Fara í innihald

Grímur Jónsson Thorkelín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Grímur Jónsson Thorkelín (8. október 17524. mars 1829) var íslenskur sagnfræðingur og embættismaður, sem starfaði lengst af í Danmörku. Hann var prófessor að nafnbót við Háskólann í Kaupmannahöfn, og leyndarskjalavörður í 38 ár.

Uppvöxtur og fyrstu starfsár

[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Gríms Thorkelíns var Jón Teitsson (1728-1758) fálkafangari og hermaður í lífverði Danakonungs, sonur Teits Arasonar sýslumanns á Reykhólum. Móðir Gríms var Elín Einarsdóttir (um 1725-1779), dóttir Einars Magnússonar sýslumanns á í Hrútafirði og Broddanesi. Grímur var laungetinn. Hann kenndi sig síðar við Ara Þorkelsson, langafa sinn í föðurætt (þ.e. Thorkelín).

Grímur fæddist á Bæ og ólst að hluta upp hjá móðurfólki sínu á Sveinsstöðum utan Ennis á Snæfellsnesi og í Ljárskógum í Dölum. Hóf nám í Skálholtsskóla 1765, fór utan 1770, var tekinn í Frúarskóla í Kaupmannahöfn og varð stúdent þaðan 1773. Fór þá í háskólann og lauk prófi í lögfræði 1776. Hann lagði stund á norræna fornfræði og varð aðstoðarmaður í Leyndarskjalasafni konungs 1780. Varð prófessor að nafnbót 1784.

Englandsförin 1786–1791

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1786 hlaut Grímur styrk til að ferðast til Englands, Írlands og Skotlands, til þess m.a. að leita heimilda um samskipti Dana og Englendinga á fyrri öldum. Meðal þess sem hann rannsakaði þar var hið fornenska handrit Bjólfskviðu, sem varðveitt er í British Library, áður British Museum. Hann skrifaði handritið upp og réði mann til að gera aðra uppskrift. Hann hafði uppskriftirnar með sér til Danmerkur og eru þær nú í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (NKS 512 og 513 4to).

Handrit Bjólfskviðu hafði lent í eldsvoða 1731, og sviðnuðu þá spássíurnar og skemmdust. Jaðrar blaðanna molnuðu síðan af á 19. og 20. öld, alveg inn í texta. Uppskriftir Gríms Thorkelíns eru mikilvæg heimild um texta kviðunnar, því að með þeim má fylla í flestar eyður í handritinu, bæði stafi og orð, sem væru glötuð ef uppskriftanna nyti ekki við. Uppskriftir Thorkelíns hafa verið gefnar út ljósprentaðar (Kemp Malone (útg.): The Thorkelin Transcripts of Beowulf, Copenhagen 1951. Early English Manuscripts in Facsimile, I).

Grímur dvaldist á Englandi, Skotlandi og Írlandi frá 1786 til 1791, nýtti þar tímann vel og kynntist fjölda áhrifamanna. Varð hann mikils metinn og var boðið að verða einn af forstöðumönnum Britsh Museum, en hann hafnaði því. Hann varð doktor í lögfræði við háskólann í St. Andrews í Skotlandi 1788.

Útgáfa Bjólfskviðu, trúnaðarstörf o.fl.

[breyta | breyta frumkóða]

Grímur Thorkelín fór til Danmerkur vorið 1791. Hann hafði verið skipaður leyndarskjalavörður, þ.e. yfirmaður Leyndarskjalasafnsins 11. janúar 1791, og gegndi því embætti til æviloka, 1829. Hann er kunnastur fyrir sagnfræðirannsóknir og útgáfu heimilda, en samdi ekki mörg verk sjálfur, nema inngangsritgerðir að útgáfum sínum.

Grímur vann lengi að því að undirbúa útgáfu Bjólfskviðu, en verkið var ekki auðvelt því að flest hjálpargögn vantaði til að lesa fornensku. Það var ekki fyrr en árið 1815 að bókin kom út, með fjárhagslegum stuðningi vinar Gríms, Johans Bülows aðalsmanns. Þetta var fyrsta útgáfa kviðunnar, og var frumtextinn birtur á fornensku, ásamt þýðingu á latínu. Grími var ljóst að ýmsar misfellur voru á útgáfunni, en vonaðist samt til að hún yrði honum vegsauki.

Skömmu eftir að bókin kom út birti danska skáldið N. F. S. Grundtvig harðskeytta gagnrýni á útgáfuna, og spannst af því hörð ritdeila með þeim Grími, sem þó endaði skaplega, þegar Grundtvig viðurkenndi að hann hefði gengið of langt. Grundtvig hóf að undirbúa danska þýðingu Bjólfskviðu, en gerði sér brátt ljóst að auðveldara var að gagnrýna einstök atriði, heldur en að leysa verkefnið í heild. Það varð honum til happs að árið 1815 kom Rasmus Kristján Rask frá Íslandi. Fékk Grundtvig hann til að fara með sér yfir meginhluta kviðunnar, og í framhaldinu samdi Rask og gaf út Angelsaksisk sproglære, 1817. Aðstoð Rasks og fornenska málfræðin auðvelduðu Grundtvig að leysa verkefnið, og kom danska þýðingin út 1820, með stuðningi Bülows: Bjowufs Drape. Segja má að þessar tvær bækur, frumútgáfa Gríms Thorkelíns 1815, og þýðing Grundtvigs 1820, hafi lagt grunninn að síðari rannsóknum á Bjólfskviðu, og eru útgáfur, þýðingar og ritsmíðar um kviðuna nú orðnar nær óteljandi.

Grími voru falin margvísleg trúnaðarstörf og honum hlotnuðust ýmsar nafnbætur. Hann var ritari Árnanefndar frá 1777 til æviloka, og var skipaður 1799 í skóla- og dómsmálanefnd, sem vann m.a. tillögur um að flytja biskupsstóla og skóla til Reykjavíkur. Hann var meðal stofnenda Lærdómslistafélagsins 1779. Hann varð jústitsráð 1794, etatsráð 1810, riddari af Dannebrog 1811 og konferensráð 1828. Hann varð meðlimur Vísindafélagsins danska 1791.

Grímur var trygglyndur maður og vinfastur og studdi landa sína í Kaupmannahöfn. Hann var höfðingjadjarfur og hafði einstakt lag á að vingast við menn á æðstu stöðum; virðist hafa hrifið menn með gáfum, víðtækri þekkingu og persónutöfrum.

Grímur Thorkelín er almennt talinn meðal helstu brautryðjenda í norrænum og germönskum fræðum. Ferð hans til Englands 1786-1791 átti mikinn þátt í að endurvekja áhuga á fornenskri sögu og bókmenntum, bæði af hálfu sagnfræðinga og frumkvöðla rómantísku stefnunnar.

Grímur kvæntist 1792, Gunhild Cecilie Hvidsteen (d. 1824), bruggaraekkju, fædd Dybe. Þau eignuðust 6 börn sem öll ílentust í Danmörku.

Útgáfur (úrval)

[breyta | breyta frumkóða]
  • Jus ecclesiasticum vetus, Hafniae 1776. (Kristinréttur hinn forni, með latneskri þýðingu)
  • Jus ecclesiasticum novum, Hafniae 1777. (Kristinréttur hinn nýi, með latneskri þýðingu)
  • Samling af danske kirke-love, Kiöbenhavn 1781.
  • Diplomatarium Arnamagnæanum 1-2, 1786. (Fornbréf úr safni Árna Magnússonar)
  • Eyrbyggja saga, sive Eyranorum historia, Havniæ 1787. (Með latneskri þýðingu). Jón Ólafsson Svefneyingur vann einnig að útgáfunni.
  • Fragments of English and Irish history in the ninth and tenth century: in two parts. Translated from the original Icelandic and illustrated with some notes, London 1788.
  • De Danorum rebus gestis secul. III & IV : Poëma Danicum dialecto Anglosaxonica : ex Bibliotheca Cottoniana Musaei Britannici, Havniæ 1815. (Bjólfskviða, með latneskri þýðingu)
  • Magnúss konongs lagabæters Gulathings laug, Hafniæ 1817. (Gulaþingslög, með latneskri þýðingu)
  • Vefsíða Þjóðskjalasafns Íslands
  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár II.
  • Jón Helgason biskup: Íslendingar í Danmörku fyr og síðar, Rvík 1931.
  • Aðalgeir Kristjánsson: Nú heilsar þér á Hafnarslóð, Rvík 1999.
  • Jens Chrisoffersen: „Hvorledes Beowulf kom til Danmark: G.J. Thorkelin, Johan Bülow og N.F.S. Grundtvig“. Bogvennen, ny række, 2. bind, bls. 19-33, Kbh. 1947.