Fara í innihald

Kampselur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Granselur)
kampselur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Undirættbálkur: Hreifadýr (Pinnipedia)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Erignathus
Gill, 1866
Tegund:
E. barbatus

Tvínefni
Erignathus barbatus
Erxleben, 1777

Kampselur (fræðiheiti: Erignathus barbatus) sem einnig hefur verið nefndur nefndur granselur og kampur er að finna í höfunum um allt norðurhvel, allt norður að 80°N. Sjaldgæfur flækingur við Ísland.

Kampselur á sundi

Kampselurinn er 2 til 2,5 m á lengd og 200 og allt að 360 kg á þyngd og er þar með stærri en landselur en minni en fullvaxin útselur. Urturnar eru víða stærri en brimlarnir.

Kampselurinn hefur hlutfallslega lítið höfuð miðað við skrokkinn og er það einkum áberandi á haustin og fyrri hluta vetrar en þá eru þeir að safna á sig miklu spiki sem vetrarforða. Höfuðið er hnöttótt eins og á landsel, augun fremur lítil og sitja nokkuð þétt og snúa fram. Breitt trýni og mjög aðskildar nasir. Aðaleinkennið og það sem hefur gefið selnum nafn eru þó veiðihárin sem eru áberandi ljós og löng. Framhreifar eru stuttir en breiðir ólíkt öðrum selum eru klærnar allar svipaðar að stærð en miðklóin þó einna stærst.

Ólíkt öðrum selum hafa kampselsurturnar fjóra spena en ekki tvo.

Fullorðnir selir eru heldur dekkri á baki en kviði en litarfarið er margbreytilegt. Kampselir hafa mörg litarafbrigði, grá, brún og gulbrún, ljósu og dökk. Þeir hafa yfirleitt dökka rák frá hvirfli, milli augna og fram á snjáldur.

Eitt sérkenni kampsela er að brimlarnir „syngja“, ekki ósvipað hvölum og gera það ekki aðrir selir. Söngurinn eru flóknar hljóðsyrpur á bilinu 0,02 til 11 kHz. Söngtíminn er á fengitíma og þar um kring um 90 daga tímabil frá seinni hluta mars fram að miðjum júlí [1].

Útbreiðsla og undirtegundir

[breyta | breyta frumkóða]
Útbreiðsla kampsels

Kampsel má finna á Norður-Íshafi, allt norður að 80-85°N, og á hafsvæðum þar suður af. Dýrafræðingar hafa greint tvær undirtegundir af kampsel:

Engar áreiðanlegar tölur eru um stofnstærð kampsels. Ágiskanir á 8. áratug síðustu aldar voru 300,000 í E. barbatus barbatus stofninum, og á 9. áratugnum 250,000-300,000 í E. barbatus nauticus stofninum [2].

Æti og lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]
Kampselur á ísjaka

Kampselir eru einrænir og halda sig aðallega í gisnum ís eða rekís en þá má einnig finna við borgarísjaka og þéttari ís en þeir viðhelda ekki öndunaropi í gegnum lagnaðarís eins og hringanórinn. Kampselir fylgja hafísjaðrinum norður á bóginn á vorin og suður á haustin.

Kampselurinn heldur sig oftast á svæðum sem eru grynnri en 160 metra dýpi. Fæða hans eru aðallega krabbadýr, rækjur og krabbar, skeljar og aðrir botnhryggleysingja og einnig botnfiskar.

Kæping á sér stað frá miðjum mars fram í maí byrjun. Kóparnir fæðast með grábrúnan pels með ljósari flekkjum á höfði og baki. Fæðingarhárið er fallið af áður en þeir fæðast. Þeir eru um 1,3 metra langir við fæðingu og um 34 kg á þyngd. Þeir eru syntir nánast frá fæðingu og fræðimenn hafa séð þá kafa í 5 mínútur niður á 75 metra dýpi einungis viku gamla. Kóparnir eru á spena í 18-24 daga og þyngjast ört á þeim tíma. Þeir fara úr hárum og fá fullorðinsfeld þegar þeir hætta á spena.

Urturnar verða kynþroska 3 til 8 ára og brimlarnir 6 til 7.

Ísbirnir, og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en dæmi er um að rostungar hafi drepið kampselskópa.

Veiði og nyt

[breyta | breyta frumkóða]

Kampselur hefur um aldaraðir verið mikilvægur þáttur í lífsviðurværi frumbyggja við strendur Norðurslóða, skinn í föt og tjöld, kjöt til matar og spikið til brennslu.

Vöðuselur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Kampselur er sjaldgæfur flækingur við strendur Íslands og er oftast einn á ferð. Yfirleitt eru það ung og ókynþroska dýr sem hingað koma. Kampselur er algengastur fyrir norðan og austan land að vetrarlagi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Cleator, H.J., Stirling, I. and Smith, T.G. 1989. Underwater vocalisations of the bearded seal (Erignathus barbatus). Canadian Journal of Zoology 67: 1900-1910.
  2. Burns, J. J. 1981. Bearded seal-Erignathus barbatus Erxleben, 1777. Pp. 145-170, In S. H. Ridgway and R. J. Harrison (eds.), Handbook of Marine Mammals. vol. 2. Seals. Academic Press, New York.
  • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur: Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2004). ISBN 9979-2-1721-9
  • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1999). ISBN 0-8018-5789-9
  • Discovery of sound in the sea - hér má m.a. hlusta á kampselssöng Geymt 5 apríl 2007 í Wayback Machine
  • Selasetur Íslands
  • Red List: Erignathus barbatus Geymt 10 desember 2007 í Wayback Machine
  • Marinbio.org
  • Pinnpeds Geymt 10 mars 2010 í Wayback Machine
  • Norsk Polarinstitutt Geymt 23 ágúst 2007 í Wayback Machine
  • „Hvað geta selir verið lengi í kafi í einu?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað eru margir selir við Ísland?“. Vísindavefurinn.
  • „Er það satt að ísbirnir éti stundum dýr sem eru þrisvar sinnum stærri en þeir sjálfir?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvar á landinu er mest veitt af tófum, minkum og selum?“. Vísindavefurinn.