Liam Gallagher

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Liam Gallagher

Liam Gallagher (fullt nafn: William John Paul Gallagher) er söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis. Hann er fæddur þann 21. september 1972 í Manchester. Það má segja að hann sé búinn að vera holdgervingur rokksins í Bretlandi síðan árið 1994 þegar Oasis kom fyrst fram á sjónarsviðið. Hann er frægur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og láta menn fá það óþvegið. Þá hefur hann oft lent í rifrildi við bróðir sinn Noel Gallagher, sem er gítarleikari Oasis, sem hefur endað með því að Noel hefur viljað hætta í hljómsveitinni en þó hefur hann alltaf snúið aftur. Þeir bræður er báðir forfallnir aðdáendur knattspyrnuliðsins Manchester City. Liam hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á John Lennon og hefur sagt að Bítlalagið „Across the universe“ sé helsta ástæðan fyrir því að hann gerðist söngvari.

Fyrst um sinn var Liam eingöngu söngvari sveitarinnar en á seinni árum hefur hann samið nokkur af lögum Oasis. Fyrsta lagið eftir Liam sem komst á plötu sveitarinnar er „Little James“ sem er að finna á Standing on the shoulder of Giants sem kom út árið 2000. Síðustu tvær plötur sveitarinnar innihalda báðar þrjú lög eftir Liam. Á „Heathen Chemistry“, sem kom út árið 2002, eru það lögin „Songbird“, sem er samið til Nicole Appleton unnustu Liam, „Better Man“ og „Born on a different cloud“. Á síðustu plötu, „Don't Believe the truth“, eru það lögin „Love like a bomb“, „Guess god thinks I'm Abel“ og „The meaning of soul“ sem eru samin af Liam.

Árið 1997 giftist Liam bresku leikkonunni Patsy Kensit, líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í Lethal Weapon 2, en þau skildu árið 2000. Með henni á Liam einn son sem heitir Lennon, eftir helsta átrúnaðargoði Liam. Nú um stundir er Liam í sambandi með Nicole Appleton sem er í stúlknasveitinni All Saints. Þau hafa verið saman frá árinu 2000 og eiga saman einn son, Gene.