Eiríkur rauði Þorvaldsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eiríkur rauði Þorvaldsson
Fæddur
Eiríkur Þorvaldsson

DáinnUm 1006
StörfHöfðingi yfir Grænlandi
Þekktur fyrirnam fyrstur land á Grænlandi og nefndi landið
TrúÁsatrú
MakiÞjóðhildur Jörundardóttir
BörnLeifur heppni Eiríksson
ForeldrarÞorvaldur Ásvaldsson

Eiríkur rauði Þorvaldsson (d. um 1006) var fyrstur til að nema land á Grænlandi og var faðir Leifs Eiríkssonar. Eiríkur fæddist í Noregi og var sonur Þorvaldar Ásvaldssonar, en kallaður „rauði“ vegna hárlitarins. Þeir feðgar flæmdust frá Noregi vegna vígamála. Sigldu þeir þá til Íslands og nam Þorvaldur land á Dröngum á Ströndum. Íslendingasagan Eiríks saga rauða segir frá ævi hans.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt því sem segir í Eiríks sögu rauða kvæntist Eiríkur Þjóðhildi, dóttur Jörundar Úlfssonar skjálga, og flutti þá suður í Haukadal í Dölum, ruddi þar land og bjó á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni.

Eiríki gekk illa að lynda við aðra menn og var hann rekinn úr Haukadal eftir að hann var dæmdur sekur vegna vígaferla. Þá fór hann í eyna Brokey á Breiðafirði en var einnig rekinn þaðan fyrir vígaferli og varð útlagi að nýju 982. Ákvað hann um þær mundir að leita lands vestan Íslands en maður nokkur, sem Gunnbjörn Úlfsson hét, hafði talið sig hafa séð eyju norðan Íslands og nefndi Gunnbjarnarsker.

Samkvæmt Eiríks sögu rauða varði hann þremur árum útlægur í að kanna strönd Grænlands. Sneri hann svo aftur til Íslands og sagði miklar og fagrar sögur af þessu nýfundna landi. Árið 985 hafði hann svo safnað fjölmennu liði og sneri með því aftur til Grænlands og stofnaði tvær nýlendur á vesturströndinni, Eystribyggð og Vestribyggð. Í Eystribyggð reisti hann stórbýlið Brattahlíð fyrir sig og sína, nálægt þar sem Narsarsuaq stendur nú. Eiríkur var þá orðinn háhöfðingi Grænlands. Í upprunalegum leiðangri Eiríks voru 25 skip, sennilega knerrir, en aðeins 14 komust til Grænlands. Hin 11 ýmist fórust í ofsaviðri eða sneru til baka.

Tilgátubær Eiríks rauða hefur verið reistur á Eiríksstöðum í Haukadal með hliðsjón af rannsóknum fornleifafræðinga á rústum sem þar hafa verið grafnar upp og rannsakaðar.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]