Fara í innihald

Guðmundar- og Geirfinnsmálið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Geirfinnsmálið)
Guðmundar- og
Geirfinnssmálið
Mannshvarf og sakamál
Mannshvörf
Guðmundur Einarsson (f. 1955)
Horfinn 26. janúar 1974 (18 ára)
Geirfinnur Einarsson (f. 1942)
Horfinn 19. nóvember 1974 (32 ára)
Sakborningar

Sævar Ciesielski (f. 1955, d. 2011)
Kristján Viðar Júlíusson (f. 1955, d. 2021)
Tryggvi Rúnar Leifsson (f. 1951, d. 2009)
Guðjón Skarphéðinsson (f. 1943)
Albert Klahn Skaftason (f. 1955)
Erla Bolladóttir (f. 1955)

Guðmundar- og Geirfinnsmálið er viðamikið sakamál sem snýr að óútskýrðu hvarfi tveggja manna árið 1974, Guðmundi og Geirfinni. Sex manns fengu dóm vegna aðkomu sinnar að málinu, þau höfðu játað að hafa orðið mönnunum að bana eftir langar yfirheyrslur og vistun í einangrun, þrátt fyrir að engin sönnunargögn hefðu komið fram sem bendluðu þau við málið.

Málið var tekið upp að nýju árið 2018, 44 árum eftir hvörfin. Sýknaði hæstiréttur þá alla sakborninga, að undanskilinni Erlu.[1]

Lík Guðmundar og Geirfinns hafa aldrei fundist.

Mannshvörf

[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur Einarsson

[breyta | breyta frumkóða]

Guðmundur var 18 ára verkamaður sem hafði farið með félögum sínum á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði laugardagskvöldið 26. janúar 1974. Hann varð viðskila við vini sína og sást síðast til hans ásamt öðrum manni á götu í Hafnarfirði þar sem þeir reyndu að húkka sér far. Talið var að hann væri með Kristjáni Viðari Júlíussyni, skólafélaga sínum. Ekki sást aftur til Guðmundar. Leitað var að honum í hrauninu í Hafnarfirði, en leitinni var hætt vegna mikis fannfergis.

Geirfinnur Einarsson

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrum mánuðum síðar, þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974, hvarf annar maður, hinn 32 ára Geirfinnur Einarsson. Geirfinnur starfaði við byggingarvinnu og bjó í Keflavík. Hann var tveggja barna faðir. Guðmundur og Geirfinnur voru ekki skyldir, þrátt fyrir að hafa sama föðurnafn.

Hvarf Geirfinns þótti afar dularfullt. Kvöldið sem hann hvarf hringdi ókunnur maður í hann og mælti sér mót við hann í Hafnarbúðinni í Keflavík. Eftir lýsingum vitna á ókunna manninum var gerð leirstytta, sem í hálfkæringi var kölluð „Leirfinnur“.

Sævar Ciesielski var 19 ára góðkunningi lögreglunnar. Rúmu ári eftir hvarf Geirfinns, í desember 1975, var hann var handtekinn ásamt kærustu sinni Erlu Bolladóttur vegna óskylds máls, fölsunar á póstávísunum. En lögregla hafði einnig heyrt orðrómu um aðild hans að hvarfi Geirfinns. Parið átti saman kornunga dóttur. Við yfirheyrslu náði lögregla fram játningu frá Erlu á ávísnafalsinu. Eftir játninguna reyndi lögregla svo að bendla Erlu við hvarf Guðmundar, þar sem þau höfðu verið skólafélagar. Þeim var haldið áfram í gæsluvarðhaldi þar til að játning fékkst með látlausum yfirheyrslum sem stóðu yfir dögum saman, daga og nætur, þar sem sakborningum var ekki leyft að leita sér lögfræðiaðstoðar. Sævar játaði að hann og nokkrir félagar hans hefðu komið að glæpnum. Flestir í vinahópnum tengdust skemmtistaðnum Klúbbnum og voru flestir á sakaskrá fyrir ýmsa smáglæpi.

Sexmenningunum var haldið í gæsluvarðhaldi og einangrun svo mánuðum skipti í Síðumúlafangelsinu, bæði vegna hvarfa þeirra Guðmundar og Geirfinns en líka vegna ótengds fjársvika- og póstsvikamáls sem lögregla hafði til rannsóknar. Þeim var hótað áframhaldandi einangrun væru þau ekki samvinnufús. Sumum þeirra var haldið í gæsluvarðhaldi í meira en 4 ár.

Sakborningarnir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar játuðu að lokum að hafa orðið Guðmundi að bana. Morðið átti að hafa átt sér stað eftir að slagsmál brutust út milli þeirra. Eftir áframhaldandi einangrun játaði Albert Klahn að hafa aðstoðað félaga sína við að flytja lík Guðmundar og falið það í sprungu í Hafnarfjarðarhrauni.

Lögregla hafði nú náð að knýja fram fjölmargar játningar og taldi að hér væri um að ræða alvarlega klíku morðingja, með Sævar sem forsprakka gengisins.

Upphafi rannsóknarinnar stýrði Valtýr Sigurðsson, fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík. Valtýr gegndi síðar stöðu forstjóra Fangelsismálastofnunar 2004 til 2008 og stöðu ríkissaksóknara frá 2008 til 2011.

Saksóknari í málinu var Þórður Björnsson, ríkissaksóknari.

Aðkoma þýska rannsóknarforingjans

[breyta | breyta frumkóða]

Í ágúst 1976 var þýskur rannsóknarforingi á eftirlaunum, Karl Schütz, fenginn til að stýra rannsókn málsins sem þá var í miklum hnút. Karl var þekktur fyrir að hafa brotið á bak Rauðu herdeildina, þýskum kommúnískum skæruliðasamtökum. Í seinni tíð hafa margir sett spurningamerki við hvers vegna óupplýst mannshvörf hér á landi gætu talist verðugt verkefni fyrir þýskan lögreglumann á eftirlaunum sem einkum hafði sérhæft sig í málum er varða öryggi ríkisins.

Karl kom á fót starfshóp rannsóknarlögreglumanna. Í starfshópnum störfuðu tíu manns, sem var þá þriðjungur af öllum rannsóknarlögreglum landsins.

Rannsóknin miðaði mikið að því að finna mann sem Sævar og Kristján höfðu minnst á í yfirheyrslum og vísað til sem „útlendingslega mannsins“. Taldi lögregla að hér hlyti að vera rætt um Guðjón Skarphéðinsson, sem hafði óneitanlega útlendingslegt yfirbragð yfir sér. Guðjón hafði áður verið bendlaður við fyrri eiturlyfjasmygl Sævars. Þrátt fyrir að Guðjón virtist allur af vilja gerður að aðstoða við rannsóknina glímdi hann við minnisglöp og gat ómögulega lýst förum sínum á fyrri árum.

Rannsóknarforinginn Karl beitti sakborningana miklum þrýstingi að veita skriflega játningu á meintum glæp sínum. Sakborningarnir voru teknir út í Hafnarfjarðarhraun þar sem meiningin var að þau gætu bent á líkin. Síðasta játningin í málinu fékkst 8. desember 1976 frá Guðjóni og höfðu þá allir sakborningar veitt skriflega játningu á þætti sínum í morðunum á bæði Guðmundi og Geirfinni.

Sönnunargögn fundust engin og sakborningar glímdu allir við þokukennt minni eftir langt gæsluvarðhald.

Í janúar 1977 lauk svo rannsókn Karl Schütz eftir sviðsetningu atburða við Dráttarbrautina í Keflavík en þar töldu rannsóknarlögreglumenn að Geirfinni hefði verið ráðinn bani. Þrátt fyrir umfangsmikla leit fannst ekki lík Geirfinns.

Fyrsti dómur féll í héraðsdómi Reykjavíkur í desember 1977. Ungmennin voru fundin sek og dæmd til fangelsisvistar, þar af fékk Sævar þyngsta dóminn og var dæmdur í ævilangt fangelsi.

Í dómi Geymt 27 febrúar 2017 í Wayback Machine Hæstaréttar árið 1980 var sekt ungmennana staðfest. Fangelsisdómur var mildaður hjá flestum, og var Sævar þá dæmdur í 17 ára fangelsi.

Geirfinnsmálið hefur verið í umræðu í þjóðfélaginu í a.m.k. tvo áratugi en algjör skortur var á sönnunargögnum fyrir utan játningar sakborninga, sem þau hafa öll dregið til baka og hefur umræðan síðustu ár snúist um rannsóknaraðferðir lögreglu og meint harðræði við rannsókn málsins.

Endurupptaka Geirfinnsmálsins

[breyta | breyta frumkóða]

Einn sakborninga, Sævar Ciesielski, reyndi að fá málið tekið upp að nýju árið 1996, en án árangurs. Í umræðu um réttarfarsdómstól á Alþingi hinn 6. október 1998 kom Davíð Oddsson mörgum á óvart er hann hvatti til endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Guðmundar- og Geirfinnsmálið var tekið upp á ný af hæstarétti Íslands árið 2018. Þann 27. september sama ár voru allir hinir dómteknu í málinu sýknaðir.[2] Daginn eftir bað Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrrverandi sakborningana afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.[3]

Geirfinnsmálið hefur verið gagnrýnt fyrir að draga fram falskar minningar(en) hjá sakborningunum, bæði með harkalegum yfirheyrsluaðferðum og með að dregið sakborninga á staði og látið þá leika glæpi sína eftir. Helsti gagnrýnandi þess hefur verið Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur.

Sakborningar

[breyta | breyta frumkóða]

Sævar Marinó Ciesielski (f. 1955, d. 2011)

[breyta | breyta frumkóða]

Sævari var haldið í gæsluvarðhaldi í samanlagt 1.533 daga. Hann fékk þyngsta dóminn af öllum sakborningum. Héraðsdómur dæmdi hann í ævilangt fangelsi, en hæstiréttur mildaði hann niður í 17 ára fangelsisvist. Sævar var laus úr fangelsi eftir 9 ár.

Einangrunarvistin hafði langvarandi skaðlegar afleiðingar á Sævar.[4]

Sævar lést af slysförum árið 2011. Faðir Sævars var veðurfræðingur frá Kraká, Póllandi.

Kristján Viðar Júlíusson (f. 1955, d. 2021)

[breyta | breyta frumkóða]

Kristján hafði áður lent í kasti við lögin vegna eiturlyfja og innbrota.

Kristjáni var haldið í gæsluvarðhaldi í 1.522 daga. Hæstiréttur dæmdi hann í 16 ára fangelsi.

Tryggvi Rúnar Leifsson (f. 1951, d. 2009)

[breyta | breyta frumkóða]

Tryggva var haldið í gæsluvarðhaldi í 1.535 daga. Hann var dæmdur í 13 ára fangelsi.

Guðjón Skarphéðinsson (f. 1943)

[breyta | breyta frumkóða]

Guðjóni var haldið í gæsluvarðhaldi í 1.202 daga. Hann var dæmdur í 10 ára fangelsi en var laus eftir 4 ár. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, veitti Guðjóni uppreist æru árið 1995 (þ.e. að hann fékk á ný öll sín réttindi sem borgari). Eftir lausn sína úr fangelsi gerðist Guðjón prestur og starfaði sem sóknarprestur í Staðastað.

Albert Klahn Skaftason (f. 1955)

[breyta | breyta frumkóða]

Einu afskipti lögreglu af Alberti höfðu verið vegna vörslu kannabis.

Alberti var haldið í gæsluvarðhaldi í 118 daga. Hann var dæmdur í 1 árs fangelsi.

Erla Bolladóttir (f. 1955)

[breyta | breyta frumkóða]

Erlu var haldið í gæsluvarðhaldi í 239 daga. Hún var dæmd í 3 ára fangelsi í hæstarétti.

  • „Hótanir og ónæði leiddu til handtöku fjörmenninganna“; grein í Dagblaðinu 1976
  • „Játar að hafa skotið Geirfinn Einarsson“; grein í Þjóðviljanum 1976
  • „Rannsókn Geirfinnsmálsins misheppnuð frá upphafi“; 1. grein í Mánudagsblaðinu 1976
  • „Ef þú kjaftar frá mínu svindli, skal ég segja frá þínu“; 2. grein í Mánudagsblaðinu 1976
  • „Tíminn vill handtöku Hauks Guðmundssonar“; 3. grein í Mánudagsblaðinu 1976
  • „Mál 214: Vefur um Geirfinnsmálið“. Sótt 1. mars 2006.
  • Eftirmáli við endurupptökubeiðni Sævars Ciesielskis Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine

Erlendir tenglar

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Dómur Hæstaréttar, mál númer 521/2017“. www.haestirettur.is.
  2. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (27. september 2018). „Allir sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum“. Vísir.is. Sótt 27. september 2018.
  3. „Katrín biður fyrrverandi sakborninga afsökunar“. mbl.is. 28. september 2018. Sótt 30. september 2018.
  4. „„Ég vaknaði kannski upp með andfælum og öskrum" - Vísir“. visir.is.