Greta Thunberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greta Thunberg
Greta Thunberg árið 2022.
Fædd3. janúar 2003 (2003-01-03) (21 árs)
ÞjóðerniSænsk
StörfNemandi, aðgerðasinni
Þekkt fyrirSkólaverkföll gegn loftslagsbreytingum
ForeldrarMalena Ernman & Svante Thunberg
Undirskrift

Greta Tintin Eleonora Ernman Thunberg (f. 3. janúar 2003) er sænskur aðgerðasinni sem hefur verið áberandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hún vakti athygli árið 2018 þegar hún settist fyrir framan ríkisþinghúsið í Stokkhólmi með skilti sem á stóð „Skólaverkfall fyrir loftslagið“. Frumkvæði hennar er fyrirmyndin að sams konar skólaverkföllum í þágu loftslagsaðgerða um allan heim sem fara fram undir nafninu Föstudagar fyrir framtíðina.

Fjölskylda og æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Greta Thunberg gengur í skóla í Bergshamra-hverfinu í Solna á útjaðri Stokkhólmsborgar.[2] Hún er dóttir listamannanna Svante Thunberg og Malenu Ernman[3] og sonardóttir leikaranna Olofs Thunberg og Monu Andersson. Einn forfeðra hennar í föðurætt var Svante Arrhenius, sem reiknaði fyrstur manna út árið 1896 hvernig hækkandi styrkur koltvísýrings í andrúmslofti myndi leiða til hækkandi meðalhitastigs á jörðinni.[1] Greta Thunberg er greind með Aspergerheilkenni.[4]

Aðgerðastefna[breyta | breyta frumkóða]

Þann 20. ágúst árið 2018 fór Thunberg í skólaverkfall, settist fyrir framan ríkisþinghúsið í Stokkhólmi með mótmælaskilti[5] og hélt verkfallinu þar áfram fram að þingkosningunum sem haldnar voru þann 9. september.[6] Eftir kosningarnar hefur hún aftur farið í skólaverkfall á hverjum föstudegi til þess að knýja sænsk stjórnvöld til þess að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda.[5][7] Thunberg hefur tekið þátt í mótmælaaðgerðum í þágu loftslagsaðgerða víðs vegar um heiminn, meðal annars í mótmælasamkomunni Rise for Climat fyrir utan Evrópuþingið í Brussel, í mótmælagöngu í Helsinki[8] og í London.[9]

Greta Thunberg átti frumkvæði að samfélagsmiðlaherferðinni #jagstannarpåmarken (íslenska: „Ég stend á jörðinni“) sem berst fyrir niðurskurði í flugferðum og tilheyrandi loftmengun.[10] Þremur dögum eftir verkfall Thunbergs gaf hún út bókina Scener ur hjärtat ásamt foreldrum sínum. Í bókinni er meðal annars fjallað um greiningu Gretu Thunberg með Aspergerheilkenni og um aðgerðastefnu hennar í þágu náttúruverndar. Eftir útgáfu bókarinnar sögðust foreldrar hennar skilja ákvörðun hennar um skólaverkfallið og að þeim fyndist þau ekki geta neytt hana til að mæta í skóla út af málinu.[11]

Greta Thunberg með mótmælaskilti fyrir framan þinghúsið í Stokkhólmi.

Áframhaldandi loftslagsverkföll Thunbergs á föstudögum hafa verið boðuð á samfélagsmiðlum með myllumerkjunum #FridaysforFuture,[12] #Klimatstrejka, #ClimateStrike, eða Föstudagar fyrir framtíðina á íslensku. Í lok september höfðu aðgerðir Thunbergs vakið athygli bæði fjölmiðla í ýmsum löndum og áhrifamanna á borð við António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og bandaríska stjórnmálamannsins og leikarans Arnolds Schwarzenegger.[13]

Thunberg ferðaðist með lest til Katowice í Póllandi í desember 2018 til að ávarpa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Í janúar 2019 fór hún til Davos til þess að ávarpa Heimsviðskiptaráðstefnuna um loftslagsmál.[1] Í stað þess að fljúga þangað líkt og flestir aðrir ráðstefnugestir lagði hún á sig 32 klukkustunda lestarferð.[14]

Árið 2019 sigldi Thunberg á umhverfisvænni keppnisskútu yfir Atlantshafið frá Bretlandi til New York til að sækja tvær loftslagsráðstefnur í Bandaríkjunum og í Síle.[15] Í New York leiddi hún mótmælafund gegn aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna þann 31. ágúst.[16] Thunberg var gestur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í borginni þann 23. september og ávítaði þar þjóðarleiðtoga heimsins fyrir að bregðast kynslóð hennar með aðgerðaleysi sínu.[17]

Greta Thunberg sneri aftur til náms í Svíþjóð þann 25. ágúst 2020.[18]

Thunberg var handtekin af þýskri lögreglu þann 17. janúar 2023 við þorpið Lützerath í Rínarlandi-Pfalz. Hún var þar stödd ásamt þúsundum mótmælenda sem höfðu komið sér fyrir í byggingum sem átti að rífa til þess að láta stækka brúnkolanámu þar í grenndinni.[19]

Viðurkenningar og tilnefningar[breyta | breyta frumkóða]

Thunberg var einn af þremur sigurvegurum í greinakeppni ungmenna um loftslagsmál í Sænska dagblaðinu í maí árið 2018.[20]

Í nóvember árið 2018 hlaut Thunberg styrk frá félagsmiðstöðinni Fryshuset í Stokkhólmi sem „besta unga fyrirmyndin“.[21] Í desember árið 2018 taldi bandaríska tímaritið Time Thunberg meðal 25 áhrifamestu táninga í heimi.[22]

Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn útnefndi Thunberg ásamt tveimur öðrum til verðlaunanna „náttúruverndarhetja ársins“ í flokki ungmenna árið 2018.[23] Thunberg var einnig útnefnd til verðlauna orkufyrirtækisins Telge Energi fyrir börn og ungmenni sem berjast fyrir sjálfbærri þróun, en hún afþakkaði tilnefninguna þar sem verðlaunahafarnir áttu að fljúga á flugvélum til Stokkhólms.[24]

Þann 16. september sæmdu samtökin Amnesty International Gretu Thunberg (ásamt skólasamtökunum Fridays for Future) titlinum Samviskusendiherra samtakanna, sem er æðsta viðurkenning þeirra.[25]

Þann 29. október 2019 hlaut Thunberg umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en hún ákvað að neita þeim viðtöku og afþakka um 6,4 milljóna króna verðlaunafé sem þeim fylgdi.[26] Hún sagði loftslagshreyfinguna ekki þurfa á verðlaunum að halda og hvatti Norðurlönd til að virkja fremur almenning og hvatti stjórnmálamenn til að „taka mark á fyrirliggjandi staðreyndum“ í umhverfisbaráttunni.[27]

Bandaríska tímaritið Time valdi Thunberg sem manneskju ársins fyrir árið 2019.[28]

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

  • Malena Ernman; Beata Ernman; Greta Thunberg; Svante Thunberg (2021) [2018]. Scener ur hjärtat [Húsið okkar brennur : baráttusaga Gretu og fjölskyldunnar]. Þýðing eftir Eyrúnu Eddu Hjörleifsdóttur. Mál og menning. ISBN 9789935292537.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Hver er Greta Thunberg?“. RÚV. 7. febrúar 2019. Sótt 21. febrúar 2019.
  2. Lenita Jällhage (22. september 2018). "Jag tror jag lär mig mer här än i skolan" (sænska). lararnastidning.se. Sótt 19. febrúar 2019.
  3. Masha Gessen (2. október 2018). „The Fifteen-Year-Old Climate Activist Who Is Demanding a New Kind of Politics“ (enska). The New Yorker. Sótt 4. nóvember 2019.
  4. Christner Olsson (20. maí 2015). "Det har varit ett helvetiskt år" (sænska). Expressen. Sótt 19. febrúar 2019.
  5. 5,0 5,1 Andreas Granath (4. nóvember 2018). „Gretas klimatprotest ger eko över världen“ (sænska). Göteborgs-Posten. Sótt 19. febrúar 2019.
  6. David Crouch (1. september 2018). „The Swedish 15-year-old who's cutting class to fight the climate crisis“ (enska). The Guardian. Sótt 19. febrúar 2019.
  7. „Greta Thunberg: "Vi kommer att fortsätta med skolstrejken". SVT Nyheter. 2018.
  8. David Wallace-Wells (24. október 2018). „Can a Carbon Tax Solve Climate Change? Well, No“ (enska). New York Media. Sótt 19. febrúar 2019.
  9. „Gretas brandtal i London: "Det är dags att göra uppror". 31. október 2018. Sótt 19. febrúar 2019.
  10. Beatrice Rindevall (7. mars 2018). „Att säga att vi befinner oss i en kris och samtidigt fortsätta flyga är inte trovärdigt“. effektmagasin.se. Sótt 19. febrúar 2019.
  11. „En familj och planet i kris“ (sænska). Svenska Dagbladet. 28. ágúst 2018. Sótt 19. febrúar 2019.
  12. Lina Rosengren (2. nóvember 2018). „Manifestationer runt om i världen till stöd för Greta Thunberg och klimatet - Aktuell Hållbarhet“. Aktuell Hållbarhet. Sótt 19. febrúar 2019.
  13. Malin Roos (19. september 2018). „Så blev Greta, 15, flickan som hela världen pratar om: Ingen annan gör något“ (sænska). Expressen. Sótt 19. febrúar 2019.
  14. Nina Larson (24. janúar 2019). „Time to 'get angry', teen climate activist says in Davos“ (enska). AFP. Sótt 21. febrúar 2019.
  15. Kolbeinn Tumi Daðason (28. ágúst 2019). „Greta Thunberg mætt til New York eftir tveggja vikna siglingu“. Vísir. Sótt 23. september 2019.
  16. Róbert Jóhannesson (31. ágúst 2019). „Thunberg mótmælti við höfuðstöðvar SÞ“. RÚV. Sótt 23. september 2019.
  17. Birgir Þór Harðarson (23. september 2019). „„Hvernig dirfist þið?". RÚV. Sótt 23. september 2019.
  18. „Greta Thunberg farin aftur í skólann“. mbl.is. 25. ágúst 2020. Sótt 13. september 2020.
  19. Oddur Þórðarson (17. janúar 2023). „Greta Thunberg handtekin í Þýskalandi“. RÚV. Sótt 23. janúar 2023.
  20. Greta Thunberg (30. maí 2018). „Vi vet – och vi kan göra något nu“ (sænska). SvD.se. Sótt 19. febrúar 2019.
  21. Lina Rosengren (22. nóvember 2018). „Greta Thunberg blir Årets unga förebild“ (sænska). Aktuell Hållbarhet. Sótt 19. febrúar 2019.
  22. „TIME's 25 Most Influential Teens of 2018“ (enska). Time. Sótt 19. febrúar 2019.
  23. Erik Hansson (17. september 2018). „Här är de nominerade till Årets miljöhjälte 2018“ (sænska). Natursidan. Sótt 19. febrúar 2019.
  24. Gustav Gelin (1. nóvember 2018). „Därför nobbar Greta Thunberg klimatpriset“ (sænska). ETC. Sótt 19. febrúar 2019.
  25. Jafet Máni Magnúsarson (16. september 2019). „„Jörðin þarfnast ekki björgunar". RÚV. Sótt 23. september 2019.
  26. „Greta Thunberg afþakkar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs“. Kjarninn. 29. október 2019. Sótt 29. október 2019.
  27. Magnús Geir Eyjólfsson (29. október 2019). „Norðurlöndin hætti að gorta“. RÚV. Sótt 29. október 2019.
  28. Atli Ísleifsson (11. desember 2019). „Greta Thunberg er manneskja ársins“. Vísir. Sótt 12. desember 2019.