Layne Staley

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Layne Staley (1992)

Layne Thomas Staley (fæddur 22. ágúst árið 1967 – látinn 5. apríl árið 2002) var bandarískur tónlistarmaður og þekktastur sem söngvari grugg-hljómsveitarinnar Alice in Chains.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri ár[breyta | breyta frumkóða]

Staley ólst upp í Kirkland, Washingtonfylki. Hann var 7 ára þegar foreldrar hans skildu og lýsti því yfir seinna að skilnaðurinn hafi haft mikil áhrif á hann og að faðir hans hafi horfið sjónum fjölskyldunnar. Stayle spilaði á trommur 12 ára gamall og sem unglingur stofnaði hann hljómsveitir í glysrokk-stíl.

Árið 1984 stofnaði Staley í hljómsveitina Sleze með skólafélögum. Hljómsveitin breytti nafninu í Alice N' Chains árið 1986 og spilaði aðallega ábreiðulög úr þrassi. Hljómsveitin leystist upp og Staley gekk í funk-hljómsveit. Hann hafði hitt gítarleikarann Jerry Cantrell í æfingahúsnæði og þeir urðu fljótt vinir. Staley bað Cantrell um að ganga í funk-hljómsveitina og féllst hann á það ef Staley gengi í sína eigin nýstofnuðu hljómsveit. Staley leysti funk-hljómsveitina upp og eftir varð ný hljómsveit sem tók upp nafn fyrra bands Staleys með eilítið breyttu sniði; Alice in chains. Þetta var árið 1987.

Seinni ár[breyta | breyta frumkóða]

Alice in chains átti velgengni að fagna með smáskífunni Man in the Box árið 1990 og síðar varð platan Dirt (1992) vinsæl með grugg-bylgjunni sem tröllreið tónlistarheiminum þá.

Staley hvarf úr sviðsljósinu eftir mitt ár 1996 þegar hann hafði meðal annars spilað á Unplugged MTV tónleikum með Alice in Chains. Hann spilaði aldrei aftur á tónleikum. Hann var einnig á seinni tíma tónlistarferils sínum í hliðarhljómsveitunum Mad Season með meðlimum Pearl Jam og Screaming Trees og sveitinni Class of '99 ásamt Tom Morello.

Árið 1998 tók Staley upp tvö ný lög með Alice in Chains í tilefni útgáfu safnskífunnar Music Bank. En þá var orðið ljóst að hann var djúpt sokkinn í vímuefnaneyslu heróíns og krakks og vó hann einungis um 40 kíló. Næstu ár einangraði hann sig að mestu frá fólki og hélt sig í íbúð sinni.

Þann 19. apríl árið 2002, var farið að grennslast fyrir um Staley þar sem hann hafði ekki tekið út pening í tvær vikur. Haft var samband við fyrrum umboðsmann hans Susan Silver (fyrrum eiginkonu Chris Cornell) og hún hafði samband við lögreglu sem fann hann látinn á heimili sínu. Hann hafði tekið of stóran skammt af efnum (speedball) og verið látinn í tvær vikur þegar hann fannst.

Alice in Chains hætti formlega eftir dauða hans en sveitin hafði verið þó verið nær óvirk í um 6 ár fram að því. Árið 2005 ákvað sveitin að koma saman aftur á styrktartónleikum með nýjum söngvara og hefur starfað upp frá því.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Layne Staley“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. jan. 2017.