Fara í innihald

Max von Laue

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Max von Laue 1929

Max von Laue (9. október 1879 í Koblenz24. apríl 1960 í Berlín) var þýskur eðlisfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Max von Laue fæddist í þýsku borginni Koblenz 1879, en nam eðlisfræði í háskólunum í Strassborg, Göttingen, München og loks Berlín. Í Berlín var lærimeistari hans Max Planck. Strax að námi loknu 1905 gerðist von Laue aðstoðarmaður Plancks. Eitt höfuðverkefna von Laues var afstæðiskenning Einsteins, sem þá var nýkomin út. Með notkun á afstæðiskenningunni tókst von Laue að skýra Fizeau-tilraunina 1907. Árið 1909 starfaði von Laue í háskólanum í München. Þar gaf hann út fleiri rannsóknarniðurstöður en einnig gaf hann út fyrstu kennslubókina um afstæðiskenninguna. 1912 var hann einn þriggja vísindamanna sem uppgötvaði bogadregna röntgengeisla. Einnig uppgötvaði hann teningslaga strúktúr á kristöllum. Fyrir þá vinnu hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1914. 1919 sneri hann aftur til Berlínar, þar sem hann starfaði bæði í háskólanum og við Kaiser Wilhelm stofnunina í eðlisfræði, en á síðarnefnda vettvangnum var hann oftar en ekki staðgengill Alberts Einsteins. Þegar nasistar komust til valda flúði Einstein til Bandaríkjanna, en von Laue varði hann í orði og ritum. Hann tók einnig afstöðu gegn hinni ‚þýsku eðlisfræði‘ sem nasistar voru iðnir við að nota í stríðsrekstri sínum. Max von Laue var einn þeirra þýsku vísindamanna sem Bretar fluttu til Farm Hall í Englandi, ásamt mönnum eins og Otto Hahn og Werner Heisenberg. Eftir stríð varð von Laue heiðursdoktor við háskólann í Göttingen og átti stóran þátt í myndun yfirstofnunar þýskra eðlisfræðifélaga. 1953 var hann einnig gerður að heiðursdoktor við háskólann í Berlín. 1957 var hann einn þeirra vísindamanna sem skrifuðu undir áskorunarskjal þess efnis að Þýskaland ætti að vera kjarnorkuvopnalaust land en nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Max von Laue lést 24. apríl 1960 í bílslysi. Hann hvílir í Göttingen.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Max von Laue“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.