breyta frumkóða]Sturlunga getur Magnúsar sem prests í Aðalvík. Sonur hans, Snorri, gekk í lið Órækju Snorrasonar. Eftir að hafa orðið ósáttur við Órækju sneri Snorri til föður síns. Órækja fylgdi honum eftir, náði honum og drap. Árið 1678 var prestur í Staðarkirkju, Árni Loftsson kærður fyrir galdra en sakir voru felldar niður. Um miðja 18. öld var Snorri Björnsson prestur á Stað í 16 ár. Eftir Snorra var Vigfús Benediktsson prestur á Stað og var hann nefndur Galdra-Fúsi. Síðasti prestur búsettur á Stað var Séra Finnbogi Kristjánsson 1941-1945.
Prestatal
[breyta | breyta frumkóða]Nafn | Fæddur | Fékk kall |
---|---|---|
Þorsteinn Jónsson | 1596 | |
Árni Kláusson | ||
Árni Loftsson | 1653 | |
Þórður Sveinsson | 1623 | 1657 |
Vernharður Erlendsson | 1658 | |
Einar Ólafsson | 1647 | 1677 |
Jón Einarsson | 1685 | 1727 |
Snorri Björnsson | 1710 | 1741 |
Þórður Ólafsson | 1757 | |
Vigfús Benediktsson | 1731 | 1757 |
Helgi Einarsson | 1751 | 1775 |
Guðmundur Sigurðsson | 1748 | 1779 |
Jón Matthíasson | 1786 | 1812 |
Guðlaugur Sveinbjarnason | 1787 | 1817 |
Ari Jónsson Skordal | 1772 | 1826 |
Stefán Hansson | 1793 | 1832 |
Jón Eyjólfsson | 1814 | 1842 |
Einar Vernharðsson* | 1867 | |
Páll Sívertsen | 1847 | 1876 |
Runólfur Magnús Jónsson | 1864 | 1905 |
Jónmundur Halldórsson* | 1938 | |
Finnbogi Kristjánsson | 1908 | 1941 |
Jónmundur Halldórsson* | 1945 |
Séra Einar Vernharðsson og Séra Jónmundur Halldórsson þjónuðu frá Stað í Grunnavík.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Íslenskt fornbréfasafn, 12. bindi: 1200 - Kirknaskrá, bls. 15.
- ↑ Íslenskt fornbréfasafn, 2. bindi: 1286 - MÁLDAGI Maríukirkju á Stað í Aðalvík er Árni biskup Þorláksson setti, bls. 260-261.
- ↑ Íslenskt fornbréfasafn, 4. bindi: Vilkinsmáldagi 1397 - CLX Adalvijk, bls. 137-138.
- ↑ Íslenskt fornbréfasafn, 15. bindi: Gíslamáldagar - Adalvijk, bls. 565-566.
- Staðarkirkja í Aðalvík (1904) Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine
- Minjastofnun: Staðarkirkja í Aðalvík Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine
- Séttuhreppur, fyrrum Aðalvíkursveit, byggð og búendur, bls 307-327.
- Presta tal og prófasta