Fara í innihald

Benedikt 15.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Giacomo Della Chiesa)
Benedikt 15.
Benedikt 15. árið 1915.
Skjaldarmerki Benedikts 15.
Páfi
Í embætti
3. september 1914 – 22. janúar 1922
ForveriPíus 10.
EftirmaðurPíus 11.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. nóvember 1854
Genúa, Pegli, Konungsríkinu Piedmont-Sardiníu
Látinn22. janúar 1922 (67 ára) Páfahöllinni, Róm, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Benedikt 15. (21. nóvember 1854 – 22. janúar 1922), fæddur undir nafninu Giacomo Paolo Giovanni Battista della Chiesa, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1914 til 1922. Páfatíð hans markaðist af fyrri heimsstyrjöldinni og af pólitískum og samfélagslegum afleiðingum hennar í Evrópu.

Giacomo Paolo Giovanni Battista della Chiesa fæddist til ítalskrar aðalsfjölskyldu í Konungsríkinu Piedmont-Sardiníu árið 1854. Foreldrar hans voru markgreifahjónin Giuseppe della Chiesa og Giovanna Migliorati. Della Chiesa tók doktorspróf í lögfræði árið 1875. Eftir laganámið bað hann föður sinn um leyfi til að nema guðfræði og gerast prestur og fékk leyfi fyrir því með því skilyrði að hann næmi guðfræðina í Róm svo hann yrði ekki prestur úti á landsbyggðinni.[1] Í Róm skráði della Chiesa sig í prestaskólann Almo Collegio Capranica og nam þar guðfræði og kirkjurétt.

Prestur, erkibiskup og kardínáli

[breyta | breyta frumkóða]

Della Chiesa var vígður til prests þann 21. desember árið 1878 af kardínálanum Raffaele Monaco La Valletta, fáeinum dögum eftir að kardínálaráðið hafði kjörið Leó 13. sem nýjan páfa. Í kjölfarið nam della Chiesa við páfalega erindrekaskólann Pontificia Accademia dei Nobili Ecclesiastici til þess að geta unnið sem utanríkiserindreki á vegum páfans. Frá 1883 til 1887 var hann staðsettur í Madríd sem ritari páfasendiherrans Mariano Rampolla.[2] Þegar Rampolla varð kardínálaritari í Róm fylgdi della Chiesa honum sem skrifstofustjóri hans.[3]

Árið 1907 lauk þjónustu della Chiesa í utanríkismálum þegar páfinn Píus 10. útnefndi hann erkibiskup af Bologna. Þann 13. desember árið 1913 lést Rampolla kardínáli og þann 25. maí árið 1914 var della Chiesa útnefndur kardínáli í hans stað.

Á þessum tíma voru ófriðarblikur á lofti í Evrópu og sú spurning brann á allra vörum með hverjum Ítalía ætti eftir að berjast ef til styrjaldar kæmi og hvaða áhrif afstaða ríkisins myndi hafa á Páfagarð. Píus 10. páfi lést þann 20. ágúst árið 1914, aðeins fáeinum vikum eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út.

Krýning Benedikts 15. páfa árið 1914.

Páfakjörið hófst í lok ágúst árið 1914. Giacomo della Chiesa var kjörinn páfi þann 3. september og tók sér í kjölfarið páfanafnið Benedikt 15. til að heiðra páfann Benedikt 14., sem hafði einnig verið erkibiskup af Bologna.

Á þessum tíma hafði lagaleg staða Vatíkansins sem sjálfstæðs ríkis enn ekki verið útkljáð og Benedikt fylgdi því fordæmi tveggja forvera sinna með því að stíga aldrei fæti út á svalir Péturskirkjunnar þegar hann veitti páfablessanir sínar á páskum og jólum. Með þessu forðaðist páfinn að vera talinn þegn konungs Ítalíu.

Benedikt 15. kallaði styrjöldina „sjálfsmorð hinnar siðmenntuðu Evrópu“.[4] Í fyrsta páfabréfi sínu kallaði Benedikt eftir vopnahléi og friði. Friðarákalli páfans var fylgt um jólin 1914 en stríðsaðilar hunsuðu annars tillögur páfans. Páfinn mótmælti ómannúðlegum stríðsrekstri Evrópuveldanna en lýsti þó yfir almennu hlutleysi Páfastólsins í styrjöldinni.

Þann 1. ágúst árið 1917 gaf Benedikt út friðaráætlun með eftirfarandi ákvæðum:

(1) Að „siðferðisvald hins rétta“ yrði að koma í stað efnislegs valds vopna,
(2) að „sameiginleg og gagnkvæm afvopnun“ stríðandi ríkja yrði að fara fram,
(3) að stofna yrði alþjóðadómstól til að leysa úr milliríkjadeilum,
(4) að frelsi og jafnrétti yrði að ríkja yfir hafinu,
(5) að stríðsaðilar yrðu að afsala sér kröfum til stríðsskaðabóta,
(6) að öllum hernumdum landssvæðum yrði skilað og snúið skyldi aftur til óbreyttra landamæra frá því fyrir stríðið,
(7) að taka skyldi til athugunar tilköll til umdeildra landsvæða.

Ríkisstjórn Bretlands brást vel við tillögum páfans en almenningsálit þar í landi var blendnara.[5] Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti hafnaði tillögum páfans hins vegar afdráttarlaust og haft er eftir honum um friðarumleitanir hans: „Hvað er hann að skipta sér af þessu?“.[6] Stjórnir Búlgaríu og Austurríki-Ungverjalands tóku einnig vel í sáttatillögur páfans en stjórn Þýskalands var tvíræð í afstöðu sinni til þeirra.[7][8] Georges Clemenceau, forsætisráðherra Frakklands, var mjög andsnúinn kaþólsku kirkjunni og taldi friðaráætlun páfans ekki samræmast frönskum hagsmunum. Benedikt hafði þó áður reynt að bæta samskipti Páfagarðs við Frakkland með því að taka frönsku þjóðhetjuna Jóhönnu af Örk í dýrlingatölu. Benedikt kallaði einnig eftir því að herkvaðning yrði bönnuð[9] og endurtók þá kröfu árið 1921.[10]

Páfinn fékk ekki að taka þátt í friðarviðræðunum eftir að stríðinu lauk, en eftir stríðslok gaf hann út páfabréf með titlinum Pacem Dei Munus þar sem hann hvatti þjóðir heimsins til að sættast og fyrirgefa hver annarri fyrir átökin.[11]

Árið 1917 lét Benedikt gefa út fyrstu samsettu kirkjulagabókina fyrir kaþólsku kirkjuna; áður hafði kirkjulögum verið safnað saman í safnbókum af tilskipunum og öðrum páfadómum. Vinnan að kirkjulagabókinni hafði staðið yfir í langan tíma og höfðu þeir Pietro Gasparri og Eugenio Pacelli (sem síðar varð Píus 12. páfi) staðið að henni frá því á páfatíð Píusar 10.

Benedikt sýktist af inflúensu sem ágerðist brátt og varð að alvarlegri lungnabólgu. Hann lést í janúar árið 1922. Grafarlíkneski hans er í annarri kapellu á vinstri hlið Péturskirkjunnar. Jarðneskar leifar hans eru geymdar í grafarhvelfingunum undir kirkjunni. Næsti páfi sem tók sér nafnið Benedikt var Benedikt 16. árið 2005.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. De Waal 14–15
  2. De Waal 43
  3. M. Meulenberg (1. febrúar 1922). „Benedikt páfi XV“. Bjarmi. Sótt 15. september 2019.
  4. Franzen 379
  5. Youssef Taouk, The Pope's Peace Note of 1917: the British response, Journal of the Australian Catholic Historical Society 37 (2) (2016) Geymt 26 febrúar 2019 í Wayback Machine, 193-207.
  6. Jósef Hacking (14. desember 1958). „Páfinn í Róm – postuli friðarins“. Sunnudagsblaðið. Sótt 15. september 2019.
  7. John R. Smestad Jr. (7. ágúst 2009). „Europe 1914–1945: Attempts at Peace“. The Student Historical Journal 1994–1995 Vol XXVI. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júlí 2009.
  8. Five of seven points of Benedict XV's peace plan.
  9. “Pope in New Note to Ban Conscription,” “New York Times,” 23. september 1917, A1
  10. “Pope would clinch peace. Urges abolition of conscription as way to disarmament, New York Times, 16. nóvember 1921, Associated Press.
  11. Jeffrey M. Shaw (Ph.D); Timothy J. Demy (Ph.D) (27. mars 2017). „Pacem, Dei Munus Pulcherrimum, a Papal Encyclical Issued by Pope Benedict (May 23, 1920)“. War and Religion: An Encyclopedia of Faith and Conflict [3 volumes] (enska). ABC-CLIO. bls. 928. ISBN 9781610695176.


Fyrirrennari:
Píus 10.
Páfi
(3. september 191422. janúar 1922)
Eftirmaður:
Píus 11.