Fara í innihald

Þorsteinn rauður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorsteinn rauður Ólafsson (eða Þorsteinn rauði) var norrænn víkingur og herkonungur á 9. öld, sonur Auðar djúpúðgu Ketilsdóttur og Ólafs hvíta Ingjaldssonar, herkonungs í Dyflinni.

Þorsteinn fór með móður sinni til Suðureyja eftir fall föður síns en þar voru flestir ættmenn Auðar. Þar giftist hann Þuríði, dóttur Eyvindar austmanns Bjarnarsonar og systur Helga magra. Þau eignuðust mörg börn.

Þorsteinn gerðist herkonungur og í Landnámu segir að hann hafi ráðist til með Sigurði (jarli) hinum ríka Eysteinssyni, bróður Rögnvaldar Mærajarls. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ros og Merrhæfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir en síðan sviku Skotar hann, og féll hann þar í orustu. Fyrir Sigurði jarli fór líka illa; hann drap skoska jarlinn Melbrigða tönn og festi höfuð hans við reiðtygi hests síns en rak sig í skögultönnina sem stóð út úr haus Melbrigða og særðist á kálfa. Af því fékk hann blóðeitrun og dó.

Auður móðir Þorsteins fór með ekkju hans og börn til Íslands. Sonur hans var Ólafur feilan en dæturnar voru Gró, sem Auður gifti í Orkneyjum, Ólöf, sem hún gifti í Færeyjum, Ósk, kona Hallsteins goða, sonar Þórólfs Mostrarskeggs, Þórhildur, sem giftist Eysteini meinfret Álfssyni, Vigdís, en maður hennar var Kampa-Grímur, landnámsmaður í Köldukinn, og Þorgerður, sem fyrst giftist Dala-Kolli Veðrar-Grímssyni og fór síðan til Noregs og giftist þar Herjólfi Eyvindssyni.