Nikola Tesla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Nikola Tesla

Nikola Tesla (10. júlí 1856 í Smiljan í Króatíu7. janúar 1943 í Manhattan, New York) var serbnesk-bandarískur uppfinningamaður, eðlisfræðingur, véla- og rafmagnsverkfræðingur. Uppfinningar hans og kennileg verk eru undirstaða riðstraumskerfa. Á meðal uppfinninga hans eru útvarpið, fjölfasaafldreifikerfið og riðstraumsmótorar sem stuðluðu að iðnbyltingunni síðari. SI-mælieining segulstyrks, tesla, er nefnd í höfuðið á honum.

Uppvaxtarár[breyta | breyta frumkóða]

Nikola Tesla fæddist árið 1856 þann 10. júlí. Hann fæddist í þorpinu Smiljan í Króatíu ásamt þremur systrum sínum og bróður. Tesla kom af serbneskum ættum. Faðir hans, séra Milutin Tesla, og móðir hans, Djuka Mandic, voru bæði frá Serbíu.[1]

Eftir grunnnám í Karlovac í Króatíu fór Tesla í háskólanám í Graz í Austurríki árið 1875 að læra það sem hann dáði mest, rafmagnsverkfræði. Tesla var bráðgáfaður nemandi og var þekktur þar fyrir að reita kennarana til reiði með efasemdum sínum um efnið. Tesla var þá helst mótfallinn því að eina leið til að skila raforku væri jafnstraumur. Tesla var þeirrar skoðunar að jafnstraumur væri ekki nógu góð leið til að skila raforku þá aðallega út af stuttu vegalengdina sem raforkan skilaði sér. Tesla var viss um að betri leið væri til. Tesla hugaði því mikið að riðstraumskenningum og var mikill áhugamaður þess fyrirbæris. En riðstraumur var þá draumahugmynd í vísindaheiminum sem margir hverjir höfðu ekki mikla trú á að yrði að veruleika.[2]

Í miðri háskólagöngu sinni í Austurríki veiktist faðir hans og Tesla fór heim. Stuttu síðar lést hann og Tesla fór aldrei aftur til Austurríkis í skólann.[3]

Starfsár[breyta | breyta frumkóða]

Tesla var í fjárhagsvandamálum og fékk sér því vinnu í Búdapest í Ungverjalandi í fyrirtæki sem sérhæfði sig í símskeytum. Tesla örvænti mikið menntunarleysi sitt en hélt þó enn í draum sinn að verða frumkvöðull í rafmagnsverkfræði. En á meðan Tesla var í Búdapest fékk hann hugmyndir um segulsvið sem snerist og byrjaði að þróa spanvél sem seinna myndi gefa tækifæri á nýtingu riðstraums.[4]

Árið 1882 fékk hann starf við að betrumbæta rafmagnstækjabúnað í Parísarborg. Hann skaraði þar fram úr, varð þekktur sem verkfræðingur og smíðaði sína fyrstu spanvél. Sama ár fór Tesla heim frá Frakklandi í flýti til rúmliggjandi móður sinnar. Eftir andlát hennar veiktist Tesla en náði bata þremur vikum seinna.[5]

Árið 1884 hélt hann för sinni til New York eftir að hafa verið boðið vinnu þar frá Thomas Edison. Þar átti Tesla að vinna við að betrumbæta og endurhanna vélar Edisons. Edison bauð Tesla 50.000 dala bónus fyrir að endurbæta jafnstraumsrafal Edisons. Tesla var ekki hrifinn af tækjabúnaði sem studdist við jafnstraum en vann samt sem áður hörðum höndum að öllu sem Edison lagði fyrir hann. Tesla ætlaði að nota peninginn til að opna sitt eigið fyrirtæki þar sem hann gæti einbeitt sér að sínum eigin uppfinningum. Tesla stóð við sinn hluta samningsins en Edison borgaði honum ekki. Tesla sagði upp hjá Edison og stofnaði sitt eigið fyrirtæki. Fyrirtækið sérhæfði sig í ljósum og Tesla fann upp betri ljós en áður voru þekkt og Tesla fékk einkaleyfi á þeim. Ekki leið á löngu þangað til fjárfestar fyrirtækisins létu Tesla fara og hann varð aftur atvinnulaus. Frá 1886 til 1887 vann hann sem verkamaður og hugaði að uppfinningunum í frítíma sínum.[6]

Árið 1887 þegar Tesla var búinn að útfæra sína fyrstu riðstraumsvél og kynna hana kom George Westinghouse, helsti samkeppnisaðili Edisons á þeim tíma, og keypti einkaleyfið af Tesla og fékk hann í vinnu hjá sér. Mikil samkeppni í viðskiptum braust út á milli jafnstraumskerfum Edisons og riðstraumskerfum Tesla og Westinghouse en Tesla og Westinghouse höfðu betur í samkeppninni.[7]

Fljótlega opnaði Tesla sína eigin rannsóknarstofu þar sem hann gat unnið að uppfinningum sínum. Til að stilla ró fólks á riðstraumsnotkun, hélt hann sýningar á rannsóknarstofu sinni þar sem hann kveikti ljós þráðlaust með því að láta rafmagn leika um líkama sinn. Árið 1891 fann hann upp „Tesla coil“ en það hefur mikið verið notað í útvörpum, sjónvörpum og fleira.[8]

Árið 1893 fengust Tesla og Westinghouse til þess að sjá um lýsinguna á stórhátíð í Chicago. Það tókst svo vel hjá þeim að allir urðu sannfærðir um að riðstraumskerfi Tesla væri framtíðin, brátt voru einungis riðstraumskerfi um allt land. Árangurinn varð til þess að þeir fengu samning við að virkja Niagara-fossa en ekki Edison. Virkjunin flutti rafmagn rúma 35 kílómetra til Buffalo. Rafmagn var þá venjulegur hlutur á öllum heimilum þökk sé Tesla.[9]

Colorado og Wardenclyffe[breyta | breyta frumkóða]

Wardenclyffe-turninn.

Árið 1899 fór Tesla til Austur-Colorado og smíðaði þar rannsóknarstofu með stóru járnmastri. Þar byrjaði hann að huga að flutningi rafmagns þráðlaust. Í Colorado var kjörin loftlagsaðstaða fyrir ragmagnstilraunir auk þess sem Tesla fékk þar fría orku. Tesla hafði hugsað sér að nota yfirborð jarðar og lofthjúp hennar sem leiðara og senda orku hvert sem er á jörðinni. Í einni tilraun sinni í Colorado hlóð Tesla tíu milljón voltum í jörðina og straumurinn fluttist í gegnum alla jörðina og til baka í mastrið. Straumurinn braust út úr járnmastri Tesla sem 40 metra löng bogadregin elding. Þessi elding er enn stærsta elding sem gerð hefur verið af manna höndum. Þessi tilraun varð til þess að orkurafallinn sem hann fékk orku frá brann upp og hann fékk ekki lengur fría orku.[10]

Tesla fluttist aftur til New York og valdi samskiptaflutning sem aðalverkefni sitt frekar en raforkuflutning. Westinghouse styrkti ekki Tesla en J. P. Morgan veitti honum heimild til að byggja sér nýtt aðsetur á Long Island en Morgan var auðugasti maður Bandaríkjanna þá. Tesla fór að vinna í byggingu á stærri og vandaðari útgáfu af rannsóknarstofunni í Colorado, nefnt Wardenclyffe. Tesla ætlaði sér að nota Wardenclyffe-turninn sem útvarpssendi en hann vonaðist einnig til þess að nýta hann til orkudreifingar einn daginn. Það var hætt við verkefnið seinna vegna fjárhagsvandamála.[11]

Seinni ár[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrum árum seinna komst Guglielmo Marconi í fjölmiðlana fyrir að finna upp útvarpið. Hugmyndin hans var sú nákvæmlega sama og Tesla hafði kynnt áður þegar ákveðið var að byggja Wardenclyffe. Marconi sagðist ekki hafa kynnst því sem Tesla hafi gefið frá sér og eignaði sér heiðurinn á útvarpinu. Tesla kærði Marconi, vann það mál og er nú þekktur sem uppfinningamaður útvarpsins.[12]

Árið 1917 hlaut hann Edison orðuna en það var hæstvirtasta orða sem æðsta stofnun rafmagnsverkfræðinga í Bandaríkjunum gat veitt.[13]

7. janúar 1943 lést Nikola Tesla úr hjartaáfalli á hótelherbergi í Manhattan í New York. Þrátt fyrir að hafa selt einkaleyfi sitt á riðstraumskerfum sínum, dó hann skuldugur. Í gögnum sem fundust eftir dauða hans var að finna upplýsingar um gereyðingarvopn sem hann hafði unnið að í nokkur ár.[14]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography.
 2. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years; Britannica [án árs].
 3. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
 4. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years; Britannica [án árs].
 5. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography.
 6. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
 7. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
 8. Britannica [án árs]; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 1 – The Early Years.
 9. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
 10. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years; Lifandi vísindi 2007: 37-38.
 11. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
 12. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years; Lifandi vísindi 2007:38.
 13. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.
 14. Corrosion Doctors: Nikola Tesla Biography; Corrosion Doctors: Nikola Tesla Part 2 – The Production Years.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]