Liam Gallagher

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Liam Gallagher

Liam Gallagher (fullt nafn: William John Paul Gallagher) er best þekktur sem söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis. Hann er fæddur þann 21. september 1972 í Manchester. Það má segja að hann sé búinn að vera holdgervingur rokksins í Bretlandi síðan árið 1994 þegar Oasis kom fyrst fram á sjónarsviðið. Hann er frægur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og láta menn fá það óþvegið. Þá hefur hann oft lent í rifrildi við bróðir sinn Noel Gallagher, sem var gítarleikari og lagahöfundur Oasis. Bræðurnir eru báðir forfallnir aðdáendur knattspyrnuliðsins Manchester City. Liam hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á John Lennon og hefur sagt að Bítlalagið „Across the universe“ sé helsta ástæðan fyrir því að hann gerðist söngvari.

Fyrst um sinn var Liam eingöngu söngvari sveitarinnar en á seinni árum hefur hann samið nokkur af lögum Oasis. Fyrsta lagið eftir Liam sem komst á plötu sveitarinnar er „Little James“ sem er að finna á Standing on the shoulder of Giants sem kom út árið 2000. Síðustu tvær plötur sveitarinnar innihalda báðar þrjú lög eftir Liam. Á „Heathen Chemistry“, sem kom út árið 2002, eru það lögin „Songbird“, sem er samið til Nicole Appleton unnustu Liam, „Better Man“ og „Born on a different cloud“. Á síðustu plötu, „Don't Believe the truth“, eru það lögin „Love like a bomb“, „Guess god thinks I'm Abel“ og „The meaning of soul“ sem eru samin af Liam.

Árið 1997 giftist Liam bresku leikkonunni Patsy Kensit, líklega þekktust fyrir hlutverk sitt í Lethal Weapon 2, en þau skildu árið 2000. Með henni á Liam einn son sem heitir Lennon, eftir helsta átrúnaðargoði Liam. Þá var hann í sambandi með Nicole Appleton sem er í stúlknasveitinni All Saints. Þau eiga saman einn son, Gene.

Árið 2009 hætti Oasis eftir rifrildi bræðrana og stofnaði Liam hljómsveitina Beady Eye sem samanstóð af meðlimum Oasis án Noels en sveitin gaf út tvær breiðskífur út.