Leirfinnur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Leirfinnur er gælunafn notað um leirstyttu, sem kom við sögu í Geirfinnsmálinu. Styttan er brjóstmynd af karlmanni, sem listakonan Ríkey gerði eftir lýsingu sjónarvotta, af manni sem hringdi úr Hafnarbúðinni í Keflavík, kvöldið 19. nóvember 1974. Talið var að óþekkti maðurinn hafi hringt í Geirfinn Einarsson og boðaði hann á stefnumót umrætt kvöld, en ekkert hefur síðar spurst til Geirfinns. Leirstyttan var gerð í þeim tilgangi að hafa upp á manninum sem hringdi úr Hafnarbúðinni með því að birta ljósmynd af styttunni í dagblöðum og lýsa þannig eftir honum. Nafnið „Leirfinnur“ á einnig við um þennan óþekkta mann.

Því hefur verið haldið fram að leirstyttan hafi vísvitandi verið látin líkjast Magnúsi Leopoldssyni, fasteignasala, sem síðar var handtekinn og haldið í einangrun í 105 daga í Síðumúlafangelsi. Teiknari úr Keflavík, Magnús Gíslason, hefur sagt að rannsóknarmenn hafi látið sig hafa ljósmynd af Magnúsi Leopoldssyni, sem fyrirmynd að teikningu, sem hann átti að gera af umræddum „Leirfinni“. Þessi ásökun hefur þó verið borin til baka opinberlega.[1]

Leikin heimildakvikmynd, Aðför að lögum eftir Sigurstein Másson, Kristján Guy Burgess og Einar Magnús Magnússon, fjallar um Geirfinnsmálið, þar með talið um Leirfinn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ætluðu ekki að láta leirmyndina líkjast Magnúsi“. mbl.is. Sótt 6. mars 2013.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]