António Guterres

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
António Guterres
Guterres árið 2023.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna
Núverandi
Tók við embætti
1. janúar 2017
ForveriBan Ki-moon
Forsætisráðherra Portúgals
Í embætti
28. október 1995 – 6. apríl 2002
ForsetiMário Soares
Jorge Sampaio
ForveriAníbal Cavaco Silva
EftirmaðurJosé Manuel Barroso
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. apríl 1949 (1949-04-30) (74 ára)
Lissabon, Portúgal
ÞjóðerniPortúgalskur
StjórnmálaflokkurSósíalistaflokkurinn
MakiLuísa Guimarães e Melo (g. 1972; d. 1998)
Catarina Vaz Pinto (g. 2001)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn2
HáskóliInstituto Superior Técnico
StarfStjórnmálamaður, ríkiserindreki
Undirskrift

António Manuel de Oliveira Guterres (f. 30. apríl 1949) er portúgalskur stjórnmálamaður og erindreki sem er níundi og núverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Áður var hann forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá júní 2005 til desember 2015.[1]

Guterres var forsætisráðherra Portúgals frá 1995 til 2002 og formaður portúgalska sósíalistaflokksins frá 1992 til 2002. Hann var einnig forseti Alþjóðasambands jafnaðarmanna frá 1995 til 2005.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Guterres nam verkfræði við Tækniháskólann í Lissabon og fékk árið 1971 stöðu sem lektor í rafmagnsverkfræði við háskólann. Þann 25. apríl 1974 gekk Guterres í portúgalska Sósíalistaflokkinn og tók þátt í nellikubyltingunni gegn einræðisstjórn Portúgals. Í upphafi vantreystu sósíalistar Guterres vegna kaþólskrar trúrækni hans en hann ávann sér smám saman traust flokksins og hlaut ýmsar ábyrgðarstöður innan hans.[2][3][4] Árið 1976 var Guterres kjörinn á portúgalska þingið og frá 1979 til 1995 var hann formaður sveitastjórnarinnar í Fundão. Árið 1992 varð hann formaður Sósíalistaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn stjórn Aníbal Cavaco Silva.

Eftir þingkosningar árið 1995 varð Guterres forsætisráðherra Portúgals og náði nokkrum vinsældum með alþýðlegri og málefnalegri framkomu sinni. Guterres stýrði störfum Evrópska ráðsins á fyrri helmingi ársins 2000 þar sem Portúgal fór með forsæti Ráðs Evrópusambandsins. Eftir kosningaósigur árið 2002 sagði Guterres af sér sem leiðtogi Sósíalistaflokksins og Eduardo Ferro Rodrigues tók við af honum. Hinn miðhægrisinnaði Jafnaðarmannaflokkur vann kosningarnar og José Manuel Durão Barroso tók við af Guterres sem forsætisráðherra.

Árið 1999 tók Guterres við af Pierre Mauroy sem forseti Alþjóðasambands jafnaðarmanna og gegndi því embætti þar til Georgíos Andreas Papandreú tók við árið 2005. Í maí 2005 varð Guterres framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Í október árið 2016 tilkynnti Guterres Öryggisráðinu að hann hygðist gefa kost á sér til að taka við af Ban Ki-moon sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Þann 13. október 2016 var Guterres kjörinn í embættið og tók við því þann 1. janúar 2017.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „ANTÓNIO GUTERRES, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. Sameinuðu þjóðirnar. Sótt 15. október 2017.
  2. „António Guterres“ (portúgalska). Infopédia- Dicionários Porto Editora. Sótt 24. mars 2021.
  3. „António Guterres: católico, socialista e político por acréscimo“ (portúgalska). Sapo 24. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. október 2016. Sótt 24. mars 2021.
  4. „António Guterres, do Fundão para a ONU para fazer o que puder pela humanidade“ (portúgalska). Jornal de Negócios. Sótt 24. mars 2021.
  5. „Guter­res seg­ir SÞ þurfa að breyt­ast“. mbl.is. 12. desember 2016. Sótt 24. mars 2021.


Fyrirrennari:
Aníbal Cavaco Silva
Forsætisráðherra Portúgals
(28. október 19956. apríl 2002)
Eftirmaður:
José Manuel Barroso
Fyrirrennari:
Ban Ki-moon
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna
(1. janúar 2017 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.