Gátt:Úrvalsefni/m

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Úrvalsgrein[breyta frumkóða]

Ágústus einnig nefndur Augustus, Caesar Ágústus, Caesar Augustus, Octavíanus eða Octavíanus Ágústus (Latína:IMPERATOR CAESAR DIVI FILIVS AVGVSTVS Imperator Caesar, sonur hins guðlega, Ágústus; 23. september 63 f.Kr.19. ágúst 14 e.Kr.), var fyrsti og einn mikilvægasti keisari Rómaveldis, enda þótt hann upphefði ekki stöðu sína og kysi fremur titilinn princeps, sem þekktist frá lýðveldistímanum og er venjulega þýddur „fyrstur borgaranna“. Nafn Ágústusar, sem hét raunverulega Octavíanus og þar áður Octavíus, var upphaflega virðingartitill (myndaður af sögninni augeo, sem þýðir að auka eða upphefja, lofa eða dýrka), sem öldungaráð Rómar veitti honum árið 27 f.Kr. Sú venja er meðal sagnfræðinga að nota nafnið Octavíanus til að vísa til hans fyrir árið 27 f.Kr. en Ágústus eftir árið 27 f.Kr. Verður þeirri reglu fylgt hér.

Octavíanus var erfingi Júlíusar Caesars, sem var ömmubróðir hans. Eftir morðið á Caesari gekk Octavíanus í bandalag með Marcusi Antoniusi og Marcusi Lepidusi. Þegar slitnaði upp úr bandalaginu kom til átaka milli Marcusar Antoniusar og Octavíanusar, sem hafði betur. Í kjölfarið komst Octavíanus til valda í Róm. Hann viðhélt hefðum rómverska lýðveldisins að forminu til en var í reynd sjálfráður einvaldur í yfir 40 ár. Valdatími hans myndar skiptinguna á milli lýðveldistímans og keisaratímans í Róm en keisaratíminn er venjulega talinn hefjast árið 27 f.Kr. Hann batt enda á borgarastríð sem áður hafði geisað og leiddi Róm inn í nýjan tíma hagsælda og friðar, Pax Romana eða Rómarfriðarins. Hann var giftur Liviu Drusillu í 51 ár.

Lesa áfram um Ágústus...


Gæðagrein[breyta frumkóða]

Lögun hins ameríska fótbolta er afar frábrugðinn þeirri tegund knatta sem notaðir eru í knattspyrnu.

Amerískur fótbolti, þekktur innan Bandaríkjanna og Kanada sem football sem þýðir fótbolti á íslensku, er hópíþrótt sem er þekkt fyrir mikla hörku þrátt fyrir að vera þaulskipulögð. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að koma boltanum að marklínu andstæðingsins. Til þess að koma boltanum áfram má kasta honum, hlaupa með hann eða rétta hann öðrum liðsfélaga. Stig eru skoruð á marga vegu, m.a. með því að koma boltanum yfir marklínuna eða með því að sparka boltanum milli markstanganna. Sigurvegari leiksins er liðið sem skorað hefur flest stig að leik loknum. Stærsta deild í heimi sem spilar amerískan fótbolta er NFL-deildin í Bandaríkjunum.

Mörgu fólki utan Bandaríkjanna og Kanada hefur þótt það skrýtið að íþrótt þar sem boltinn er aðallega snertur með höndunum skuli vera kölluð fótbolti. Einföld skýring er á því. Á seinni hluta 19. aldar var gerður greinarmunur á íþróttum sem spilaðar voru á hestum og þeim sem spilaðar voru á fótum. Fótbolti er spilaður á fótum, en ekki hestum, og orðið fótbolti festist við íþróttina.

Lesa áfram um amerískan fótbolta...