Gátt:Úrvalsefni/m

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úrvalsgrein[breyta frumkóða]

Brjóstmynd af Ágústus
Brjóstmynd af Ágústus

Ágústus einnig nefndur Augustus, Caesar Ágústus, Caesar Augustus, Octavíanus eða Octavíanus Ágústus (Latína:IMPERATOR CAESAR DIVI FILIVS AVGVSTVS Imperator Caesar, sonur hins guðlega, Ágústus; 23. september 63 f.Kr.19. ágúst 14 e.Kr.), var fyrsti og einn mikilvægasti keisari Rómaveldis, enda þótt hann upphefði ekki stöðu sína og kysi fremur titilinn princeps, sem þekktist frá lýðveldistímanum og er venjulega þýddur „fyrstur borgaranna“. Nafn Ágústusar, sem hét raunverulega Octavíanus og þar áður Octavíus, var upphaflega virðingartitill (myndaður af sögninni augeo, sem þýðir að auka eða upphefja, lofa eða dýrka), sem öldungaráð Rómar veitti honum árið 27 f.Kr. Sú venja er meðal sagnfræðinga að nota nafnið Octavíanus til að vísa til hans fyrir árið 27 f.Kr. en Ágústus eftir árið 27 f.Kr. Verður þeirri reglu fylgt hér.

Octavíanus var erfingi Júlíusar Caesars, sem var ömmubróðir hans. Eftir morðið á Caesari gekk Octavíanus í bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Lepidusi. Þegar slitnaði upp úr bandalaginu kom til átaka milli Marcusar Antoniusar og Octavíanusar, sem hafði betur. Í kjölfarið komst Octavíanus til valda í Róm. Hann viðhélt hefðum rómverska lýðveldisins að forminu til en var í reynd sjálfráður einvaldur í yfir 40 ár. Valdatími hans myndar skiptinguna á milli lýðveldistímans og keisaratímans í Róm en keisaratíminn er venjulega talinn hefjast árið 27 f.Kr. Hann batt enda á borgarastríð sem áður hafði geisað og leiddi Róm inn í nýjan tíma hagsælda og friðar, Pax Romana eða Rómarfriðarins. Hann var giftur Liviu Drusillu í 51 ár.

Lesa áfram um Ágústus...


Gæðagrein[breyta frumkóða]

Robert Koch
Robert Koch

Heinrich Hermann Robert Koch (fæddur 11. desember 1843, dáinn 27. maí 1910) var þýskur læknir og örverufræðingur. Hann þróaði margar þeirra grunnaðferða sem enn eru notaðar við ræktun baktería og er því oft sagður „faðir bakteríufræðanna“. Hann er þekktastur fyrir uppgötvanir sínar í sýklafræði, einkum fyrir að hafa fundið orsakavalda miltisbrands, berkla og kóleru og fyrir skilgreiningu sína á þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að tiltekin örvera geti óyggjandi talist orsök ákveðins sjúkdóms.

Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1905 fyrir að uppgötva berklabakteríuna. Hann hafði mótandi áhrif á störf Paul Ehrlichs og Gerhard Domagks.

Lesa áfram um Robert Koch...